Stjórnarskrá Bandaríkjanna

Stjórnarskrá Bandaríkjanna er æðsta lögskjal landsins og æðri lögum fylkjanna í Bandaríkjunum. Hún er rammi um skipulag bandarískra stjórnvalda og tengsl stjórnvalda við ríkin og ríkisborgara landsins. Stjórnarskráin skilgreinir þrískiptingu ríkisvalds og hverjir eiga að fara með hvaða hlutverk fyrir sig. Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, framkvæmdarvaldið er í höndum forsetans og dómsvaldið er hjá Hæstarétt. Þeir sem skrifuðu stjórnarskrána eru oftast nefndir feður stjórnarskrárinnar. Þessir aðilar voru pólitískir leiðtogar og skrifuðu undir sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna árið 1776 og heita þeir: Benjamin Franklin, George Washington, John Adams, Thomas Jefferson, John Jay, James Madison og Alexander Hamilton. Stjórnarskráin var samþykkt þann 17. september 1787 og staðfest 21. júní 1788 af níu ríkjum af þeim 13 sem mynduðu Bandaríkin á þeim tíma. Viðaukar við stjórnarskrána eru 27 og eru fyrstu tíu þekktir sem Réttindaskrá Bandaríkjanna ,,Bill of Rights‘‘ og þykja hvað merkastir. Upprunalega stjórnarskráin er 11 blaðsíður að lengd og er hún elsta stjórnarskrá í heiminum sem ennþá er í notkun. Upprunalega skjalið, sem var handskrifað af Jacob Shallus, er varðveitt í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna sem er í Washington DC.[1]

Fyrsta blaðsíðan úr stjórnarskrá Bandaríkjanna

Stjórnarskráin – átök breyta

Pólitískar deilur á milli stjórnmálahugmynda endurspeglast í stjórnarskránni. Deilan snýst um valdadreifingu á milli stærri og smærri ríkja, alríkisvald eða sterk ríki. Skiptar skoðanir voru á útfærslu með þrískiptinguna. Það varð síðan ofan á að fulltrúadeildin væri fulltrúi fólksins, öldungadeildin yrði í forsvari fyrir ríkin og forsetinn yrði kosinn af fulltrúum ríkjanna. Fjölmörg atriði voru ný í stjórnarskránni en önnur ekki. Það sem hafði hvað mestu áhrifin frá Evrópu voru skilgreiningar Montesquieu og hans áherslur á jafnvægi á milli þessara þriggja valdasviða. Höfundar stjórnarskrárinnar voru meðvitaðir um að breytingar væru þarfar ef hún ætti að geta haldið sér og vaxið með þjóðinni. Ólíkt mörgum öðrum stjórnarskrám er breytingum í bandarísku stjórnarskránni bætt við meginmál og er það gert þannig að nýi textinn komi ekki í staðinn fyrir þann sem er þar fyrir né breyti þeim texta sem fyrir er, heldur er bara viðbót.[2]

Sjö greinar Stjórnarskrárinnar breyta

Fyrsta grein stjórnarskrárinnar lýsir því að bandaríska þingið sé tveggja deilda þing, fulltrúardeildin og öldungadeildin. Fjallað er um þau skilyrði sem þarf að fullnægja til að vera kosinn inn á þing til dæmis aldur og búsetu. Fulltrúadeildar þingmenn skulu hafa náð 25 ára aldri og vera Bandarískir ríkisborgarar, búsettir í því ríki sem þeir bjóða sig fram fyrir. Öldungadeildar þingmenn skulu vera að minnsta kosti 30 ára og hafa verið bandarískir ríkisborgarar í að minnsta kosti níu ár, þeir þurfa einnig að búa í því ríki sem þeir bjóði sig fram fyrir. Löggjafarvald skal vera á höndum þingsins bæði fulltrúardeildar og öldungadeildar.

Í annarri grein er greint frá að framkvæmdarvaldið er í höndum forseta og kjörtímabil forseta eru fjögur ár og varaforseti situr sama tíma. Ef forsetinn getur ekki gegnt embætti sínu þá tekur varaforsetinn við. Hlutverk forseta er nokkur þar á meðal: yfirmaður herafla Bandaríkjanna, hann getur veitt lausnir og náðir en forseti getur ekki náðað sjálfan sig. Forseta er heimilt að skipa sendiherra, ráðherra og dómara hæstaréttar en það er gert með 2/3 samþykkti öldungaþingdeildarinnar. Til að lög fái gildi þarf forseti að skrifa undir.

