Stríð Frakklands og Hollands

Stríð Frakklands og Hollands eða Hollenska stríðið (franska: La Guerre de Hollande, hollenska: Hollandse Oorlog) var stríð sem Frakkland, Svíþjóð, Biskupsfurstadæmið Münster, Erkibiskupsdæmið Köln og England háðu gegn Hollenska lýðveldinu og bandamönnum þess 1672-8. Stríðinu lauk með friðarsamningum í Nijmegen sem voru undirritaðir frá ágúst til desember 1678. Helsta ástæða stríðsins var að Loðvík 14. leit á Hollendinga sem hindrun í því að leggja Spænsku Niðurlönd undir Frakkland og minntist þess líka að þeir höfðu aðstoðað Spán í Valddreifingarstríðinu 1667-8. England leit svo á að hollenski flotinn ógnaði öryggi þess og Svíar samþykktu að ráðast inn í Brandenborg ef þeir hygðust styðja Hollendinga. Englendingar hættu síðan við þátttöku í stríðinu 1674 en þrátt fyrir það unnu Frakkar mikilvæga sigra bæði á landi og sjó. Við friðarsamningana fengu þeir framgengt kröfum sínum um hluta af Spænsku Niðurlöndum, meðal annars héraðið Franche-Comté.

Franski herinn fer yfir Rínarfljót 1672. Málverk eftir Joseph Parrocel frá 1699.

Kristján 5. hugðist nýta sér að Svíar voru uppteknir í bardögum við Brandenborg til að leggja Skán aftur undir Danmörku og réðist á Svíþjóð 1675. Þetta stríð var kallað Skánska stríðið. Við friðarsamninga ári eftir Nijmegen fengu Svíar öll lönd sín aftur.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.