Vaðlaheiði er heiði eða fjall milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Yfir heiðina lá áður Þjóðvegur 1 í fjölmörgum beygjum og sveigjum, einkum austan megin, en þar voru beygjurnar 13 talsins. Vegurinn lá hæst í um 520 m hæð og heitir Steinsskarð efst á heiðinni þar sem vegurinn liggur. Hann var lagður um 1930. Efst á heiðinni er gamall húsgrunnur og hafa sumir getið þess til að þar hafi staðið sá frægi „Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr“ en það er oft talið lengsta orð í íslensku. Endurvarps- fjarskiptastöð er á hæstu bungu norðan Steinsskarðsins (613m).

Vaðlaheiði. Á miðri mynd eru Vaðlarnir eða leirurnar sem heiðin dregur nafn af og áður raunar sýslan öll því Eyjafjarðarsýsla hét áður Vaðlasýsla.
Vaðlaheiði. Á miðri mynd eru Vaðlarnir eða leirurnar sem heiðin dregur nafn af og áður raunar sýslan öll því Eyjafjarðarsýsla hét áður Vaðlasýsla.

Árið 1985 var þjóðvegurinn færður út í Víkurskarð og hætt að mestu að nota gamla Vaðlaheiðarveginn. Árið 2018 opnuðu Vaðlaheiðargöng sem styttu leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km.[1]

Vaðlaheiði er víðast hvar nokkuð vel gróin og af henni er mikið útsýni um Eyjafjörð og Fnjóskadal. Árið 1784 var 35 hreindýrum sleppt á Vaðlaheiði. Þeim fjölgaði nokkuð ört en hurfu af heiðinni og úr Fnjóskadalsafrétti snemma á 19. öld, sum drápust eða voru felld en önnur eru talin hafa leitað í austurátt.

Rétt sunnan Vaðlaheiðar er hið grunna Bíldsárskarð upp af Kaupangi. Þar var fyrrum vörðuð og greiðfær alfaraleið til Fnjóskadals. Landnáma segir, að Helgi magri hafi byggt sér skála að Bíldsá annað árið sitt við Eyjafjörð. Líklega hefur Helgi lagt skipum sínum skammt norðan þessa bústaðar við svonefndan Festarklett við ósa Bíldsár. Þarna dvaldist hann í bráðabirgðaskála áður en hann fluttist að Kristnesi.

Böðvar Guðmundsson skáld orti um Vaðlaheiði, þegar hann bjó á Akureyri:

Ó Vaðlafjallið vetrarblátt,
þú Vaðlaheiðin svása,
þú veitir skjól í austannátt
er austanvindar blása.
Þú útsýn vorri yfirleitt
til efstu hæða lyftir
og handan þín er naumast neitt
sem nokkru máli skiptir.

Tenglar breyta

  1. hf, Vaðlaheiðargöng. „Um göngin“. Vaðlaheiðargöng. Sótt 11. apríl 2023.