Samuel Kleinschmidt

Samuel Petrus Kleinschmidt (27. febrúar 18148. febrúar 1886) var trúboði herrnhutera á Grænlandi og málvísindamaður af þýskum og dönskum ættum. Hann fæddist 27. febrúar 1814 þar sem þá hét Lichtenau en nú er nefnt Alluitsoq í sveitarfélaginu Kujalleq á Suður-Grænlandi. Lichtenau var þá trúboðsstöð herrnhuttera og sem stofnuð var 1774 og var lögð niður árið 1900. Hann lést 8. febrúar 1886 í Noorliit sem nú er hluti af Nuuk. Samuel var sonur þýska trúboðans Konrad Kleinschmidt og danskrar konu hans, Christina Petersen. Samuel var því alinn upp með þrjú tungumál, dönsku, þýsku og grænlensku.

Samuel Kleinschmidt var við nám í Þýskalandi frá 1823 þar til að hann sneri aftur sem trúboði til Grænlands 1840.

Samuel Kleinschmidt hafði gífurleg áhrif á þróun grænlensku, sérlega sem ritmál. Hann gaf út Grammatik der Grönländischen Sprache á þýsku árið 1851 og vakti þegar mikla athygli málvísindamanna. Árið 1871 var orðabók hans Den grønlandske ordbog gefin út og var það fyrsta dansk-grænlenska orðabókin. Hann gaf út fyrstu bókina sem skrifuð hafði verið á grænlensku 1858: Nunalerutit, imáipoĸ: silap píssusianik inuinigdlo ilíkarsautínguit (Landafræði: lítil bók um heiminn og mannlífið). Jafnfram þessu samdi Samuel grænlenska réttritunarbók sem mótaði allt grænlenskt ritmál allt fram til 1973 þegar ný stafsetning tók gildi.

Hann þýddi einnig Biblíuna í heild sinni fyrstur manna á grænlensku og þá úr grísku og hebresku. Hann hóf kennslu við seminaríið (kennaraskólann) í Nuuk 1859 eftir að honum hafði verið sagt upp frá trúboðsstöðinni.

Störf Samuel Kleinschmidts einkenndust af vísindalegri nákvæmni og miklum áhuga á öllu grænlensku. Haft er eftir honum: „Af tilbøjelighed er jeg grønlandsk“ („Ég er Grænlendingur af tilhneigingu“).

Í Nuuk er grunnskóli sem nefndur er eftir honum, Atuarfik Samuel Kleinschmidt.

Heimildir breyta

  • Wilhjelm, Henrik 2001: Af tilbøielighed er jeg grønlandsk: om Samuel Kleinschmidts liv og værk. Det grønlandske selskabs skrifter ; 34. København : Det Grønlandske Selskab, 2001.
  • Biografi i Dansk biografisk leksikon 1. útg.