Steinn Steinarr

íslenskt ljóðskáld (1908-1958)

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld. Steinn Steinarr hefur verið kallaður frumkvöðull hinna svo kölluðu atómskálda en ekki vilja þó allir telja hann eitt þeirra. Hann hefur þó alltaf verið talinn helsta skáld módernismans hér á Íslandi.

Steinn Steinarr árið 1938.

Ævi breyta

Steinn Steinarr fæddist á Laugalandi í Skjaldfannardal, Nauteyrarhreppi, Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem foreldrar hans, Kristmundur Guðmundsson og Etelríður Pálsdóttir, voru í húsmennsku. Sú kenning hefur þó gengið ljósum logum að Steinn hafi verið rangfeðraður, og faðir hans verið Sigurður Þorláksson (1891-1974), trésmiður í Hafnarfirði. [1]

Steinn naut farkennslu meðal annars hjá Jóhannesi úr Kötlum, en kynntist einnig Stefáni frá Hvítadal sem varð nágranni þeirra í Miklagarði.

Viðey breyta

Steinn Steinarr fékk aðstoð vinar síns og útgefanda, Ragnars í Smára, við að reiða fram fyrstu útborgun til að kaupa skólahúsið í Viðey. Steini varð ekki svefnsamt í húsinu vegna draugagangs og kallaði til vin sem kunni að reka allt óhreint úr húsinu. Sá flæmdi þá draugana út í ákveðið horn í húsinu, dró krítarstrik fyrir hornið og tilkynnti hinum framliðnu að þeim væri ekki heimilt að fara yfir strikið. Eftir það hafði Steinn svefnfrið. Hann hélt vinum sínum eftirminnilegar veislur í skólanum, en fluttist síðan úr skólahúsinu og náði aftur útborgun sinni.

Nasistafáninn breyta

Steinn Steinarr var einn þriggja manna sem skáru niður nasistafána sem blakti við hún á Siglufirði, 6. ágúst 1933. Í Morgunblaðinu þann 8.ágúst 1933 voru mennirnir ávíttir harkalega undir fyrirsögninni „Siglfirskir kommúnistar svívirða stjórnarfána Þjóðverja“. „Það er vitað,“ stóð í greininni, „að afkoma síldarútgerðarinnar nú, sjómanna, verkamanna og útgerðarmanna, er mjög undir því komin, hvernig tekst með viðskiptin við Þjóðverja.“ Ásamt stærri hópi ætlaðra samverkamanna, var Steinn ári síðar dæmdur fyrir verknaðinn til fangelsisvistar fyrir landráð. Hæstiréttur staðfesti dóminn árið 1935, en honum var þó ekki fullnægt. Málið var aldrei tekið til endurskoðunar fyrir dómstólum.[2]

Hljómplata breyta

Árið 1967 kom út hljómplatan Tíminn og vatnið þar sem Steinn las upp samnefnt verk eftir sjálfan sig.

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
— Tíminn og vatnið (fyrsta erindið).


Ljóðabækur Steins breyta

  • Rauður loginn brann (1934)
  • Ljóð (1937)
  • Spor í sandi (1940)
  • Ferð án fyrirheits (1942)
  • Tindátarnir (1943)
  • Tíminn og vatnið (1948)


Tenglar breyta

 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni

Heimildir breyta

  1. Sigurður Þorláksson; úr Morgunblaðinu 1974
  2. Örlygur Kristfinnsson, „Steinn Steinarr í síldinni“, á vef Síldarminjasafns Íslands
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.