Palombía (spænska: República Palombiana) er skáldað Suður-Ameríkuland sem kemur við sögu í sumum ævintýranna um félagana Sval og Val. Furðuskepnan Gormur er upprunnin í Palombíu og er það sögusvið sagnaflokksins um Gormdýrin eftir belgíska listamanninn André Franquin. Palombía, líkt og hið skáldaða ríki San Teódóros í bókum Hergé um blaðamanninn Tinna, byggir að miklu leyti á evrópskum staðalímyndum af menningu og umhverfi Rómönsku-Ameríku og áttu vafalítið sinn þátt í að festa þær í sessi.

Landafræði og náttúrufar breyta

 
Áætluð staðsetning Palombíu.

Á korti í Baráttunni um arfinn sést að Palombía, sem sögð er minnsta land Suður-Ameríku, liggi á mörkum Venesúela, Perú, Kólumbíu og Brasilíu. Í bókinni Burt með harðstjórann! kemur þó einnig fram að Palombía eigi landamæri að ríkinu Gúaraka.

Um helmingur íbúanna býr í höfuðborginni Síkító (spænska: Chiquito). Náttúrufar er fjölbreytt. Hluti landsins er gróðurlítil eyðimörk en þar má líka finna volduga frumskóga, steppusvæði og háa fjallgarða. Í Palombíu má líka finna hyldjúp vötn sem eru að mestu ókönnuð.

Dýra- og fuglalíf Palombíu er fjölskrúðugt, einkum í frumskóginum. Jagúarar, tapírar, skrautlegir páfagaukar og píranafiskar eru áberandi. Sérstæðasta skepna frumskógarins er þó vafalítið gormdýrið sem býr yfir ógnarkröftum og óvenjulega mikilli greind. Gormdýr eru í miklum metum hjá dýrasöfnurum og eru veiðiþjófar algengir í landinu.

Frumskógur Palombíu er einnig heimili ættbálka frumbyggja sem eru árásargjarnir og bregðast oftar en ekki illa við ferðalöngum.

Saga breyta

 
Þjóðfáni Palombíu, án gormdýrs.

Hvorki spænskumportúgölskum landafundamönnum tókst fyllilega að ná yfirráðum í Palombíu, sem skýrðist bæði af mótspyrnu frumbyggja og skorti á verðmætum náttúruauðlindum. Spænskir innflytjendur reistu borgina Síkító í lok nítjándu aldar og varð hún hornsteinn Lýðveldisins Palombíu.

Stjórnarfarið í Palombíu hefur alla tíð verið óstöðugt og uppreisnir og herforingjabyltingar tíðar frá því að ríkið öðlaðist sjálfstæði árið 1923. Árið 1954 varð hershöfðinginn Santas (franska: Zantafio) einræðisherra í landinu og áformaði landvinningastríð gegn grannríkinu Gúaraka. Stjórn Santas hershöfðingja minnti um margt á fasistastjórnir Evrópu á millistríðsárunum varðandi áróðurstækni og notkun myndmáls.

Eftir að Santas var hrakinn frá völdum tók við löng röð herforingjastjórna sem reglulega var kollvarpað. Um tíma var Palombía ein af mörgum bækistöðvum vísindamannsins Zorglúbbs, sem blóðmjólkaði alþýðu landsins til að fjármagna áform sín um heimsyfirráð. Framferði hans stuðlaði þó að auknu hreinlæti og bættri tannheilsu í landinu.

Frá 1964 til 1990 ríktu feðgarnir Papa Prinz og Baby Prinz í Palombíu. Faðirinn var að lokum myrtur í sínu 28. banatilræði árið 1970 og tók sonur hans þá við völdum. Hann lét bæta mynd af gormdýri á palombíska fánann en þeirri hönnun var síðar breytt til baka. Baby Prinz þótti afkastalítill stjórnandi, enda þjakaður af hreinlætisæði og varði mestöllum tímanum í að sinna tuskudýrasafni sínu. Honum var komið frá völdum árið 1990 af Achilo Zavatas, stjórnanda stærstu sápuverksmiðju í Palombíu, en landsmenn höfðu á tímum Zorglúbbs komist upp á lagið með að nota sápu í stórum stíl.

Menning breyta

Þrátt fyrir að liggja í jaðri Amasónfrumskógarins er margt í menningu íbúa Palombíu sem minnir á Mexíkó. Klæðaburður almennings er um margt mexíkóskur, þar sem barðastórir hattar eru áberandi. Tortillur eru vinsæll réttur og tekíla drukkið ótæpilega.

Spænsk menningaráhrif birtast á ýmsum sviðum. Nautaat er vinsæl keppnisgrein og gítartónlist er í miklum metum. Vísir að ferðamannaiðnaði er í landinu og eiga óprúttnir götusalar það til að pranga inn á hrekklausa ferðalanga fölsuðum minjagripum sem eiga að hafa að geyma hár eða skinn af gormdýrum.

Heimildir breyta