Kristín Loftsdóttir

Kristín Loftsdóttir (f. 1968) er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Kristín Loftsdóttir
Fædd1968
Hafnarfjörður
StörfPrófessor í mannfræði við Háskóla Íslands

Kristín hefur unnið að margvíslegum rannsóknarverkefnum, svo sem rannsóknum á fordómum, nýlenduhyggju, hvítleika-hugmyndum, aðstæðum vegabréfslausra farandverkamanna, hugmyndum um kreppu og mótun þjóðernislegra sjálfsmynda. Einnig hefur Kristín gert rannsóknir sem tengjast ferðamannaiðnaðinum, þróunarsamvinnu og karlmennsku.

Kristín hefur unnið rannsóknir sínar innan Evrópu (Ísland, Belgía og Ítalía), sem og í Vestur-Afríku (Níger). Skrif Kristínar hafa birst í fjölda tímaritsgreina og bókakafla. Kristín hefur skrifað þrjár fræðibækur, tvær skáldsögur og ritstýrt sex bókum með öðrum.[1]

Lífshlaup breyta

Kristín Loftsdóttir er fædd árið 1968 í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1989 og BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands 1992. Hún fór erlendis í framhaldnám og útskrifaðist með meistarapróf við Arizona-háskóla í Tucson Arizona árið 1994 og kláraði svo doktorspróf við sama háskóla árið 2000. Doktorsrannsókn hennar snéri að hnattvæddum breytingum í lífi hirðingja og farandverkamanna en verkefnið fór fram í Níger þar sem Kristín bjó í tvö ár á meðan gagnaöflun rannsóknarinnar fór fram. Doktorsritgerðin hennar ber titilinn „The Bush is Sweet: Identity and Desire among WoDaaBe in Niger“.[1]

Ferill breyta

 
Kristín Loftsdóttir í Níger árið 1997

Kristín hefur verið í margs konar alþjóðlegu samstarfi og tekið þátt í og stýrt alþjóðlegum verkefnum. Kristín var meðal annars verkefnisstjóri Icelandic Identity in Crisis (styrkt af Rannís) og einn af þremur verkefnisstjórum öndvegisverkefnisins Mobility and Transnational Iceland (styrkt af Rannís). Hún var einn af tveimur stjórnendum tengslaverkefnanna “Crisis and Nordic Identity” og „Decoding the Nordic Colonial Mind” sem styrkt voru af NOS-HS. Hún var meðlimur í HERA verkefninu Arctic Encounters, 2013-2015.[1]

Kristín hefur verið gistikennari við University of Graz, Lafayette Collage, Roskilde University og The Austrian Academy of Science og jafnframt kennt við sumarskólann Noise við Utrecht-háskóla.[1] Kristín fékk árið 2014 viðurkenningu frá Háskóla Íslands fyrir fræðistörf sín. Bók hennar Konan sem fékk spjót í höfuðið, sem fjallar á aðgengilegan hátt um rannsóknaraðferð mannfræðinnar, hlaut Fjöruverðlauninárið 2011[2] og var tilnefnd til viðkenningar Hagþenkis 2010[3] sem og verðlauna DV 2010.

Skáldverk breyta

Kristín hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 1988 fyrir bókina „Fugl í búri.“ Bók hennar Fótatak tímans[4] var gefin út af Vöku Helgafelli árið 1990 og sama ár tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.[5]

Sýningar breyta

Kristín er annar höfunda ásamt Unni Dís Skaptadóttur sýningarinnar Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi, 2016-2017. Sýningin var hluti af rannsóknarverkefni Kristínar Íslensk sjálfsmynd í kreppu styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands og Rannís. Meginmarkmið sýningarinnar var að varpa ljósi á að þverþjóðleg tengsl eru hvort tveggja hluti af sögu og samtíma Íslands og að draga fram hvernig Íslendingar hafa um aldir verið hluti af sögu kynþáttafordóma í Evrópu. Sýningin var unnin í samstarfi við aðra fræðimenn við Háskóla Íslands og í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Áhersla sýningarinnar á kynþáttafordóma byggði á rannsóknum Kristínar á endurútgáfu bókarinnar Negrastrákarnir.[6]

Kristín setti einnig á fót sýninguna „Hornin íþyngja ekki kúnni: Vettvangsrannsókn Kristínar Loftsdóttur meðal WoDaaBe hirðingja í Níger“ í Hafnarborg, lista og menningarmiðstöð Hafnarfjarðar.[7][8] Sýningin stóð frá 4. mars til 12. apríl 2001. Sýningin var síðar sett upp í Landsbókasafni Íslands – Þjóðarbókhlöðu.[9] Nafn sýningarinnar er málsháttur frá WoDaaBe fólkinu sem vísar í að rétt eins og kýrin er vön hornum sínum þá íþyngir það okkur ekki sem við erum vön.

