Tome (24. febrúar 1957 - 5. október 2019) var listamannsnafn belgíska myndasöguhöfundarins Philippe Vandevelde. Eftir hann liggja fjölmargar sögur, en kunnastur var hann sem höfundur bókanna um Sval og Val, ævintýri Litla-Svals og leynilögreglumannsins Soda.

Tome (Philippe Vandevelde)

Ferill breyta

Vandevelde fæddist í Brussel og fékk snemma brennandi áhuga á myndasögum. Hann gerðist aðstoðarteiknari hjá myndasagnahöfundinum Dupa, þar sem hann kynntist Janry sem átti eftir að verða samstarfsmaður hans um árabil. Jafnframt starfaði hann sem aðstoðarmaður fleiri kunnra listamanna. Má þar nefna Turk höfund myndasagnanna um uppfinningamanninn Leonard og De Groot höfund Clifton-bókanna.

Þeir Tome og Janry voru ráðnir til tímaritsins Svals árið 1979, en listamannsnöfn þeirra voru vísun í bandaríska teiknimyndaparið Tomma og Jenna. Tome fór fljótlega í hlutverk höfundarins en Janry sá meira um teiknihlutann, auk þess að koma að handritsgerðinni.

Þegar Fournier hætti skyndilega störfum sem aðalhöfundur Svals og Vals-sagnaflokksins ákváðu stjórnendur Dupuis-útgáfunnar að hverfa frá þeirri stefnu að hafa einn aðalhöfund. Þess í stað fólu þeir nokkrum listamönnum eða listamannatvíeykjum að semja sögurnar samhliða. Sögur þeirra Tome og Janry féllu best í kramið og urðu þeir senn aðalhöfundar.

Alls gerðu félagarnir fjórtán bækur um Sval og Val. Út frá þeirri spratt nýr sagnaflokkur um ævintýri Litla-Svals. Þrátt fyrir nafnið, rautt hárið og lyftuvarðarbúninginn hefur sú persóna í raun engin tengsl við Sval sjálfan. Tome segir að ævintýri Litla-Svals byggist að miklu leyti á hans eigin bernskuminningum og ævintýrum dóttur hans. Alls hafa sautján bækur komið út um Litla-Sval, sú síðasta árið 2015.

Samhliða vinnunni að þessum sagnaflokkum, samdi Tome efni fyrir raunsæislegri myndasögur. Þar eru kunnastar sögurnar um Soda, sem teiknaðar eru af Bruno Gazzotti. Þær eru blóðugar spennusögur af lögreglufulltrúa í New York sem berst við glæpamenn, en dulbýr sig þó sem kaþólskur prestur til að róa aldraða móður sína. Alls urðu bækurnar þrettán í ritröðinni.

Á árunum 1997 til 2002 samdi Tome þriggja bóka verk, Berceuse assassine, ásamt teiknaranum Ralph Meyer. Um er að ræða afar myrka sögu af hjartveikum leigubílsstjóra í New York sem dregst inn á brautir glæpa. Fyrsta ævintýri bókaflokksins Le Cœur de Telenko (Ísl. Hjarta Telenko) kom út á íslensku á vegum Nordic Comics árið 1999 undir heitinu Vögguvísa morðingjans.