Sandfell (Öræfum)

(Endurbeint frá Sandfell í Öræfum)

Sandfell er eyðibýli í Öræfasveit, áður kirkjustaður og prestssetur til 1931. Bærinn er landnámsjörð; þar bjó að því er segir í Landnámabók Þorgerður, ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsonar, sem lést í hafi á leið til Íslands. Þorgerður nam þá sjálf land og bjó á Sandfelli ásamt sonum sínum.

Rústir Sandfells.

Helgi, bróðir Ásbjarnar og mágur Þorgerðar, nam land næst henni og byggði bæ á Rauðalæk þar skammt frá. Þar reis seinna kirkja sem var aðalkirkja sveitarinnar þar til Rauðilækur lagðist í auðn við eldgosið í Öræfajökli 1362 en eftir það var Sandfellskirkja höfuðkirkjan. Nú er minnismerki þar sem kirkjan var en hún var rifin árið 1914. Öræfajökull gaus aftur 1727 og stóð þá yfir messa í Sandfellskirkju. Bæði 1362 og 1727 komu mikil hlaup úr Öræfajökli og ollu allmiklum skemmdum og í hlaupinu 1727 fórust þrjár manneskjur og fjöldi fjár. Í því hlaupi myndaðist Háalda, sem er á milli Hofs og Sandfells. Hún er friðlýst.

Sandfell fór í eyði 1947 og voru rústir bæjarins jafnaðar við jörðu árið 1974.

Heimildir breyta

  • „Sandfell í Öræfum. Lesbók Morgunblaðsins, 10. mars 1963“.
  • „Sandfell í Öræfum. Lesbók Morgunblaðsins, 26. júlí 1964“.