Thomas-Alexandre Dumas

Thomas-Alexandre Dumas Davy de la Pailleterie (25. mars 1762 – 26. febrúar 1806) var hershöfðingi í byltingarher fyrsta franska lýðveldisins. Hann náði hærri hertign í evrópskum her en nokkur annar afrískættaður maður í sögu álfunnar.[1] Hann var fyrsti þeldökki maðurinn sem varð fylkishershöfðingi í franska hernum.[2] Dumas og Toussaint Louverture (sem varð stórhershöfðingi árið 1797[3]) voru hæst settu hermennirnir af afrískum uppruna í hernaðarsögu vesturheims til ársins 1975.

Thomas-Alexandre Dumas Davy de la Pailleterie
Alexandre Dumas, málverk eftir Olivier Pichat.
Fæddur25. mars 1762
Dáinn26. febrúar 1806
StörfHerforingi
TrúKaþólskur
MakiMarie-Louise Élisabeth Labouret
ForeldrarAlexandre Antoine Davy de la Pailleterie & Marie-Cessette Dumas

Æviágrip breyta

Thomas-Alexandre Dumas fæddist í nýlendunni Saint-Domingue (sem í dag er Haítí) og var sonur hvíts aðalsmanns að nafni Alexandre Antoine Davy de la Pailleterie og svartrar ambáttar hans, Marie-Cessette Dumas. Hann fæddist í þrældóm vegna stöðu móður sinnar en átti einnig tilkall til aðalsréttinda vegna stöðu föður síns. Faðir hans tók drenginn með sér til Frakklands árið 1776 svo hann gæti hlotið menntun. Þrælahald hafði verið ólöglegt á meginlandi Frakklands frá árinu 1315 og því hlutu þrælar sjálfkrafa frelsi sitt þegar þeir komu til landsins.[4] Faðir Thomas-Alexandre hjálpaði honum að ganga í franska herinn. Árið 1792 giftist Dumas Marie-Louise Élisabeth Labouret á meðan hann var staðsettur í Amiens.[5]

Dumas barðist og lék lykilhlutverk í frönsku byltingarstríðunum. Dumas hafði gengið í herinn sem óbreyttur hermaður þegar hann var 24 ára en þegar hann var 31 árs var hann orðinn stórhershöfðingi 53.000 manna her í Alpafjöllum. Dumas vann sigra í Alpafjöllum sem opnuðu leið franska hersins til Ítalíu, þar sem þeir háðu stríð við austurríska keisaradæmið. Í Ítalíuherförinni gáfu austurrískir hermenn Dumas viðurnefnið Schwarzer Teufel („Svarti djöfullinn“ eða Diable Noir á frönsku).[6] Frakkar, þar á meðal Napóleon, kölluðu Dumas „Horatius Coclès Týrólhéraðsins“[7] (í höfuðið á stríðshetju sem hafði bjargað Róm til forna[8]) fyrir að sigra her óvina við brú yfir Isarco-fljót.

Dumas var herforingi í riddaraliðssveit í innrás Frakka í Egyptaland. Er franski herinn gekk frá Alexandríu til Kaíró komst Dumas upp á kant við yfirherforingja leiðangursins, Napóleon Bónaparte, sem hann þekkti úr Ítalíuherförunum. Dumas sigldi frá Egyptalandi í mars árið 1799 en hann neyddist til að koma að landi í konungsríkinu Napólí, þar sem hann var tekinn til fanga og fleygt í dýflissu. Þar fékk hann að dúsa til vorsins 1801.

Dumas sneri heim til Frakklands eftir að honum var sleppt og eignaðist son með eiginkonu sinni. Sonurinn var Alexandre Dumas, sem átti síðar eftir að verða einn vinsælasti rithöfundur Frakklands. Margar persónur og sögur Alexandre Dumas voru byggðar á ævi föður hans.[9] Sonarsonur Dumas hershöfðingja, Alexandre Dumas yngri, varð einnig þekkt leikskáld á seinni hluta nítjándu aldar. Annar sonarsonur hans, Henry Bauër, varð þekktur leikhúsgagnrýnandi á sama tímabili.[10]

Tilvísanir breyta

  1. La Revue hebdomadaire, 2nd series, 4th year, v. 9, 4 August 1900, n.p., Figures contemporaines: Tirées de l'album Mariani v. 6 (Paris: H. Floury, 1901), n.p."Le Général Dodds".
  2. Tom Reiss, The Black Count: Glory, Revolution, Betrayal, and the Real Count of Monte Cristo (New York: Crown Publishers, 2012), bls. 145 og 147.
  3. Madison Smartt Bell, Toussaint Louverture: A Biography (New York: Vintage Books, 2007), 144.
  4. Christopher L. Miller, The French Atlantic triangle: literature and culture of the slave trade. Duke University Press. p.20
  5. Reiss (2012), The Black Count, bls. 139–141.
  6. Frásögn aðstoðarmanns Dumas, Dermoncourt, tilvitnun eftir Alexandre Dumas, père, Mes mémoires, v. 1 (Paris, 1881), 110.
  7. Alexandre Dumas, père, Mes mémoires, v. 1 (Paris, 1881), 127.
  8. Tom Reiss, The Black Count: Glory, Revolution, Betrayal, and the Real Count of Monte Cristo (New York: Crown Publishers, 2012), 213.
  9. Reiss (2012), The Black Count: Glory, Revolution, Betrayal, and the Real Count of Monte Cristo, pp. 12–14. See also Gilles Henry, Les Dumas: Le secret de Monte Cristo (Paris: France-Empire, 1999). Alexandre Dumas: A Biography and Study (London: Cassell and Co., 1950), 7.
  10. Marcel Cerf, Le mousquetaire de la plume: La vie d'un grand critique dramatique, Henry Bauër, fils naturel d'Alexandre Dumas, 1851–1915 (Paris: Académie d'Histoire, 1975.).