Millwall F.C. er enskt knattspyrnulið frá suðaustur-London sem spilar í ensku meistaradeildinni. Liðið var stofnað sem Millwall Rovers árið 1885 og hefur það oftast verið í 2. og 3. deild enska fótboltans. Helsti rígur hefur verið milli Millwall og Crystal Palace, West Ham United og Charlton Athletic, en stuðningsmenn Millwall hafa löngum haft á sér orð fyrir að vera áflogahundar. Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson spilar með félaginu.

Millwall Football Club
Fullt nafn Millwall Football Club
Gælunafn/nöfn The Lions (Ljónin)
Stofnað 1885
Leikvöllur The Den
Stærð 20.146
Stjórnarformaður Fáni Englands John Berylson
Knattspyrnustjóri Fáni Englands Gary Rowett
Deild Enska meistaradeildin
2021/2022 9. af 24
Heimabúningur
Útibúningur

Saga breyta

Millwall var stofnað árið 1885 sem starfsmannalið verkamannanna í verksmiðju J.T. Morton í Millwall. Um var að ræða matvælafyrirtæki og niðursuðuverksmiðju sem sá breskum skipum fyrir vistum og kom starfsfólkið alls staðar af frá Bretlandseyjum. Fyrsti formaður félagsins var hverfislæknirinn, William Murray-Leslie, sem leikið hafði fyrir írska landsliðið, en hann spilaði þó aldrei fyrir Millwall.

Fyrstu árin lét félagið nægja að taka þátt í héraðskeppnum en árið 1894 var það meðal stofnfélaga Suðurdeildarinnar. Hún var stofnuð sem viðbragð við sívaxandi vinsældum Ensku deildarkeppninnar, sem borin var uppi af atvinnumannaliðum frá Noruður-Englandi. Sunnar í landinu var atvinnumennska ekki eins langt á veg komin og var Suðurdeildin samsett af blöndu atvinnu-, hálfatvinnu- og áhugamannaliða. Millwall vann Suðurdeildina tvö fyrstu árin, 1894-95 og 1895-96. Á þessum árum var ekki óalgengt að milli 30 og 40 þúsund áhorfendur mættu á heimaleiki liðsins sem átti sér þó engan fastan samastað.

Árið 1910 flutti liðið á sinn eigin heimavöll, sem fékk nafnið The Den og síðar The Old Den eftir að nýr völlur með sama nafni var tekinn í notkun árið 1993. Völlurinn þótti snemma erfiður heim að sækja, ekki hvað síst vegna stuðningsmanna Millwall sem fengu snemma vafasamt orðspor. Á tímum þar sem til siðs þótti að áhorfendur klöppuðu jafnt fyrir snjöllum tilþrifum beggja liða urðu Millwall-stuðningsmenn alræmdir fyrir að hrópa einungis fyrir sínum mönnum. Stuðningsmennirnir komu einnig flestir úr fátækustu og óhefluðustu lögum samfélagsins, sem átti til að skelfa fylgismenn annarra liða enn frekar.

Veturinn 1920-21 rann Suðurdeildin saman við Ensku deildarkeppnina og til varð 3. deild (suður). Millwall var stofnfélagi í þeirri deild og hefur tekið þátt í deildarkeppninni allar götur síðan. Liðið flakkaði á milli annarrar og þriðju deildar en var þó löngum í hópi þeirra tíu félaga í landinu sem dró að sér flesta áhorfendur.

Áttundi áratugurinn var blómaskeið hjá Millwall. Árið 1974 var liðið aðeins einu stigi frá því að komast í efstu deild í fyrsta sinn. Sama ár braut það blað í sögunni með því að bjóða fyrst allra liða upp á leik á sunnudegi. Til að það væri mögulegt þurfti raunar að beita nokkrum brellum, því óheimilt var að selja inn á skipulagðar skemmtanir á sunnudögum. Gripu stjórnendur félagsins því til þess ráðs að hafa ókeypis á leikinn en engum væri hleypt inn gegn framvísun leikskrár sem kostaði sem nam andvirði eins miða!

Skotinn George Graham stýrði Millwall frá 1982 til 1986. Undir hans stjórn fór Millwall upp í næstefstu deild og sigraði í bikarkeppni neðrideildarliða. Frammistaða Graham hjá Millwall vakti athygli og var hann ráðinn til Arsenal F.C. en landi hans, John Docherty tók við keflinu á The Den. Á öðru árinu undir hans stjórn kom Millwall öllum á óvart og tryggði sér sæti í efstu deild, en fram að því hafði það verið eina Lundúnarliðið í deildarkeppninni sem aldrei hafði keppt í hópi þeirra bestu.

Millwall byrjaði leiktíðina 1988-89 sem spútniklið deildarinnar og sat á toppnum þann 1. október með fjóra sigra og tvö jafntefli í fyrstu sex leikjunum. Skýrðist þessi árangur einkum af framherjaparinu Tony Cascarino og Teddy Sheringham. Tímabilinu lauk með Millwall í tíunda sæti, sem er besti árangur félagsins fyrr og síðar en olli þó stuðningsmönnum nokkrum vonbrigðum, þar sem liðið hafði verið enn ofar alla leiktíðina. Keppnistímabilið 1989-90 byrjaði vel og Millwall tyllti sér á toppinn í lok september eftir sigur á Coventry City, en upp frá því unnust aðeins tveir leikir og liðið var fallið úr efstu deild á ný.

Það að fá nasaþefinn af efstu deildarboltanum breytti viðhorfum stjórnenda Millwall sem kappkostuðu að komast upp á ný. Við tóku ör stjóraskipti og misskynsamlegar fjárfestingar sem leiddu að lokum til þess að liðið féll aftur niður um deild. Leiktíðina 2003-04 upplifði Millwall óvænt bikarævintýri undir stjórn spilandi þjálfarans Dennis Wise sem kom liðinu í úrslitaleik bikarkeppninnar í fyrsta sinn á friðartímum. Manchester United reyndust ofjarlar Lundúnaliðsins og unnu 3:0. Millwall öðlaðist keppnisrétt í UEFA bikarnum í fyrsta sinn en féll úr leik fyrir Ferencváros.

Frá 2017 hefur Millwall leikið í næstefstu deild.

Besti árangur breyta

  • 10. sæti í efstu deild tímabilið 1988–89.
  • FA Cup úrslit árið 2004.

Heimildir breyta