Textavarp (e. teletext) er fyrsti rafræni lesmiðillinn sem náði mikilli og almennri notkun. Með textavarpinu urðu nýjustu upplýsingar aðgengilegar almenningi þegar fólk hafði tóm, eða þörf, fyrir þær. Ekki bara fréttir gærdagsins í dagblaðaformi eða fréttir dagsins í fyrirfram tímasettum fréttatímum ljósvakamiðlanna.

Samanburður á stöðlum í textavarpi

Sagan breyta

Upphaflega var textavarp þróað á Englandi af BBC upp úr 1970 til þess að unnt væri að texta efni fyrir heyrnarlausa með texta sem hulinn væri í almennum útsendingum. Almenn útsending textavarps hófst hjá BBC árið 1976 og fyrstu sjónvarpsviðtækin með innbyggðum textavarpsmóttökurum komu á markaðinn 1977.

Tæknin breyta

Tæknin fólst í því að senda upplýsingarnar út á hluta af sjónvarpsmerkinu sem ekki var notað í annað (sk. VBI línum, vertical blanking interval). Fljótlega varð mönnum ljóst að hægt var að nota þessa tækni til þess að miðla fleiru en neðanmálstextum. Í stað textans voru sendar út heilu skjámyndirnar, síður.

Venjulegri textavarpsútsendingu er skipt upp í síður sem síðan eru sendar út hver á eftir annarri. Síðurnar geta orðið allt að 800 og hver þeirra með 99 undirsíðum. Oftast eru þó ekki nema 3-500 síður sendar út samtímis því eftir því sem síðurnar eru fleiri tekur það viðtækin lengri tíma að finna þær, hringurinn verður stærri. Fréttir, dagskrárupplýsingar, veður, íþróttir og kauphallarupplýsingar urðu fljótlega mest lesnu síðurnar í textavarpi. Textavarp náði einkum vinsældum í Evrópu en í Bandaríkjunum og Kanada hefur textavarp aldrei náð verulegri útbreiðslu, nema sem miðill fyrir neðanmálstexta fyrir heyrnarskerta. Oftast þarf þó sérstakan móttakara fyrir textann, hann er ekki innbyggður í tækin eins og algengast er í Evrópu.

Textavarp er í grunninn „útvarp“ (broadcast) , eða einstefnumiðill, og þannig óháður notendafjölda, álagi, öfugt við t.d. vefinn sem er gagnvirkur og viðkvæmur fyrir álagi. Ekkert textavarp „fór niður“ 11. september 2001 eins og flestir fréttavefir gerðu.

Textavarpið á Íslandi breyta

Ríkisútvarpið hóf útsendingu textavarps á 25 ára afmæli sínu, 30. september 1991, þá sýndi könnun að sjónvarp með textavarpsmóttakara var á 17% íslenskra heimila. Árið 2005 var sjónvarp með textavarpi á nær öllum íslenskum heimilum og 33% þjóðarinnar notfærði sér þjónustu þess daglega eða oft á dag. 45% þjóðarinnar notuðu Textavarpið oftar en fimm sinnum í viku. Textavarpið var sett á vefinn haustið 1997 og var þá fyrsti ókeypis íslenski fréttavefurinn.

Textavarp Sjónvarpsins var sniðið að norrænni fyrirmynd enda mikil samvinna milli norrænu sjónvarpsstöðvanna. Sérstaða Textavarpsins fólst einkum í upplýsingasíðum um færð og veður á vegum úti sem Vegagerðin tók saman. Þetta upplýsingakerfi var í upphafi einkum sniðið að Textavarpinu en síðar var það einnig þróað fyrir vef Vegagerðarinnar[óvirkur tengill].

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Teletext“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 5. febrúar 2009.

„Brittanica online“. Sótt 5. febrúar 2009.

Ytri tenglar breyta