Theodor Herzl (2. maí 1860 – 3. júlí 1904) var austurrísk-ungverskur blaðamaður, leikritaskáld, pólitískur aðgerðasinni og rithöfundur. Hann er þó þekktastur fyrir að það að vera talinn faðir Síonismans. Theodor stofnaði Samtök Síonista, hvatti til aðflutnings gyðinga til Palestínu og stofnun ríkis þeirra þar.

Theodor Herzl
Herzl árið 1897.
Fæddur2. maí 1860
Dáinn3. júlí 1904 (44 ára)
StörfBlaðamaður, lögfræðingur, rithöfundur, aðgerðasinni
Þekktur fyrirUpphafsmaður pólitísks Síonisma.
TrúTrúleysi
MakiJulie Naschauer (g. 1889–1904)
Undirskrift

Æviágrip breyta

Theodor Herzl fæddist og ólst upp í Búdapest ásamt foreldrum sínum og systur sem var einu ári eldri hann. Foreldrar hans, Jakob og Jeanette Herzl, voru veraldlegir gyðingar og Theodor hlaut ekki trúarlegt uppeldi. Fjölskylda hans var þýskumælandi og hafði Theodor mikið dálæti á því sem þýskt var. Á unglingsárum sínum á Theodor að hafa þróað með sér óbeit á gyðingdómnum og talið að að ungverskir gyðingar, líkt og hann sjálfur, ættu að „hrista“ gyðingdóminn af sér og verða að siðmenntuðum Evrópubúum líkt og Þjóðverjar voru.

Árið 1878 var systir Theodor bráðkvödd og flutti fjölskyldan í kjölfarið til Vínarborgar þar sem Theodor hóf nám í lögfræði við Háskóla Vínarborgar. Eftir útskrift úr háskólanum og stuttan feril sem lögfræðingur hóf hann störf sem blaðamaður við Neue Freie Presse, sem var austurrískt blað en Theodor flutti til Parísar og varð tengiliður blaðsins þar í borg. Hann fjallaði náið um Dreyfus-málið svokallaða þar sem Alfred Dreyfus, höfuðsmaður í franska hernum, var sakaður um föðurlandssvik. Málaferlar yfir Dreyfus stóðu í 12 ár og einkenndust af óréttlæti og gyðingahatri. Theodor sagði seinna meir að Dreyfus-málið hafi haft djúpstæð áhrif á sig og að það hafi átt veigamikinn þátt í að snúa honum til Síonisma.[1]

Theodor fór að láta málefni evrópskra gyðinga sig miklu varða og beitti hann sér fyrir því að brjóta niður múra fordóma og haturs í garð gyðinga í Evrópu. Theodor komst þó að þeirri niðurstöðu að því að slík barátta gegn gyðingahatri væri vonlaus og eina lausnin fyrir gyðinga væri að flýja slíka fordóma og setjast að utan Evrópu. Hann skrifaði leikrit og blaðagreinar um raunir evrópskra gyðinga en ritsjórar blaðsins Neue Freie Presse neituðu að birta pólitísk skrif hans. Þess í stað hóf hann að skrifa og gefa út pólitíska bæklinga ætlaða gyðingum og árið 1896 gaf hann út bæklinginn Der Judenstaat (Ríki gyðinga).[2][3] Í bæklingnum gefur Theodor mögulega lausn við hinu svokallaða vandamáli gyðinga en það beindist að pólitískri og samfélagslegri stöðu þeirra í Evrópu á þessum tímum. Theodor færði rök fyrir því að gyðingar ættu að yfirgefa Evrópu og flytja til sögulegra heimkynna sinna í Palestínu. Hann taldi gyðinga búa yfir sameiginlegu þjóðerni og það eina sem þá vantaði var þeirra eigið þjóðríki. Aðeins með því að stofna sjálfstætt ríki gyðinga gætu þeir loksins sloppið undan fordómum, kúgun og hatri og fengið að iðka trú sína án kvaða. Skrif Theodor bárust eins og eldur um sinu um samfélög gyðinga í Evrópu og hlutu mikla athygli.

