Schengen-samstarfið

Schengen-samstarfið er samstarf Evrópuríkja á sviði landamæraeftirlits og löggæslu sem byggir á Schengen-samningnum. Markmið samstarfsins er að auðvelda ferðir fólks innan Schengen-svæðisins með því að afnema persónueftirlit (vegabréfaskoðun) á innri landamærum þess en styrkja jafnframt eftirlitið á sameiginlegum ytri landamærum svæðisins. Schengenríkin hafa einnig samræmt þær reglur sem gilda um vegabréfsáritanir þannig að áritun gefin út í einu aðildarríki gildir í þeim öllum. Hinn meginþáttur samstarfsins felst í aukinni lögreglusamvinnu ríkjanna til þess að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Til þess var Schengen upplýsingakerfið sett á fót en lögregla í öllum aðildarríkjum hefur aðgang að því og geymir það upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga, framsalsbeiðnir o.s.frv.

Kort af Schengen-svæðinu. (Gul svæði eiga eftir að ganga í samstarfið samkvæmt samningi)

Alls hafa 28 Evrópuríki skrifað undir Schengensamninginn, það eru öll aðildarríki Evrópusambandsins, fyrir utan Bretland, Írland og Króatíu, sem og Noreg, Ísland og Sviss. Hinsvegar hefur samningurinn ekki tekið gildi ennþá nema í 15 ríkjum, hann hefur ekki tekið gildi í nýju ESB ríkjunum sem gengu í sambandið 2004 og 2007 og Sviss.

Norðurlöndin fimm hafa átt með sér álíka samstarf, Norræna vegabréfasambandið, um afnám vegabréfsskoðunar vegna ferða milli þeirra síðan 1954. Það var ekki síst til þess að varðveita það sem Noregur og Ísland afréðu að taka þátt í Schengen með hinum Norðurlöndunum þrátt fyrir að vera ekki í ESB.

Upphaflegi Schengensamningurinn var undirritaður af fimm ríkjum (Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Lúxemborg og Þýskalandi) 14. júní 1985 um borð í skipi á ánni Mósel rétt hjá þorpinu Schengen í Lúxemborg. Samstarfið var upphaflega óháð Evrópusambandinu og fór þá sérstök framkvæmdanefnd með völdin innan þess en árið 1999 var Schengensamstarfið fellt undir stofnanir ESB og tók þá ráðherraráðið við þeim völdum sem framkvæmdanefndin hafði áður. Þetta þýðir að þau Schengenríki sem ekki eru í ESB (Noregur, Ísland og Sviss) hafa engin formleg völd þegar ákvarðanir eru teknar sem varða samstarfið og hafa í raun aðeins kost á því að taka upp þær reglubreytingar sem því fylgja eða segja sig úr því ella.

Árin 2015-2016 var landamæraeftirlit hert í nokkrum Evrópuríkjum vegna flóttamannavanda og hryðjuverkaógnar.[1]

Aðildarríki breyta

Aðildarríki Undirritun Gildistaka
  Belgía 14. júní 1985 26. mars 1995
  Frakkland 14. júní 1985 26. mars 1995
  Holland 14. júní 1985 26. mars 1995
  Lúxemborg 14. júní 1985 26. mars 1995
  Þýskaland 14. júní 1985 26. mars 1995
  Portúgal 25. júní 1992 26. mars 1995
  Spánn 25. júní 1992 26. mars 1995
  Ítalía 27. nóvember 1990 26. október 1997
  Austurríki 28. apríl 1995 1. desember 1997
  Grikkland 6. nóvember 1992 26. mars 2000
  Danmörk 19. desember 1996 25. mars 2001
  Finnland 19. desember 1996 25. mars 2001
  Noregur 19. desember 1996 25. mars 2001
  Ísland 19. desember 1996 25. mars 2001
  Svíþjóð 19. desember 1996 25. mars 2001
  Eistland 1. maí 2004 21. desember 2007
  Lettland 1. maí 2004 21. desember 2007
  Litháen 1. maí 2004 21. desember 2007
  Malta 1. maí 2004 21. desember 2007
  Pólland 1. maí 2004 21. desember 2007
  Slóvakía 1. maí 2004 21. desember 2007
  Slóvenía 1. maí 2004 21. desember 2007
  Tékkland 1. maí 2004 21. desember 2007
  Ungverjaland 1. maí 2004 21. desember 2007
  Sviss 16. október 2004 12. desember 2008
  Liechtenstein 2. febrúar 2008 19. desember 2011
  Kýpur 1. maí 2004 -
  Búlgaría 1. janúar 2007 -
  Rúmenía 1. janúar 2007 -
  Króatía 9. desember 2009 -

Heimildir breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Schengen Agreement“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. janúar 2007.
  • „Almennar upplýsingar um Schengen“. Sótt 7. janúar 2007.
  • „Schengen - Samvinna landamæra á milli“. Sótt 7. janúar 2007.
  • Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og evrópska efnahagssvæðið. ISBN 9979-825-24-3.
  • „Skýrsla innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið til Alþingis, þingskjal nr. 1698, 21.08.2012“ (PDF). Sótt 22. janúar 2012.

Tilvísanir breyta

  1. Europe migrant crisis: EU battles to keep Schengen freedom Skoðað 5. janúar 2016.