Paul Heyse (15. mars 18302. apríl 1914) var þýskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1910.

Mynd af Paul Heyse eftir Adolph von Menzel.

Ævi og störf breyta

Paul Heyse fæddist í Berlín. Faðir hans var Karl Wilhelm Ludwig Heyse, frægur málvísindamaður og prófessor við Berlínarháskóla, afi hans var kunnur málfræðingur og orðabókarhöfundur. Heyse var góður námsmaður og átti vegna fjölskyldu sinnar greiðan aðgang að framámönnum í fræða- og menningarlífi Berlínar. Hann stundaði háskólanám í Berlín og Bonn, en ákvað að lokum að gerast rithöfundur.

Hann gekk til liðs við Tunnel über der Spree, ungskáldahóp í Berlín árið 1849. Fyrstu ljóð hans birtust í kjölfarið og voru þau innblásin af stjórnarbyltingum ársins áður víða um Evrópu. Hann fékk doktorsgráðu fyrir rannsóknir sínar á söngvaskáldum miðalda og var sendur af ríkisstjórninni til Ítalíu í leit að handritum sem tengdust þýskri menningu. Innblásinn af ítalskri náttúru samdi hann smásöguna L'Arrabbiata sem varð hans þekktasta verk. Sagan hefur komið út á íslensku í þýðingu Björns Jónssonar.

Bókmenntafrægð Heyse varð til þess að Maximilian II konungur í Bæjaralandi veitti honum prófessorsstöðu án kennsluskyldu við Háskólann í München. Þar gekk hann til liðs við annan kunnan skálda- og rithöfundahóp, Krókódílana (þýska: Die Krokodile). Á meðan á dvölinni í München stóð sinnti Heyse einkum leikritaskrifum.

Eftir 1870 var Heyse orðinn eitt af stóru nöfnunum í þýsku menningarlífi og raunar kunnur langt út fyrir Þýskaland. Hann var afar andsnúinn natúralismanum sem naut mikillar hylli hjá yngri höfundum. Á áttræðisafmæli hans var Heyse aðlaður auk þess sem honum voru veitt Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar var staðhæft að Heyse væri mestur skáldjöfur Þjóðverja frá Goethe.