Seinna Búastríðið

Seinna Búastríðið var stríð sem breska heimsveldið háði gegn tveimur sjálfstæðum lýðveldum Búa, Fríríkinu Óraníu og Lýðveldinu Transvaal, í sunnanverðri Afríku á aldamótum 19. og 20. aldar. Stríðinu lauk með ósigri Búa og með því að bæði ríkin voru innlimuð í breska nýlenduveldið.

Seinna Búastríðið

Hermenn Búa árið 1900 í orrustunni um Spion Kop.
Dagsetning11. október 189931. maí 1902 (2 ár, 7 mánuðir, 2 vikur og 6 dagar)
Staðsetning
Suðurhluti Afríku (nú Suður-Afríka, Lesótó og Esvatíní)
Niðurstaða Breskur sigur. Oranje-fríríkið og Transvaal-lýðveldið innlimuð í breska heimsveldið
Stríðsaðilar
Fáni Bretlands Bretland Fríríkið Óranía
Lýðveldið Transvaal
Leiðtogar
Fáni Bretlands Salisbury lávarður Martinus Theunis Steyn
Paul Kruger
Fjöldi hermanna
Bretar: 347.000
Landnemar: 103.000–153.000
Afrískir bandamenn: 100.000[1]

Búar:

  • 25.000 Transvaal-Búar
  • 15.000 Óraníu-Búar
  • 6.000–7.000 Höfða-Búar

Afrískir bandamenn: 10.000[1]

Erlendir sjálfboðaliðar: 5.400+
Mannfall og tjón
22.092 drepnir
75.430 sendir heim vegna veikinda eða meiðsla
22.828 særðir
934 týndir
6.189 drepnir
24.000 teknir höndum

Samúð alþjóðasamfélagsins á tíma stríðsins lá að mestu hjá Búum og gjarnan var litið á Breta sem ósvífna innrásarmenn sem hefðu ráðist að tilefnislausu á sjálfstæð ríki til að sölsa undir sig auðlindir þeirra.

Saga breyta

Seinna Búastríðið átti sér margra áratuga aðdraganda í deilum Breta í sunnanverðri Afríku við Búa, afkomendur hollenskra landnema á svæðinu. Bretar höfðu átt Höfðanýlenduna á suðurodda álfunnar frá árinu 1814 en höfðu smám saman verið að auka umsvif sín á svæðinu alla 19. öldina. Árið 1877 báðu Búar Breta um vernd gegn ágangi innfæddra Súlúmanna og afhentu þeim því völdin í Transvaal. Mesta hættan sem stafaði af Súlúmönnum leið hins vegar hjá á næstu árum og Búar fóru fljótt að vilja sjálfræði á ný.[2] Árið 1880 braust fyrra Búastríðið út þegar ríkisstjórn Bretlands reyndi að skattleggja íbúa Búalýðveldanna en eftir að Búar unnu sigur gegn Bretum í orrustunni við Majuba Hill neyddust Bretar til að hafa sig á brott og viðurkenna sjálfstæði Transvaals með nokkrum takmörkunum.[3] Málamiðlunin varð sú að Búalýðveldin í Transvaal skyldu talin sjálfsstjórnarsvæði en þó innan bresku krúnunnar.[2]

Árið 1886 fannst gull í Witwatersrand-fjallgarðinum og í kjölfarið hófst gullæði þar sem fjöldi erlendra gullgrafara flykktust til Búalýðveldanna Transvaal og Óraníu í Suður-Afríku til að freista gæfunnar. Þessi mikli fjöldi breskra innflytjenda til Transvaal leiddi til þess að breskir auðmenn komust til mikilla áhrifa í stjórn Búalýðveldanna og fóru að krefjast aukinna pólitískra réttinda. Ráðamenn Búa voru mjög tregir til að veita nýkomnum breskum innflytjendum kosningarétt þar sem þeir óttuðust að þeir myndu fljótt afsala sjálfræði lýðveldanna til bresku krúnunnar.[3]