Hugmyndir Theodor hlutu einnig töluverðan hljómgrunn utan samfélaga gyðinga. Fékk hann meðal annars áheyrn frá ýmsum evrópskum þjóðarleiðtogum, þar á meðal Vilhjálmi 2. Þýskalandskeisara, en hann taldi að stuðningur slíkra leiðtoga myndi skipta sköpum í að fá gyðinga til að flykkjast að málstaði hans. Theodor ferðaðist einnig til Istanbúl árið 1896 í þeirri von um að hljóta áheyrn sjálfs soldáns Tyrkjaveldis. Hann vildi ræða við hann um mögulega stofnun ríkis gyðinga í Palestínu sem þá var hluti Tyrkjaveldis. Þau áform urðu hins vegar ekki að veruleika en þrátt fyrir það hitti hann og ræddi við nokkra háttsetta ráðamenn.

Frá Istanbúl ferðaðist Theodor til London og hitti þar fyrir síonísk samtök sem kölluðu sig Makkabea. Hann hafði fundað með forsvarsmönnum samtakanna ári áður en hlaut þar takmarkaða áheyrn og féllu tillögur hans í grýttan jarðveg. Nú í júlí 1896 var annað uppi á teningnum og tóku Makkabear honum fagnandi. Í austurhluta London bjó töluvert af gyðingum sem höfðu flust til borgarinnar frá Austur-Evrópu og hélt Theodor ræður fyrir hópinn á fjölmennum útifundi. Hlaut hann mikið lof fyrir og mikinn stuðning við hugmyndir sínar um ríki gyðinga. Makkabear útnefndu Thedor tals- og forystumann hinnar síonísku hreyfingar. Eftir þessa útnefningu uxu umsvif og fylgi hreyfingarinnar fiskur um hrygg og hóf Theodor útgáfu fyrsta síoníska fréttablaðsins Die Welt en blaðið hafði bækistöðvar í Vín. Theodor skipulagði og leiddi hina fyrstu ráðstefnu síonista í Basel í Sviss þann 29. ágúst 1897. Þar voru Heimssamtök síonista formlega stofnuð og var Theodor kosinn leiðtogi þeirra. Á ráðstefnunni voru samankomnir um 200 gyðingar frá sautján ríkjum. Á ráðstefnunni, sem stóð yfir í þrjá daga, voru stefnumál Heimssamtaka síonista ákveðin en þau snérust flest að því að stofna ríki gyðinga í Palestínu og hvetja gyðinga til að setjast þar að. Theodor hélt áfram leiðangri sínum í leit að stuðningi frá valdamiklum leiðtogum eða einstaklingum við málstað gyðinga. Hann hitti Vilhjálm 2. Þýskalandskeisara aftur, nú í Jerúsalem, og sóttist einnig eftir áheyrn Píusar páfa en án árangurs. Mestum árangri náði hann innan Bretlands þar sem töluvert af ráðamönnum, gyðingum og öðrum, voru samúðarfullir gagnvart málstaði síonista.

Árið 1903 buðu bresk yfirvöld Theodor og síonistum landsvæði í Úganda sem þá var hluti breska heimsveldisins. Þar gátu gyðingar sest að og notið sjálfstjórnar innan heimsveldisins en þó aðeins upp að vissu marki en Bretar vildu fá að stjórna öllum málefnum svæðisins sem snéri að utanríkis- og alþjóðasviðinu. Síonistar höfnuðu tilboði Breta og stefndu áfram að markmiði sínu um að stofna ríki gyðinga í Palestínu.[4]

Theodor Herzl, faðir síonismans, sá aldrei draum sinn uppfyltan en hann lést þann 3. júlí 1904.

Tilvísanir breyta

  1. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 72. ISBN 978-9979-3-3683-9.
  2. „Hver var aðdragandinn að stofnun Ísraelsríkis árið 1948? Hver átti landið fyrir?“. Vísindavefurinn.
  3. Dagur Þorleifsson (20. mars 1996). „Herzl og rætur Ísraelsríkis hins nýja“. Tíminn. Sótt 28. mars 2019.
  4. Jóhanna Kristjónsdóttir (19. október 1980). „Aðdragandinn að stofnun Ísraelsríkis“. Morgunblaðið. Sótt 28. mars 2019.