Léttöl, óáfengt öl eða óáfengur bjór (oftast kallaður „pilsner“ á Íslandi) er bjór með lítið sem ekkert áfengisinnihald. Oftast er um að ræða lagerbjór. Í mörgum löndum þar sem annars eru takmarkanir á sölu áfengis (t.d. einkaréttur ríkisins á sölunni og bann við sölu til barna og unglinga) er léttöl undanþegið þeim takmörkunum. Misjafnt er við hvaða áfengisprósentu er miðað þegar talað er um léttöl. Sums staðar eru mörkin mjög lág (t.d. 0,5% í Wisconsin) en annars staðar mjög há (t.d. 3,2% í Utah). Á Íslandi eru mörkin dregin við 2,25% sem er sama viðmiðunin og gilti fyrir fyrsta ölskattinn í Danmörku 1891. Í Danmörku voru mörkin hins vegar hækkuð í 2,8% árið 1993.

0% lagerbjór frá Frakklandi.

Á Íslandi er löng hefð fyrir framleiðslu á léttöli þar sem framleiðsla og sala á áfengu öli var bönnuð frá 1915 til 1989. Egils Pilsner (ljós lager), Egils maltöl (dökkt öl) og jólaöl (dökkt öl) eru vinsælir drykkir. Vegna banns við áfengisauglýsingum á Íslandi hafa sum brugghús farið á svig við lögin með því að framleiða og auglýsa léttöl sem er í nákvæmlega eins umbúðum og einhver áfeng tegund til þess eins að auglýsa þessa síðarnefndu.