Norræna ráðherranefndin

Norræna ráðherranefndin var stofnuð 1971 og er samstarfsstofnun ríkisstjórna Norðurlandanna. Starf Norrænu ráðherranefndarinnar er hluti opinbers samstarfs Norðurlandanna sem hófst formlega 1952 með stofnun Norðurlandaráðs.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna bera ábyrgð á samstarfinu en fela hins vegar norrænum samstarfsráðherrum sínum að fara með ábyrgðina. Ráðherranefndin er í raun ekki ein nefnd heldur nokkrar nefndir. Norrænir fagráðherrar funda í ráðherranefndum nokkrum sinnum á ári um málefni sem falla undir verksvið ráðuneytanna, fyrir utan ráðherra utanríkis- og varnarmála, sem standa utan Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norræna ráðherranefndin hefur yfirumsjón með ýmsum norrænum verkefnum. Meðal þess sem fellur undir starf Norrænu ráðherranefndarinnar er upplýsingaveitan Halló Norðurlönd sem ætluð er einstaklingum og fyrirtækjum sem þarfnast upplýsinga um flutning, nám eða störf á Norðurlöndunum. Þá tekur nefndin þátt í rekstri Nordjobb sem er norræn atvinnumiðlun fyrir 18-28 ára ungmenni á Norðurlöndunum sem leita sér að sumarvinnu í öðru norrænu landi.

Ýmsar norrænar samstarfsstofnanir eða verkefni heyra annað hvort undir eða starfa með Norrænu ráðherranefndinni. Þar má nefna menntaáætlun Nordplus, Norrænu félögin, Norrænu menningargáttina, Norðurlönd í brennidepli, NordForsk og Norræna sumarskólann.

Norræna ráðherranefndin sendir einnig frá sér ýmis upplýsingagögn, til að mynda rit um næringarráðgjöf[óvirkur tengill] og Norrænu tölfræðihandbókina Geymt 22 janúar 2010 í Wayback Machine sem kemur út á hverju ári og inniheldur ýmis tölfræðigögn sem varða samfélagshorfur á Norðurlöndunum.

Aðilar að Norrænu ráðherranefndinni breyta

Ríki breyta

Sjálfstjórnarsvæði breyta

Lykilviðburðir í sögu Norrænu ráðherranefndarinnar breyta

Fram að 1971 breyta

 
Formlegt norrænt samstarf mótast og þróast smám saman allan sjöunda áratuginn.
  • Samstarf milli norrænna ráðherra um málefni þróunarsamvinnu 1961.
  • Helsingforssamningurinn undirritaður og staðfestur 1962 af stærstu Norðurlöndunum fimm. Í seinni uppfærslu samningsins er kveðið á um hlutverk og starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar.
  • Norrænir ráðherrafundir haldnir um ýmis málefni allan sjöunda áratuginn, meðal annars um aukið efnahagssamstarf. Norrænt samstarf á ríkisstjórnarstigi fór annars að mestu fram á óformlegum ráðstefnum.
  • Aukið samstarf á sjöunda áratugnum leiðir til stofnunar fastanefndar norrænna ráðherra og með henni starfaði samstarfsnefnd embættismanna frá sömu löndum.
  • Norðurlöndin fimm gera tilraun til að stofna norræna efnahagsbandalagið Nordek. Tilraunin mistekst og Danmörk og Noregur sækja í staðinn um inngöngu í Evrópubandalagið. Norðmenn hafna inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu en Danir gengu í EB 1973.
  • Eftir hina misheppnuðu tilraun um stofnun norræns efnahagsbandalags er, þess í stað, ákveðið að formfesta samvinnu norrænna ríkisstjórna með stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar 1971. Ákvæðum um starf og hlutverk nefndarinnar er bætt inn í Helsingforssamninginn.[1]

1972–1989 breyta

 
Norðurlandahúsið, Þórshöfn í Færeyjum.
  • Skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar fundinn staður í Osló. Hún tók til starfa 1973.
  • Danir samþykkja inngöngu í Evrópubandalagið 1972 en Norðmenn hafna því sama ár.
  • Eftir inngöngu Dana í EB sjá þeir um að miðla upplýsingum frá bandalaginu til annarra norrænna þjóða. Áfram er stefnt að viðhaldi norrænnar samvinnu, þrátt fyrir breytta stöðu með inngöngu Dana í EB.
  • Norræni iðnaðarsjóðurinn, Nordtest (í dag Norræna nýsköpunarmiðstöðin) og fleiri norrænar stofnanir eru settar á fót 1973.
  • Við endurskoðun Helsingforssamningsins 1974 bætist við norrænt samstarf um umhverfismál.
  • Norræni fjárfestingarbankinn hefur starfsemi sína 1975.
  • Norræna rannsóknarráðið (nú NordForsk) hefur störf 1983. Aðsetur stofnunarinnar eru í Osló. Stofnunin vinnur að því að efla norrænar rannsóknir. Verkefni á sviði orkurannsókna einnig sett á fót 1985 (breytt í stofnunina Norrænar orkurannsóknir 1999).
  • Norðurlandahúsið í Þórshöfn í Færeyjum opnar 1983. Viðlíka hús voru tekin í notkun næstu ár á Álandseyjum (1985) og á Grænlandi (1987).
  • Norræna atvinnumiðlunin Nordjobb er sett á stofn 1985 í samvinnu Norrænu ráðherranefndarinnar og annarra stofnana og samtaka. Hlutverk Nordjobb er að aðstoða 18-28 ára ungmenni á Norðurlöndum við að finna sér sumarstarf í öðru Norðurlandi. Höfuðstöðvar þess eru í Malmö en starfsstöðvar eru á öllum Norðurlöndunum.
  • Skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar flytjast til Kaupmannahafnar 1986. Fram að því hafði skrifstofa menningarsamstarfs Norðurlandanna verið þar í borg.[2]

