Ráðstjórn er stjórnarfyrirkomulag sem byggir á lagskiptum ráðum til ákvarðanatöku. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um skipulag slíkra ráða, en grunnfyrirkomulag þeirra er yfirleitt svipað. Þar er gert ráð fyrir ýmsum staðbundnum ráðum; oft ráðum verkamanna, en einnig t.d. hermanna, stúdenta, eða jafnvel íbúa á tilteknu svæði. Þessi ráð senda svo málsvara í stærri ráð, sem aftur senda málsvara í enn stærri ráð. Með þessu fyrirkomulagi vilja stuðningsmenn meina að tryggt verði að ákvarðanir verði teknar í samræmi við vilja sem flestra.

Tilraunir til að koma einhvers konar ráðstjórnafyrirkomulagi á laggirnar hefa verið gerðar hvað eftir annað á 20. öld. Má þar meðal annars nefna Rússland 1905 og aftur í kring um byltinguna 1917, (ráð heitir sovét ( cове́т ) á rússnesku) þar af nafnið Sovétríkin eða Ráðstjórnarríkin); Þýskaland í nóvemberuppreisninni 1918, Spánn í borgarastyrjöldinni 1936 - 1939 og í Ungverjalandi 1956.

Ráðstjórnarríkin höfðu slíkt fyrirkomulag sem hugmyndafræðilegan bakgrunn, en stuðningsmenn ráðstjórnar – þar á meðal Rosa Luxemburg, Anton Pannekoek, Nestor Makhno og Pjotr Kropotkin – hafa viljað meina að ráðstjórn hafi í raun aldrei verið þar. Röksemdir þeirra felast meðal annars í þeirri staðreynd að Bolsévikkaflokkurinn hafi notað ráðin á þann hátt að miðstjórn flokksins, Politburo og að lokum aðalritari hans, hafi gefið skipanir sem undirmenn þeirra hafi síðan þröngvað í gegnum ráðin.

Það eru einkum stjórnleysingjar og syndikalistar ásamt vinstri-kommúnistum sem hafa haft ráðstjórnarhugsjónina sem grundvallaratriði í hugmyndafræði sinni.