Lentiveira

Ættkvísl hæggengra vírusa er valda sjúklegri frumurækt og bólgusjúkdómum

Lentiveirur eru undirflokkur af retróveirum sem valda ekki æxlisvexti heldur sjúklegum breytingum í frumurækt og hæggengum bólgusjúkdómum í dýrum. Nafnið er dregið af orðinu lentus í latínu sem þýðir hægur. Íslenski vísindamaðurinn Björn Sigurðsson setti árið 1954 fram kenningu um hæggenga veirusjúkdóma og var kenningin byggð á rannsóknum hans á sauðfjársjúkdómunum mæðu og visnu sem bárust til Íslands árið 1933 með karakúlfé. Veiran sem olli visnu var fyrst ræktuð í frumurækt frá kindaheila árið 1957 og ári seinna ræktaðist mæðiveira frá sýktum lungum. Rannsóknir sýndu að það var sama veiran og var hún nefnd mæði-visnuveira. Þegar veiran sem veldur alnæmi (HIV veiran) ræktaðist frá alnæmissjúklingum árið 1980 kom í ljós að sú veira var einnig lentiveira og náskyld mæði-visnuveirunni. Alnæmisveiran var fyrsta lentiveiran sem uppgötvaðist sem olli hæggengum smitsjúkdómum í mönnum.[1]

Lentiveirur sem genaferjur breyta

Í genalækningum er mikilvægt að geta flutt gen inn í frumur. Lentiveirur henta til slíkra genalækninga því þær geta sýkt og flutt erfðaefni sitt í frumur sem ekki eru í skiptingu. Árangur hefur orðið af því að nota alnæmisveiru sem genaferju og settar hafa verið fram hugmyndir að því að nota mæði-visnuveiru sem genaferju en erfðamengi hennar er einfaldara og minni hætta fylgir því að vinna með þá veiru en HIV.[2]


Tilvísanir breyta

  1. Halldór Þormar, Mæði og visna og upphaf lentiveirurannsókna,Náttúrufræðingurinn 85 (1–2), bls. 37–45, 2015
  2. Helga Bjarnadóttir, Hildur Helgadóttir, Valgerður Andrésdóttir, Ólafur S. Andrésson, Jón Jóhannes Jónsson, Smíði á genaferjum byggðum á visnuveiru[óvirkur tengill] Læknablaðið : 37. fylgirit (01.12.1998)