Söguleg efnishyggja

Söguleg efnishyggja er söguskoðun marxismans og er angi eða undirtegund af díalektískri efnishyggju, lífsskoðun marxismans. Meginatriði sögulegrar efnishyggju er að framvinda sögunnar skýrist af framþróun í framleiðsluháttum, þ.e. þeim aðferðum (vinnu, tækni og skipulagi) sem fólk notar til að vinna náttúruauðlindir og nýta afurðir þeirra. Söguskoðunin skiptir mannkynssögunni í nokkur stig eftir þessu:

1. Frumkommúnismi breyta

Þjóðfélagsstig frum-kommúnismans einkennist af því að samfélagið lifir mest á veiðum/söfnun eða sjálfsþurftarbúskap, skiptist yfirleitt í frekar litlar einingar á borð við stórfjölskyldu, þessar einingar arðræna ekki hver aðra og einkaeignarréttur á auðlindum eða framleiðslutækjum fyrirfinnst ekki.

2. Samfélag þrælaveldis breyta

Á þjóðfélagsstigi þrælaveldis er akuryrkja orðin undirstaða framleiðslunnar, þrælar vinna stóran hluta erfiðisvinnunnar og eru eign húsbænda. Landið sjálft og auðlindir þess og afurðir eru að miklu leyti komin í einhvers konar einkaeign. Vegna þess að einkaeign er orðin mikilvæg, er farið að skipta máli að erfingjar séu skilgetnir, og þess vegna verður hjónabandið til á þessu þróunarstigi, til að formfesta einkarétt tiltekins karls á tiltekinni konu, svo hann geti vitað að börn hennar séu börn hans. Þar sem vaxandi einkaeign þýðir samþjöppun bæði auðs og valda, verður ríkisvaldið líka til á þessu þróunarstigi, til að setja niður innbyrðis átök í samfélaginu eða milli samfélaga, með valdi.

3. Lénsskipulag breyta

Það sem einkennir lénsskipulagið er bændaánauð, þar sem bændur eru ekki beinlínis eign húsbænda, heldur tilheyra þeir landinu sem þeir búa á, sem aftur lýtur yfirráðum aðalsmanns. Aðalsmaðurinn, lénsherrann, tekur afgjöld af bændunum í formi afurða eða vinnu og nýtur líka ýmissa forréttinda eða fríðinda, t.d. tollheimtu eða skattfrelsis.

4. Kapítalismi breyta

Kapítalismi eða auðvaldsskipulag einkennis af því að auðlindir og framleiðslutæki eru almennt í einkaeign, en vinnandi fólk á með sig sjálft, er frjálst og ber sjálft ábyrgð á framfærslu sinni. Það vinnur flest við að framleiða vörur með framleiðslutækjum sem aðrir eiga, og fær borgað minna en sem nemur verðmætunum sem það framleiðir.

5. Sósíalismi breyta

Í samfélagi sósíalismans hefur vinnandi fólk tekið yfirráð yfir framleiðslutækjunum í sínar hendur og skipuleggur bæði framleiðslu og skiptingu afurðanna eftir sínum eigin hagsmunum. Ríkisvald sósíalismans er notað bæði til þess, og til að halda gömlu valdastéttinni í skefjum meðan stéttarandstæður eru að hverfa. Fyrst þegar þær eru horfnar og skipulag framleiðslu og neyslu hefur tryggt allsnægtir, jöfnuð, réttlæti og frið, rennur upp sjötta þjóðfélagsskeiðið:

6. Hinn þróaði kommúnismi breyta

Á þjóðfélagsskeiði kommúnismans eru stéttaandstæður til lykta leiddar og búið að afgreiða stærstu vandamál mannkyns: Skort og misskiptingu. Þá er ekki lengur þörf fyrir ríkisvald til að setja deilur niður með valdi, svo það er lagt niður eða fjarar út.