Bresk nýlenduyfirvöld í Höfðanýlendunni fóru að leggja á ráðin um stríð gegn Búalýðveldunum og hugðust nota áhyggjur af réttindum breskra innflytjenda þar sem tylliástæðu fyrir innrás. Paul Kruger, forseti Búalýðveldisins Transvaal, hafði hins vegar nýtt skerf ríkisins af gullfundunum til að kaupa og flytja inn nýtísku vopn frá Þýskalandi og bjó ríki sitt þannig undir stríð. Loks sendi Kruger Bretum þá úrslitakosti að þeir skyldu annaðhvort draga allt sitt herlið frá Transvaal og Óraníu eða Búar myndu grípa til vopna og hrekja Breta á brott. Samningaleitanir Breta báru engan árangur og því réðust Búar á Natal og Höfðanýlenduna haustið 1899.[2]

Í byrjun stríðsins voru hermenn Búa mun fleiri og betur vígbúnir en breskir hermenn í Höfðanýlendunni. Búum varð því vel ágegnt í viðureign sinni við Breta fyrstu mánuði stríðsins og tókst þeim að sækja langt inn á breskt yfirráðasvæði. Búar nutu góðs af því að Bretar höfðu vanmetið þá og búist við stuttu og auðveldu stríði, auk þess sem Búar voru mun kunnugri staðháttum en óvinir þeirra. Búar unnu hvern sigurinn eftir annan á fyrsta hálfa ári stríðsins og tókst meðal annars að hertaka bæina Kimberley og Ladysmith. Búum mistókst hins vegar að hertaka bæinn Mafeking þrátt fyrir að sitja um hann í 217 daga. Ofurstinn sem fór fyrir vörnum Breta við Mafeking var Robert Baden-Powell, sem átti síðar eftir að nýta reynslu sína og hróður úr Búastríðinu til að stofna Skátahreyfinguna.[4]

Gangur stríðsins snerist Bretum í vil árið 1900. Í febrúar það ár hafði Bretum tekist að króa af kjarna úrvalshers Búanna og þann 5. júní tókst Bretum að hertaka Pretoríu, höfuðborg Transvaal-lýðveldisins og aðsetur Krugers forseta. Stríðinu lauk þó ekki við þennan sigur Breta þar sem Búar tóku upp skæruhernað gegn breska hernámsliðinu og unnu spellvirki á járnbrautum, brúm og vopnabúrum í landinu til þess að gera Bretum erfitt fyrir. Þar sem skæruliðar Búa voru óeinkennisklæddir brugðu Bretar á það ráð að byggja miklar fangabúðir og neyða almenna borgara hvers svæðis í Búalýðveldunum til að dvelja þar á meðan á stríðinu stóð. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að almennir borgarar af Búaættum gætu veitt skæruliðunum aðstoð.[4] Rúmlega 26.000 konur og börn létu lífið í fangabúðum Breta í stríðinu.[5]

Sumarið 1902 gerðu leiðtogar Búa friðarsamning við Breta í bænum Vereeniging, á landamærum Transvaal og Óraníu. Búarnir féllust á að hætta skæruhernaði og að lönd þeirra skyldu lúta yfirráðum bresku krúnunnar en hafa sjálfsstjórn í tilteknum málum.[4] Árið 1910 sameinuðu Bretar allar nýlendur sínar í Suður-Afríku í eitt ríki, sem lagði grunninn að nútímaríkinu Suður-Afríku.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 sahoboss (31. mars 2011). „Role of Black people in the South African War“.
  2. 2,0 2,1 2,2 Jón Þ. Þór (2014). Winston S. Churchill. Sögufélag. bls. 42. ISBN 978-9935-466-01-3.
  3. 3,0 3,1 James Edson White (1. nóvember 1901). „Búa ófriðurinn“. Frækorn. Sótt 19. ágúst 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Úr fórum aldarinnar“. Tíminn. 3. júlí 1966. Sótt 19. ágúst 2019.
  5. Wessels, André (2010). A Century of Postgraduate Anglo-Boer War (1899–1902) Studies: Masters' and Doctoral Studies Completed at Universities in South Africa, in English-speaking Countries and on the European Continent, 1908–2008. African Sun Media. bls. 32. ISBN 978-1-920383-09-1.