Uppreisnin í Austur-Þýskalandi 1953

Uppreisnin í Austur-Þýskalandi 1953 var hrina mótmæla gegn stjórn Austur-Þýskalands 16. og 17. júní 1953. Óeirðirnar hófust með verkfalli verkamanna í byggingariðnaði í Austur-Berlín 16. júní vegna óánægju með aukna vinnuskyldu og aðrar aðgerðir stjórnvalda til að rétta við efnahag landsins sem var í molum. Mótmælin undu hratt upp á sig og daginn eftir voru fjölmenn mótmæli um allt land. Stjórnin sá að hún réði ekki við ástandið og óskaði því eftir aðstoð Sovéska hersins. Þýski alþýðuherinn var líka kallaður út og til átaka kom í Austur-Berlín. Ekki er vitað með vissu hve margir féllu en fjöldi þekktra fórnarlamba er aðeins 55. Fjöldahandtökur fylgdu í kjölfarið og á næstu dögum voru mótmælin smám saman brotin á bak aftur.

Sovéskur skriðdreki í Leipzig 17. júní 1953.