Frá 1989 breyta

 
Eyrarsundsbrúin milli Danmerkur og Svíþjóðar gaf tilefni til frekara afnáms stjórnsýsluhindrana milli Norðurlanda.
  • Hrun Berlínarmúrsins og fall Sovétríkjanna breytir hlutverki Norðurlandasamstarfsins. Samvinna við Eystrasaltsríkin verður virkur þáttur í starfseminni. Norræna ráðherranefndin opnar upplýsingaskrifstofur í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þriggja 1991. Tengsl við grannríki í vestri, s.s. Kanada, eykst einnig.
  • Eystrasaltsráðið (CBSS) er stofnað 1992. Þau ellefu ríki sem eiga land að Eystrasalti eru aðilar að ráðinu. Barentsráðið (stofnað 1993) og Norðurskautsráðið (stofnað 1996) eru svipuð svæðaráð og í þeim öllum eru Norðurlöndin og Norræna ráðherranefndin virkir þátttakendur og samstarfsaðilar.
  • Finnar og Svíar ganga í Evrópusambandið 1995. Norðmenn höfnuðu aðild, öðru sinni, árið áður í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrjú Norðurlönd eru því aðilar að ESB en Ísland og Noregur standa áfram utan samstarfsins en tengjast því þó á ýmsan hátt, til að mynda gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá 1994.
  • Samstarf við Norðvestur-Rússland tekur á sig formlega mynd 1995 með opnun norrænnar upplýsingaskrifstofu í Pétursborg í Rússlandi og útibúum frá henni í Múrmansk, Arkhangelsk og Petrozavodsk. Norræn upplýsingaskrifstofu var einnig opnuð í Kalíníngrad 2006. Upplýsingaskrifstofa var auk þess opnuð á Akureyri 1996.
  • Umsýsla mestalls opinbers samstarf Norðurlandanna fer fram á sama stað frá og með árinu 1996 þegar að skrifstofa Norðurlandaráðs flytur frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar, á sama stað og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar var fyrir (Store Strandstræde 18, rétt við Kongens Nytorv og Nýhöfn í miðri Kaupmannahöfn).
  • Menningarhúsið/Katuaq er opnað 1997 í Nuuk á Grænlandi. Norræna ráðherranefndin stóð fyrir byggingu hússins.
  • Upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd (Hallo Norden) hefur göngu sína 1998 sem símaþjónusta. Vefsíða verkefnisins opnar 2002 og í gegnum hana fer nú mikill hluti starfseminnar fram.
  • Opnun Eyrarsundsbrúarinnar milli Svíþjóðar og Danmerkur gefur tilefni til aukinna áherslna Norðurlandasamstarfsins á afnám hindrana milli Norðurlandanna fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem kjósa að reka sín daglegu erindi milli landa á Norðurlöndunum.
  • Með aðild Eystrasaltslandanna að ESB 2004 eru öll lönd (að rússnesku svæðunum undanskildum) sem liggja að Eystrasaltinu aðilar að ESB.
  • Eistland, Lettland og Litháen fá fulla aðild að Norræna fjárfestingabankanum 2005.
  • Norræna ráðherranefndin beinir, í auknum mæli, sjónum að verkefnum tengdum hnattvæðingu eftir samþykkt norrænu forsætisráðherranna á fundi 2007.
  • Ýmsar breytingar gætu orðið á norrænu samstarfi næstu árin. Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu 2009 og samþykki Íslendingar inngöngu í ESB gæti Noregur, einn stóru Norðurlandaþjóðanna fimm, staðið utan Evrópusambandsins. Þá má vænta enn frekara samstarfs í framtíðinni við lönd á Eystrasaltssvæðinu.[3]

Framkvæmdastjórar Norrænu ráðherranefndarinnar breyta

 
Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar 2007–2013

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. ,,Tímabilið fram að 1971" Norden.org[óvirkur tengill]
  2. ,,1972-1989" Norden.org[óvirkur tengill]
  3. ,,Eftir 1989" Norden.org[óvirkur tengill]