Pathet Lao

skæruliðaher í Laos 1949 - 1975

Pathet Lao var pólitísk hreyfing og skæruliðaher í Laos sem barðist frá 1949 fram til 1975, upphaflega við franska nýlenduveldið enn lengst af við hægrisinnaðar ríkisstjórnir studdar af Bandaríkjunum. Pathet Lao var var lögð niður sem hreyfing eftir að Alþýðulýðveldið Laos var stofnað 1975. Hreyfingin var ætíð undir stjórn kommúnista og var nátengd og í sumum tilvikum samofin víetnömsku hreyfingunni Viet Minh og kommúnistum í Norður-Víetnam.

Pathet Lao
ປະເທດລາວ
Fáni Pathet Lao.
FramhaldByltingarflokkur laoskrar alþýðu
Stofnun1950
Upplausn2. desember 1975
GerðStjórnmálahreyfing, hernaðarsamtök
HöfuðstöðvarVientiane, Laos
ForstöðumaðurSouphanouvong prins
Kaysone Phomvihane
Nouhak Phoumsavanh
HugmyndafræðiKommúnismi, marx-lenínismi, þjóðernishyggja

Söguágrip breyta

Valdataka Japana í Laos í mars 1945 klippti skyndilega á 50 ára sögu franska nýlenduveldisins. Án nokkurrar andspyrnu voru Frakkar í landinu lokaðir inni í fangabúðum og allt valdakerfið lagt í hendur Japönum. Þegar Japanir hurfu frá Laos í ágúst 1945 var yfirstéttin í landinu klofin í afstöðu sinni til endurkomu Frakka. Konungurinn, Sisavangvong, fagnaði endurkomunni en varakonungurinn, Phetsarath prins og bræður hans Souvanna Phouma og Souphanouvong voru algjörlega andstæðir. (Konungurinn sjálfur átti 11 konur og minnst 24 börn en prinsarnir þrír voru allir hálfbræður með sama föður, yngri bróðir konungs.) Bræðurnir síðarnefndu voru meðal leiðtoga í þjóðfrelsishreyfingunni Lao Issara (Frjálst Laos). Lao Issara lýsti landið sjálfstætt í ágúst 1945 og útnefndi nýja ríkisstjórn. En franska hernum tókst að berja sjálfstæðishreyfinguna niður að sinni, prinsarnir Phetsarath og Souvanna Phouma flúðu til Taílands en Souphanouvong til Víetnam. Sisavangvong var krýndur konungur yfir öllu Laos 1946 og fékk landið þá takmarkað sjálfstæði innan Franska samveldisins. Miklar deilur urðu innan Lao Issara um þetta takmarkaða sjálfstæði og það leiddi til til þess að hreyfingin klofnaði 1949 og hvarf sem pólitískur kraftur á næstu árum. Stærsti hluti Lao Issara myndaði ný samtök, Pathet Lao (Landið Lao), sem hóf vopnaða baráttu fyrir fullu sjálfstæði.

 
Inngangur að einum af hellum þeim sem forysta Pathet Lao bjó í í fjöllunum nálægt Vieng Xai

Sem formleg forysta fyrir sjálfstæðisbaráttuna var bráðabirgðaríkisstjórn undir forystu Souphanouvong valin á þingi Pathet Lao í Víetnam í ágúst 1950. Í stjórnina var meðal annarra valinn Kaysone Phomvihane sem síðar varð aðalráðamaður í Laos. Í raun stjórnuðu víetnamskir kommúnistar Pathet Lao að mestu, ekki síst gegnum Kommúnistaflokk Indókína sem stofnaður var 1930. Í þessum flokki voru liðsmenn frá Víetnam í algjörum meirihluta þó þar væru einnig meðlimir frá Laos og Kambódíu. Flokknum var skipt í þrjá landsflokka 1951 en Víetnamarnir héldu áfram að hafa tögl og hagldir á hinum tveim, einkum þeim laoska sem nefndur var Alþýðuflokkur Laos.

Frakkar buðu Laos fullt sjálfstæði 1953 en Pathet Lao áleit að konungsstjórnin mundi endast vera leppstjórn og höfnuðu tilboðinu. En Souvanna Phouma prins snéri aftur til Vientiane og tók sæti í konunglegu ríkisstjórninni.

Um áramótin 1953 - 1954 gerði Pathet Lao með aðstoð Viet Minh mikla sókn inn í Laos og náðu stórum parti af norður og austurhluta landsins. Eftir ósigurinn í orrustunni við Dien Bien Phu í mars 1954 hófu Frakkar undanhald sitt frá Indókína. Í staðin hófu Bandaríkin að styðja þá krafta sem þeim þóttu helstir í baráttunni við kommúnismann. Meðal annars tóku þeir upp stuðning við konunglegu ríkisstjórnina í Vientiane ekki síst með vopnaaðstoð.

Ráðstefnan í Genf 1954 gaf Laos fullt sjálfstæði en þar fannst engin lausn á því hvernig ætti að stjórna landinu. Souvanna Phouma prins sem var hlutlaus í deilum Austurs og Vesturs og stjórnaði í Vientiane, í suðri var það prins Boun Oum (sem var af ætt konunga frá Champassak) sem réði yfir svæðinu í kring um Pakse, hann var hægrisinnaður og naut stuðnings Bandaríkjanna. Og í norðri réði Pathet Lao með stuðningi Víetnam og Kína.

