Pontíus Pílatus var fimmti rómverski landstjóri Júdeu frá 26–36.

„Hvað er sannleikur?“ — Pílatus talar við Krist á málverki eftir Níkolaj Ge (1890).

Hann var skipaður í embætti af Tíberíusi Rómarkeisara og er best þekktur í dag fyrir að dæma krossfestingu Jesú frá Nasaret.

Æviágrip breyta

Pílatus var sendur til Júdeu árið 26 til að gegna þar embætti landstjóra Rómarveldis.[1] Embættistitill hans var praefectus og hann var formlega undirmaður rómverska landstjórans í Sýrlandi. Pílatus var af stétt riddara og fékk því ekki eins virðulegan titil og margir aðrir landstjórar Rómarveldis.[2] Þar sem Tíberíus keisari dregið sig til hlés til eyjarinnar Capri árið 26 kann að vera að Pílatus hafi verið skipaður af ráðherra hans, Sejanusi, sem var þá nánast einvaldur í keisaradæminu.[3]

Í Júdeu hafði Pílatus aðsetur í borginni Caesariu og lét þar rista áletrun á stein til heiðurs Ágústusi Rómarkeisara. Áletrunin hefur varðveist að hluta og uppgötvaðist hún við fornleifauppgröft árið 1961.[2]

Í sagnaritum Fílons frá Alexandríu er Pílatusi lýst sem grimmum stjórnanda sem lét sig almenningsálit litlu varða og virti lítils siði og menningu innfæddra þegna sinna. Fílon greinir frá því að Pílatus hafi vakið reiði Gyðinga í Júdeu með því að setja upp gyllta skildi tileinkaða Ágústusi í konungshöllinni í Jerúsalem, sem þeir álitu brot gegn siðum sínum. Fílon greinir frá því að forystumenn Gyðinga hafi sent kvörtun til Tíberíusar keisara og þannig neytt Pílatus til að taka niður skildina.[4]

Sagnaritarinn Jósefos Flavíos fjallar um Pílatus í tveimur ritum sínum, Gyðinga sögu og Gyðingastríðunum. Líkt og Fílon gefur Jósefos til kynna að Pílatus hafi verið óvinsæll landstjóri sem hafi sýnt Gyðingum í Júdeu yfirgang.[4]

Jósefos greinir frá því að þegar Pílatus hafði verið landstjóri í tíu ár hafi grimmd hans gagnvart Samverjum leitt til þess að hann var kallaður heim til Rómar á fund Tíberíusar. Þegar þangað var komið hafi Tíberíus hins vegar verið nýlátinn. Tíberíus lést árið 37 og því er jafnan gert ráð fyrir því að tíu ára stjórnartíð Pílatusar í Júdeu hafi verið frá árinu 26 til 36. Ekkert er vitað um afdrif Pílatusar eftir að hann kom til Rómar.[5]

Heimildir breyta

  • Sverrir Jakobsson (2018). Kristur: Saga hugmyndar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 9789979664017.

Tilvísanir breyta

  1. Illugi Jökulsson (11. apríl 2015). „Hörkutól hugleiðir sannleikann“. Fréttablaðið. bls. 36.
  2. 2,0 2,1 Kristur: Saga hugmyndar. bls. 13.
  3. „Æfi Jesú“. Kirkjuritið. 1. júní 1957. bls. 269-279.
  4. 4,0 4,1 Kristur: Saga hugmyndar. bls. 14.
  5. Kristur: Saga hugmyndar. bls. 15.
   Þessi sögugrein sem tengist trúarbrögðum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.