Í þriðju grein er fjallað um dómsvald, þar er tekið fram að Hæstiréttur Bandaríkjanna sé aðaldómsvald. Einnig að þingið geti búið til lægri dómstóla sem starfi innan ríkjanna en lúti lögum Hæstaréttar. Í greininni er skilgreindur rétturinn til réttarhalda með kviðdómi í sakamálum og að dómsvald skilgreini glæpi og hvaða refsingu skuli sæta.

Í fjórðu grein er lýst sambandi á milli ríkja og framkvæmdavalds alríkisins. Tekið er fram að ríki hafi ekki rétt til að mismuna þegnum annarra ríkja. Þá er settur fram lagalegur grunnur að ferðafrelsi milli ríkjanna. Hér er tekið fram að taka megi við nýjum ríkjum. Þá er alríkinu skylt að tryggja hverju ríki sitt eigið löggjafar og framkvæmdavald ásamt því að vernda ríkin fyrir utanaðkomandi árásum.

Í fimmtu grein er fjallað um viðauka við stjórnarskrána en til þess eru farnar þrjár leiðir. Í fyrsta lagi þarf þingið samþykki með 2/3 hluta atkvæða í báðum deildum þingsins og skal svo samþykkt af ríkjunum. Í annan stað mega ríkin með 2/3 hluta atkvæða fara fram á endurskoðun viðaukanna sem sendir eru þinginu og svo aftur til ríkjanna til staðfestingar. Í þriðja lagi getur þingið farið fram á staðfestingu af sérstakri nefnd. Að lokum þurfa 3/4 hluti ríkjanna að samþykkja viðaukana á stjórnarskrá svo þeir taki gildi.

Í sjöttu grein er tekið fram að lög bandaríkjanna, sáttmálar og lög gerð í þeirra nafni séu ávalt æðri lögum ríkjanna og að þau megi ekki stangast á. Hún tekur fram að allir löggjafar í alríki sem og ríkjum, embættismenn og dómarar sverji þess eið að styðja við lög stjórnarskrárinnar.

Í sjöundu grein er tekið fram að stjórnarskráin taki gildi þegar 9 ríki hafi staðfest hana og að þá gildi hún aðeins um þau ríki sem staðfesti hana.[3]

Réttindaskráin breyta

Samþykktir hafa verið 27 viðaukar við stjórnarskrána en fyrstu 10 eru hluti af svonefndri Réttindaskrá ,,Bill of Rights‘‘.

  • Fyrsti viðauki: Tryggir trúfrelsi, frelsi til tjáningar og frelsi til að leita réttar síns.
  • Annar viðauki: Tryggir rétt einstaklinga til að eiga vopn.
  • Þriðji viðauki: Bannar vistun hermanna á heimilum án samþykkis eiganda þeirra á friðartímum, en heimilt á ófriðartímum sé það í samræmi við lög.
  • Fjórði viðauki: Tryggir að leit á heimilum, handtökur og eignaspjöll fari ekki fram nema nægjanlegar vísbendingar séu um saknæmt athæfi.
  • Fimmti viðauki: Tryggir að ekki sé hægt að kæra tvisvar fyrir sama brotið; ekki sé hægt að krefja vitni um að svara ásökunum sem gætu komið sök á hann sjálfan; tryggir að öllum þeim sem séu handteknir, sé kynnt stjórnarskrárvarin réttindi sín.
  • Sjötti viðauki: Tryggir opin réttarhöld með hlutlausum kviðdómi í sakamálum, ákærði hefur rétt á verjanda og má krefjast þess að vitni beri vitni í hans návist.
  • Sjöundi viðauki: Tryggir borgaraleg réttarhöld með kviðdómi.
  • Áttundi viðauki: Bannar að setja megi óhóflegar tryggingar eða sektir, ásamt ómannúðlegum eða óvenjulegum refsingum.
  • Níundu viðauki: Kveður á um að réttindi þau sem tilgreind séu í stjórnarskránni séu ekki tæmandi upptalin og því megi hvorki synja fólki um önnur réttindi né vanvirða þau á þeim grundvelli.
  • Tíundi viðauki: Tryggir að fylkin eða fólkið sjálft fái að ráða öllu því sem ekki kemur fram í stjórnarskrá Bandaríkjanna.[3]

