Stephen Jay Gould (10. september 1941 - 20. maí 2002) var bandarískur steingervingafræðingur, þróunarlíffræðingur og vísindasagnfræðingur. Hann var einn áhrifamesti og víðlesnasti höfundur vísindarita fyrir almenning af sinni kynslóð. Gould eyddi stærstum hluta starfsferils síns við Harvard-háskóla og við Bandaríska náttúrugripasafnið í New York. Árið 1996 var Gould ráðinn Vincent Astor-gestaprófessor í líffræði við New York-háskóla þar sem hann skipti tíma sínum milli New York og Harvard.

Mikilvægasta framlag Goulds til þróunarlíffræðinnar var kenningin um markað jafnvægi[1] sem hann þróaði ásamt Niles Eldredge árið 1972.[2] Kenningin gengur út á að mest af þróuninni einkennist af löngum tímabilum stöðugleika, sem við og við markast af stuttum tímabilum örra tegundarmyndana. Kenningunni var stillt upp sem andstæðu tegundasamfellu, þeirri vinsælu hugmynd að þróunin einkennist af reglubundnum og stöðugum breytingum steingervinga.[3]

Flestar vettvangsrannsóknir Gould voru gerðar á landsniglaættkvíslunum Poecilozonites og Cerion. Hann lagði einnig af mörkum til þróunarfræðilegrar þroskunarlíffræði og hlaut almenna viðurkenningu fyrir bók sína Ontogeny and Phylogeny frá 1977.[4] Hugmyndir hans um þróunarkenninguna voru andstæðar strangri valhyggju, félagslíffræði eins og hún beindist að mönnum, og þróunarsálfræði. Hann beitti sér gegn sköpunarhyggju og lagði til að vísindi og trúarbrögð yrðu talin tvö aðskilin svið þar sem sérfræðiþekking þeirra skaraðist ekki.[5]

Gould var aðallega þekktur meðal almennings fyrir 300 vinsælar ritgerðir sem birtust í tímaritinu Natural History[6] og fjölmargar bækur skrifaðar bæði fyrir sérfræðinga og almenning. Í apríl 2000 var hann útnefndur „lifandi goðsögn“ af Bandaríska þjóðbókasafninu.[7][8]

Tilvísanir breyta

  1. https://www.achievement.org/achiever/stephen-jay-gould/#interview. {{cite web}}: |title= vantar (hjálp)
  2. Eldredge, Niles, and S. J. Gould (1972). "Punctuated equilibria: an alternative to phyletic gradualism." In T.J.M. Schopf, ed., Models in Paleobiology. San Francisco: Freeman, Cooper and Company, pp. 82–115.
  3. Sepkoski, David (19. mars 2012). Rereading the Fossil Record: The Growth of Paleobiology as an Evolutionary Discipline. ISBN 9780226748580.
  4. Müller, Gerd B. (2013). „Beyond Spandrels: Stephen J. Gould, EvoDevo, and the Extended Synthesis“. Í Danieli, G.; Minelli, A.; Pievani, T. (ritstjórar). Stephen J. Gould: The Scientific Legacy. bls. 85–99. doi:10.1007/978-88-470-5424-0_6. ISBN 978-88-470-5423-3.
  5. Gould, S. J. (1997). "Nonoverlapping magisteria." Geymt 15 júní 2021 í Wayback Machine Natural History 106 (March): 16–22.
  6. http://naturalhistorymag.com/perspectives/302413/remembering-stephen-jay-gould. {{cite web}}: |title= vantar (hjálp)
  7. https://www.loc.gov/about/awardshonors/livinglegends/bio/goulds.html. {{cite web}}: |title= vantar (hjálp)
  8. Fahy, Declan (2015). The New Celebrity Scientists: Out of the Lab and into the Limelight. Rowman & Littlefield Publishers.