Ár 1959 lést konungurinn og við tók sonur hans Savang Vatthana. Næstu árin voru gerðar margar tilraunir til að skapa samsteypustjórnir konungssina og kommúnista. Souvanna Phoma varð forsætisráðherra 1956 og bróðir hans, Souphanouvong, varð ráðherra. En stjórninni var steypt af stóli 1958 af herliði með aðstoð Bandríkjanna. Bardagar hófust að nýju milli Pathet Lao og konunglega hersins. Það tókst að koma á tímabundum friði 1961 og ný hlutlaus stjórn tók við undir forystu Souvanna Phoma. Ný samsteypustjórn tók við 1962 en stóð í skamman tíma enda dróst Laos nú inn í hið vaxandi ófriðarástand í Víetnam. Þær hersveitir sem höfðu verið hingað til hlutlausar snérust flestar á sveif með Pathet Lao gegn þeim sem studdar voru af Taílandi og Bandaríkjunum.

Næsti áratugur einkenndist af stanslausri borgarstyrjöld, valdaránum og öngþveiti. Laos dróst inn í Víetnamstríðið sem eiginlega ætti að heita seinna Indókínastríðið af fullum krafti. Segja má að landið hafi orðið leiksoppur stórveldanna, bandaríska CIA þjálfaði og launaði sveitir frá H'mong-fólkinu, taílenskir málaliðar börðust fyrir konungsstjórnina og Pathet Lao fékk stuðning frá Kína, Sovétríkjunum og Víetnam.

Meðan á Indókínastríðinu stóð var Laos í raun uppskipt í fjögur áhrifasvæði. Kína í norðri, Víetnamar meðfram Ho Chi Minh-stígnum í austri, Taílendingar í vestra hlutanum þar sem hersveitir hollar konungi réðu með stuðningi Bandaríkjanna og sveitir Rauðu Khmer-hreyfingarinnar héldu til í suðurhlutanum. Ekki síst vegna Ho Chi Minh-stígsins varð Laos fyrir óhemju sprengjuregni af höndum Bandaríkjanna og að nokkru leiti Taílands. Þrátt fyrir að bandaríkjaþing aldrei lýsti yfir stríð á hendur Laos og að starfsemin var ólögleg felldu bandarískar sprengjuflugvélar meira magni af sprengjum á árunum 1964 til 1973 yfir héruðunum Xieng Khuang, Sam Neua og Phong Saly í norðri og Saravan í suðri en allar sprengjur sem varpað var í seinni heimsstyrjöldinni af öllum stríðsaðilum. Samkvæmt skýrslum bandaríska flughersins fór hann í meira en 600 000 árásarferðir yfir Laos á þessum árum. Að meðaltali þýðir það að áttundu hverja mínútu, allan sólarhringinn, allt árið um hring var sprengjum varpað yfir landið. Óvíst er hversu margir dóu í þessum sprengjuárásum en sennileg ágiskun er að það hafi verið milli 300 000 og 400 000 manns.[1]

Þessum lofthernaði var haldið leyndum vegna þess að Genfarsáttmálinn frá 1962 bannaði erlendum her að starfa í Laos. Í raun var öll hernaðarstarfsemi Bandaríkjanna í Laos ólögleg vegna þess að bandaríkjaþing fjallaði aldrei um málið og allar þessar sprengjuárásir framkvæmdar í leyni fyrir þingi og fjölmiðlum. Í upphafi flugu bandarískir herflugmenn óeinkennisbúnir í flugvélum sem merktar voru konunglega laoeska hernum. En það var ekki bara bandaríkjaher sem rauf Genfarsáttmálan, bæði Kína og Víetnam höfðu hersveitir í Laos.

Þegar Bandríkin hófu undanhald sitt frá Indókína 1973 tók Pathet Lao völdin í flestum héruðum landsins utan borganna. Samsteypustjórn var komið á 1973 en þegar Saigon féll 1975 flúðu flestir konungssinnar landið. Flestir fóru til Frakklands en allmargir til Bandaríkjanna og Taílands. Samtals flúðu um 300 000 manns frá Laos eftir valdatöku kommúnista. Pathet Lao tóku öll völd í landinu í maí en lét konunginn segja af sér og lýstu yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Laos í desember 1975. Hreyfingin Pathet Lao var lögð niður en við tók valdakerfi ríkisins og Byltingarflokkur laoskrar alþýðu sem varð og er enn eini löglegi stjórnmálaflokkur landsins.

Heimildir breyta

  • Stalking the Elephant Kings, Cristopher Kremmer, Silkworm Books, 2003, ISBN 9781864481372
  • Theravadins, Colonialists and Commissars in Laos, Geoffrey C. Cunn, White Lotus, 1998, ISBN 974-8434-39-7
  • Laos, from buffer state to crossroads, V. Pholsena, R. Banomyong, Mekong Press, 2006, ISBN 974-94805-0-3

Tenglar breyta