Rómarsáttmáli um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana

Rómarsáttmáli um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana er alþjóðasamningur sem fjallar um grannréttindi höfundaréttar. Samningurinn var gerður af aðildarríkjum Alþjóðlegu hugverkaskrifstofunnar, forvera Alþjóða hugverkastofnunarinnar, 26. október 1961. Þetta var fyrsti alþjóðasamningurinn sem teygði höfundaréttarhugtakið til að ná yfir aðila sem ekki eru höfundar að verkinu heldur koma að framleiðslu þess og dreifingu með öðrum hætti.

Ástæða þess að samningurinn var gerður var tækniþróun þar sem ný upptökutækni (eins og segulbandstæki) gerði afritun ódýrari og einfaldari en áður. Þetta kallaði að mati aðildarríkjanna á sterkari vernd fyrir flytjendur og dreifingaraðila. Grunnatriði samningsins eru að listflytjendur (tónlistarmenn, söngvarar, leikarar, dansarar o.s.frv.) þurfa að veita samþykki sitt fyrir því að flutningur þeirra sé tekinn upp, og sömuleiðis fyrir dreifingu slíks efnis ef upptaka var ekki gerð með þeirra samþykki, að framleiðendur hljóðrita geti bannað eða leyft afritun og útsendingu hljóðrita sem þeir búa til, að útvarpsstofnanir geti á sama hátt bannað eða leyft upptöku og endurvarp útsendinga þeirra.

Lágmarkstímalengd réttarins er samkvæmt samningnum 20 ár.

26 aðildarríki undirrituðu sáttmálann í upphafi, þar á meðal Ísland. Nú eru 91 ríki aðilar að sáttmálanum.

Árið 1971 var gerður nýr sáttmáli, Hljóðritasáttmálinn, sem kvað enn fastar að rétti tónlistarútgefenda til að bregðast við fjöldaframleiðslu tónlistar á segulbandsspólum án heimildar. Ísland hefur ekki undirritað þann samning.