Toussaint Louverture

François-Dominique Toussaint Louverture (20. maí 1743 – 7. apríl 1803), einnig kallaður Toussaint L’Ouverture eða Toussaint Bréda, var þekktasti leiðtogi haítísku byltingarinnar.[1] Hernaðar- og stjórnmálakænska hans tryggði sigur svartra uppreisnarmanna í nóvember árið 1791. Hann barðist með Spánverjum gegn Frökkum; með Frökkum gegn Spánverjum og Bretum og loks fyrir nýlenduna Saint-Domingue gegn franska keisaradæminu. Hann hjálpaði síðan til við að umbreyta uppreisninni í allsherjar byltingu sem hafði árið 1800 breytt Saint-Domingue, arðsælustu þrælanýlendu síns tíma, í fyrsta frjálsa nýlendusamfélagið sem hafnaði stéttskiptingu á grundvelli kynþáttar.

Toussaint Louverture
Málverk af Toussaint Louverture gert eftir dauða hans.
Landstjóri Haítí
Í embætti
3. júlí 1801 – 6. maí 1802
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. maí 1743
Saint-Domingue (nú Haítí)
Látinn7. apríl 1803 (59 ára) Fort de Joux, Frakklandi
ÞjóðerniHaítískur
MakiSuzanne Simone Baptiste Louverture
StarfHerforingi, byltingarmaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip breyta

Talið er að Toussaint hafi fæðst 20. maí 1743 þó það sé ekki vitað með vissu. Hann var sonur Gaou og Pauline Guinou, elstur margra systkina. Hann var alinn upp sem þræll í Saint Domingue. Eigandi hans var de Breda greifi, en Toussaint var heppinn að því leyti að bæði foreldrar hans og Breda hvöttu hann til þess að læra bæði að lesa og skrifa. Það var ekki algengt meðal þræla að þeir fengju slík tækifæri. Toussaint hafði mjög gaman af lestri og greip allar bækur sem hann komst í. Hann náði sér meðal annars í þekkingu um lækningajurtir og einnig sýndi hann mikinn áhuga  á heimspekilegum málefnum. Þegar hann var 20 ára að aldri talaði hann þrjú tungumál, frönsku, latínu og kreólsku.  Einnig  hlaut hann kennslu í guðfræði og tók kaþólsku. Eigandi Toussaint veitti honum frelsi þegar hann var 33 ára gamall. Toussaint þótti mjög vel lesinn og er einn af höfundum fyrstu stjórnaskrár Haítí.

Toussaint var giftur konu að nafni Suzanne Simone Baptiste Louverture sem er talin hafa verið frænka hans. Hann eignaðist mörg börn með ýmsum konum en aðeins tvö þeirra átti hann með eginkonu sinni.

Toussaint og baráttan við Frakka breyta

Toussaint sleit aldrei sambandi við Frakkland en ákvarðanir hans árið 1800 gerðu Saint-Domingue að sjálfstæðri nýlendu að öllu nema nafninu til. Stjórnarskrá nýlendunnar gerði hann að landstjóra til lífstíðar þrátt fyrir andmæli Napóleons Bónaparte.[2] Toussaint dó áður en síðasti og blóðugasti kafli átakanna hófst en árangurinn sem hann hafði náð lagði grunninn að fullnaðarsigri svörtu byltingarmannanna og fyrir því að Jean-Jacques Dessalines gat lýst yfir sjálfstæði og fullveldi Haítí árið 1804. Hlutverk Toussaints í sigri Haítimanna gegn nýlenduvæðingu og þrælahaldi gerði hann dáðan bæði meðal vina sinna og óvina.[3][4]

Toussaint Louverture hóf hernaðarferil sinn sem leiðtogi í þrælauppreisninni árið 1791 í frönsku nýlendunni Saint-Domingue. Hann var þá frjáls blökkumaður og Jakobíni.[5] Toussaint var í fyrstu í bandalagi við Spánverja á nágrannanýlendunni Santo Domingo (sem er í dag Dóminíska lýðveldið) en gekk til liðs við Frakka þegar þeir afnámu þrælahald. Hann náði smám saman allri eyjunni undir sína stjórn og notaði bæði hervald og stjórnmálabrögð til að tryggja yfirburði sína gagnvart keppinautum. Á meðan hann sat á valdastól vann hann að umbótum á efnahag og öryggismálum Saint-Domingue. Hann endurreisti plantekrukerfi nýlendunnar með launuðu vinnuafli, samdi við Bretland og Bandaríkin um griðarsáttmála og rak stóran og agaðan her.[6]

 
Stytta af Toussaint Louverture í Bordeaux í Frakklandi.

Árið 1801 kynnti Toussaint til sögunnar stjórnarskrá sem gaf Saint-Domingue í reynd sjálfstæði og gerði hann sjálfan að landstjóra til lífstíðar. Árið 1802 neyddu útsendarar Napóleons hann til að segja að sér og komu aftur á frönskum yfirráðum á nýlendunni. Hann var fluttur til Frakklands, þar sem hann lést árið 1803. Ekki er vitað með vissu með dánarorsök, en talið er að það hafi látist úr berklum, vannæringu og lungnabólgu því skilyrðin í fangaklefanum voru afar slæm. Haítíska byltingin hélt áfram undir stjórn liðsforingja hans, Jean-Jacques Dessalines, sem lýsti yfir sjálfstæði þann 1. janúar 1804. Frakkar höfðu þá misst tvo þriðju heraflans sem þeir höfðu sent til eyjunnar til að kveða niður byltinguna, aðallega úr gulusótt.[7] Minnisvarðar hafa víða verið reistir til minningar um Toussaint, meðal annars í París.

Heimildir breyta

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. J. Clavin, Matthew (2012). Toussaint Louverture and the American Civil War: The Promise and Peril of a Second Haitian Revolution. University of Pennsylvania Press. bls. 229.
  2. Popkin, Jeremy D. (2012). A Concise History of the Haitian Revolution. John Wiley & Sons. bls. 114.
  3. Matthewson; "Abraham Bishop, "The Rights of Black Men", and the American Reaction to the Haitian Revolution"; The Journal of Negro History, Vol 67, No 2, Summer 1982, pp.148–154
  4. Elliott, Charles Wyllys (1855). St. Domingo, its revolution and its hero, Toussaint. New York: J.A. Dix. bls. 38.
  5. Vulliamy, Ed, ritstjóri (28. ágúst 2010). „The 10 best revolutionaries“. The Guardian. Sótt 15. desember 2015.
  6. de Cauna, Jacques. "Toussaint L'Ouverture et l'indépendance d'Haïti. Témoignages pour une commémoration", Paris, Ed. Karthala, 2004, bls. 7–8.
  7. de Cauna, Jacques. "Toussaint L'Ouverture et l'indépendance d'Haïti. Témoignages pour une commémoration", Paris, Ed. Karthala, 2004, bls. 7–8.