Vöðu-Brands þáttur

Vöðu-Brands þáttur er Íslendingaþáttur sem er felldur inn í Ljósvetninga sögu. Þar segir frá Vöðu-Brandi Þorkelssyni frá Mýri í Bárðardal, sem var hinn mesti vandræðamaður, ódæll og illur viðureignar. Hann sigldi út með Norðmönnum sem hann hafði kynnst og kom aftur seint um haust á skipi sem lenti í Reyðarfirði. Þá var færð þung vegna snjóa og komst Brandur ekki heim til sín, heldur fékk vetursetu hjá Þorkatli Geitissyni í Vopnafirði. Þar hélt hann uppi miklu fjöri og höfðu konur á búi Þorkels engan frið fyrir honum og félögum hans. Varð því úr að hann fór til föður síns, en skömmu eftir að þangað kom veitti hann manni mikinn áverka og sendi faðir hans hann aftur til Þorkels Geitissonar.

Guðmundur ríki Eyjólfsson tók að sér málið fyrir manninn og stefndi Brandi til Vaðlaþings en Þorkell sótti ráð til Þorsteins Síðu-Hallssonar vinar síns, sem reið með honum á vorþingið. Ekki náðust þó sættir og stefndu Guðmundur og Þorkell hvor öðrum til Alþingis og riðu þangað báðir með liðsafnað. Illa þótti horfa um sættir en þá brá Þorsteinn á það ráð að biðja Jórunnar, dóttur Einars Þveræings bróður Guðmundar, fyrir konu handa Þorkatli. Einar samþykkti það og gat Guðmundur þá ekki annað en sæst við Þorkel, þegar þeir voru orðnir mægðir.

Vöðu-Brandur varð bóndi á föðurleifð sinni og þótti stillast mjög með aldrinum.

Tengill breyta

  • „Ljósvetninga saga á snerpa.is“.