Viðaukar 11 til 27 breyta

17 síðari viðaukar hafa verið samþykktir eftir að Réttindaskráin tók gildi. Þeir hafa flestir endurspeglað áframhaldandi viðleitni til að víkka út borgaralegt og stjórnmálalegt frelsi, en aðrir eru tæknilegra eðlis og breyta litlu um undirstöðu og uppbyggingu stjórnvalda sem sett var í stjórnarskrána 1787. Elstur þessara viðauka er frá árinu 1795, en sá nýjasti öðlaðist gildi árið 1992.

Aðeins einn viðauki viðauki hefur verið felldur úr gildi, en það er átjándi viðaukinn, sem tók gildi 16. janúar 1919 en var afnuminn 5. desember 1933. Kvað hann á um bann við áfengissölu í Bandaríkjunum.

Af síðari viðaukum eru viðaukar þrettán, fjórtán og fimmtán áhrifamestir en þeir voru samþykktir í kjölfar þrælastríðsins og tryggðu m.a. afnám þrælahalds í Bandaríkjunum, og hinum sigruðu Suðurríkjum var gert að samþykkja viðaukana áður en þau fengu að ný fulla inngöngu í ríkjasambandið. Á ensku er talað um "The Reconstruction Amendments".

Mismunandi er hve lengi það tekur fylkin að samþykkja viðauka sem samþykktir hafa verið af þinginu. Síðasti viðaukinn við stjórnarskrá Bandaríkjanna, sá tuttugasti og sjöundi öðlaðist gildi 1992, en hann kveður á um að breytingar á launum þingmanna taki ekki gildi fyrr en eftir næstu kosningar. Sá viðauki var samþykktur af þinginu árið 1789, alls 202 ár 7 mánuði og 12 daga. Til samanburðar tók það fylkin aðeins þrjá mánuði og átta daga að samþykkja þann tuttugasta og sjötta, en hann kveður á um að kosningaréttur skuli miðast við átján ára aldur. Þingið hafði samþykkt viðaukann og sent til fylkjanna þann 23. mars 1971, en 1 júlí sama ár öðlaðist hann gildi eftir að þrír fjórðu fylkja Bandaríkjanna höfðu samþykkt hann.

Aðeins sex viðaukar af þrjátíu og þremur sem þingið hefur samþykkt hafa ekki verið samþykktar af tilhlýðilegum fjölda fylkja.[3]

Gagnrýni á stjórnarskrána breyta

Prófessor Larry Sabato hefur lagt til að gera þurfi breytingu á stjórnaskránni sem geri prófkjör forsetaframbjóðenda skilvirkari. Hann telur dræma þátttöku í prófkjörum vera að sökum þess hve snemma þau eru haldin og telur einnig ósanngjarnt að sum ríki hafi ávalt forskot á að halda þau. Þetta væri hægt að lagfæra með viðaukum við stjórnarskrána.[4] Prófessor Sanford Levinson hefur gagnrýnt stjórnarskrána fyrir að hafa engin úrræði reynist forseti vera óhæfur eða mikið veikur. Þá hefur Robert A. Dahl gagnrýnt stjórnarskrána fyrir að grafa undan lýðræði t.d. með því að notast við kjörmenn í forsetakosningum í stað raunfylgis.[5]

Heimildir breyta

  1. NARA (e.d.) "National Archives Article on the Constitutional Convention". Sótt 22. október 2010.
  2. Library of Congress.(e.d.) "Primary Documents in American History: The United States Constitution".. Sótt 22. október 2010.
  3. 3,0 3,1 3,2 NARA (e.d.) "National Archives Article on the Entire Constitutional Convention". Sótt 22. október 2010.
  4. Larry J. Sabato (26. september, 2007). "An amendment is needed to fix the primary mess". USA Today.[óvirkur tengill]. Yale University Press. Sótt 22. október 2010.
  5. Robert A. Dahl (11. febrúar, 2002). "How Democratic Is the American Constitution?". Yale University Press. Sótt 22. október 2010.

Tengt efni breyta