Sigríður Einarsdóttir

Sigríður Einarsdóttir (fædd 18. mars 1831, dáin 22. nóvember 1915) var íslensk leikkona og kvenréttindasinni.

Sigríður ólst upp í Brekkubæ sem stóð í Grjótaþorpinu í Reykjavík en móðir hennar Guðrún hafði skólapilta í fæði og var einn þeirra Eiríkur Magnússon sem Sigríður giftist 1857. Sigríður tók þátt í leiksýningum í Reykjavík og lék ásamt Benedikt Gröndal í leikritinu Pakk sem sett var upp árið 1854 og var þá í leikskrá kölluð Sigga Tipp. Hún kenndi á gítar í Reykjavík og flutti með manni sínum til London árið 1862 en maður hennar Eiríkur varð seinna (1871) bókavörður í Cambridge. Vinkona Sigríðar gaf henni 200 pund árið 1884 og fyrir það fé lét Sigríður reisa árið 1885 timburhúsið Vinaminni á sama stað og bernskuheimili hennar Brekkubær stóð. Vinaminni stendur ennþá og er við Mjóstræti 3. Sigríður stofnaði kvennaskóla í Vinaminni sem tók til starfa árið 1891 en starfaði aðeins einn vetur og voru skólastúlkur 15 en 5 þeirra voru í heimavist í Vinaminni. Sigríður var ritari nefndar sem stóð að fjársöfnun fyrir bágstadda Íslendinga haustið 1882. Sigríður tók víða þátt í handavinnusýningum og sýndi íslenska handavinnu og silfurmuni og stundaði verslun með íslenska muni. Hún flutti fyrirlestra um Ísland og bág kjör íslenskra kvenna. Sigríður merkti tvær silfurkeðjur á sýningu í Chicago þannig að önnur átti að hafa verið í eigu Jóns Arasonar og hin í eigu Snorra Sturlusonar og urðu nokkrir Íslendingar til að gagnrýna það.

Sigríður lést í Skodsborg Sanatorium í Danmörku þann 22. nóvember 1915. Hún er jörðuð í Søllerød á Sjálandi.[1]

Heimildir breyta

Tilvísanir breyta

  1. Stefán Einarsson. Saga Eiríks Magnússonar. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1933. Bls. 322.