Lynne Ann Cheney (áður Vincent; f. 14. ágúst 1941) er bandarískur rithöfundur og fræðimaður. Hún er gift 46. varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney, og gegndi embætti varaforsetafrúar Bandaríkjanna 2001-2009.

Lynne Cheney

Fjölskylda, menntun og starfsferill breyta

Lynne Ann Vincent fæddist í Casper, Wyoming, 14. ágúst 1941. Móðir hennar var lögreglustjóri og faðir verkfræðingur. Lynne er með doktorsgráðu í breskum bókmenntum 19 aldar frá University of Wisconsin.[1] Árið 1964 giftist hún Richard Bruce (Dick) Cheney. Þau eiga saman tvær dætur, Mary og Elizabeth, sem hefur verið þingmaður Repúblíkanaflokksins fyrir Wyomingfylki síðan 2017.[2]

Lynne var formaður Rannsóknarsjóðs bandarískra hugvísinda, (National Endowment for the Humanities, NEH) 1986-1993. Á árunum 1995-1998 var hún einn tveggja stjórnenda umræðuþáttarins Crossfire á CNN. Hún var einnig félagi við hægrisinnuðu hugveituna American Enterprise Institute, stofnaði og stýrði American Council of Trustees and Alumni, sem berst fyrir breytingum á bandarískum háskólum. Hún sat í stjórn flugvéla- og hergagnaframleiðandans Lockheed á árunum 1994-2001.

Stjórnmál breyta

Á níunda og tíunda áratugnum var hún einn af mikilvægustu talsmönnum ný-íhaldsstefnu. Hún lét mjög til sín taka í umræðu um menntamál og þó sérstaklega sögu og sögukennslu. Sem formaður NEH gagnrýndi Lynne sagnfræðinga sem hún taldi að drægju upp dimma og grimmdarlega mynd af sögu Bandaríkjanna. Hún hafði einnig miklar áhyggjur af hnignandi söguskilningi bandarískra ungmenna. Til þess að bæta úr þessu setti NEH á hóp starfshóp sem átti að skrifa sögustaðla (National History Standards) til notkunar við kennslu á sögu í grunnskólum.[3]

Þó þverpólítísk sátt hafi ríkt milli demókrata og repúblíkana um nauðsyn staðla í sögukennslu urðu staðlarnir að einu bitrasta pólítíska deilumáli á fyrsta kjörtímabili Clinton. Deilurnar eru hluti "sögustríðanna" í bandaríkjunum á níunda og tíunda áratugnum. Staðlarnir sem starfshópurinn lagði til árið 1994 gerðu meira úr sögu svartra bandaríkjamanna, minnihlutahópa, fátækra, kvenna og annarra jaðarsettra hópa en mörgum íhaldsmönnum þótti eðlilegt. Lynne Cheney var fyrst til þess að snúast gegn þeim opinberlega. Í grein sinni „The End of History“ í Wall Street Journal sagði hún námsefnið græfi undan þjóðastolti og föðurlandsást, og kallaði eftir námsefni sem endurspeglaði hefðbundnari bandaríska þjóðarsögu.[4]

Í valdatíð Bill Clinton 1993-2000 var hún áberandi álitsgjafi í fjölmiðlum og leitt baráttu fyrir íhaldssömum samfélagsgildum og hægristefnu, bæði sem þáttastjórnandi á CNN en einnig sem dálkahöfundur og tíður álitsgjafi í ýmsum fjölmiðlum.

Sem varaforsetafrú gagnrýndi Cheney árásir á "hefðbundin fjölskyldugildi" og siðspillingu í bandarískri dægurmenningu, þar á meðal rapptextum.[3]

Tilvísanir breyta

  1. „Lynne V. Cheney“. American Enterprise Institute - AEI (bandarísk enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 12. nóvember 2020. Sótt 30. nóvember 2020.
  2. „Biography of Lynne V. Cheney“. georgewbush-whitehouse.archives.gov. Sótt 30. nóvember 2020.
  3. 3,0 3,1 Andrew Hartman (2015). A war for the soul of America. A history of the culture wars. bls. 265-275.
  4. „Lynne Cheney's Attack on the History Standards, 10 Years Later | History News Network“. historynewsnetwork.org. Sótt 4. janúar 2021.