Rannsóknir breyta

Rannsóknir Kristínar á Íslandi hafa undirstrikað mikilvægi þess að skoða samtímann í samhengi við sögu kynþáttafordóma og hvernig þeir eru endurskapaðir í samtímanum. Þessar rannsóknir hafa kynnt sjónarhorn eftirlendufræða og varpað upp gagnrýnum spurningum hvað varðar kynþáttafordóma í Evrópu – þá sérstaklega á Íslandi og Norðurlöndunum - og mikilvægi þess að skoða hugmyndir um „hvítleika“ í þessu samhengi. Jafnframt hafa rannsóknir Kristínar skoðað á gagnrýninn hátt hugtakið og hugmyndina um „Evrópu“ þá hvort tveggja stigveldi Evrópuþjóða, sem og málefni sem tengjast útilokun ákveðinna hópa frá álfunni.

Rannsóknir Kristínar á íslenska efnahagshruninu leggja áherslu á mótun þjóðernislegra sjálfsmynda í samtengdari heimi, sem og hvernig hrunið vakti upp gamlar spurningar um að vera þjóð meðal þjóða.[10] Auk þess hefur Kristín velt upp gagnrýnum spurningum um merkingu þess að vera Evrópubúi sem komu upp í tengslum við útrásina og hrunið. Greinar Kristínar um þetta efni hafa meðal annars skoðað táknræna merkingu opnunar og lokunar skyndibitakeðjunnar McDonalds[11] á Íslandi; Icesave-deiluna sem kreppu þjóðernislegrar sjálfsmyndar á Íslandi, og þjóðernislegar hugmyndir um útrásarvíkinginn.[12]

Rannsóknir Kristínar á vettvangi fordóma og hvítleika hafa farið fram innan stærri og minni verkefna. Kristín vann rannsóknarverkefnið Ímyndir Afríku á Íslandi sem skoðaði sögulega birtingamyndir álfunnar og hugmyndir um að vera hvítur og dökkur á Íslandi. Einnig vann Kristín rannsókn sem tengist endurútgáfu bókarinnar Negrastrákarnir árið 2007.[13][14] Kristín hefur jafnframt unnið að rannsókn á reynslu Litháa á Íslandi á árunum kringum hrun og sýndi þar fram á að Litháar mættu miklum fordómum á Íslandi. Nú nýlega hefur Kristín skoðað á gagnrýninn hátt ímyndir ferðamannaiðnaðarins í tengslum við hugmyndir um hreinleika og hvítleika.[15][16]

Rannsóknir Kristínar á fordómum hafa skarast á við verkefni hennar sem snúa að flóttafólki og skrifum hennar því tengdu. Hún hefur fjallað um flóttamanna „kreppuna“[17][18] og unnið að rannsókn sem snýr að flóttafólki og hælisleitendum frá Níger.[19] Í þeirri rannsókn skoðar Kristín ástæður þess að flóttamenn frá Níger komi til Evrópu, sem og að benda á aðstöðumun ólíkra hópa eftir sögulegum tengslum þeirra við Evrópu.[20]

Einkalíf breyta

Kristín er dóttir Lofts Magnússonar (1945) og Erlu Guðlaugar Sigurðardóttur (1947). Hún er gift Má Wolfgangi Mixa, lektor við Háskólann í Reykjavík og eiga þau saman þrjú börn.[21]

Meginverk breyta

  • Teaching Race with an Edge. (ritstjóri með Brigitte Hipfl). 2012. Budapest: ATGENDER (European Association for Gender Research) and Central European Press.
  • The Bush is Sweet: Identity, Power and Development among WoDaaBe Fulani in Niger. 2008. Uppsala: Nordic Africa Institute (gefin út á frönsku árið 2012 undir nafninu Les Peuls WoDaaBé du Niger: Douce brousse, í þýðingu Marie-Francoise De Munck. París: L‘Harmattan)

Heimildir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Kristín Loftsdóttir. Prófessor í mannfræði. Ritaskrá“. Sótt 26. júní 2019.
  2. Miðstöð íslenskra bókmennta. (2011). Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna kynntar. Sótt 30. júní 20198 af: https://www.islit.is/frettir/nr/1874
  3. Hagþenkir. Félag höfunda fræðirita og kennslugagna. (2011). Tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis 2010. Sótt 30. júní 2019 af: https://hagthenkir.is/tilnefnd_til_vidurkenningar_hagthenkis_2010 Geymt 30 júní 2019 í Wayback Machine
  4. Morgunblaðið. (1990, 15. desember). Kristínar tvær og önnur Lavransdóttir. Sótt 30. júní 2019 af: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1734956
  5. Morgunblaðið. (1990, 11. desember). Íslensku bókmenntaverðlaunin 1990: Fimmtán bækur eru tilnefndar. Sótt 30. júní 2019 af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/60615/
  6. Háskóli Íslands. (2016). Sýningin Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi opnuð. Sótt 30. júní 2019 af: https://www.hi.is/frettir/syningin_island_i_heiminum_og_heimurinn_i_islandi_opnud
  7. Morgunblaðið. (2000, 4. mars). Hornin íþyngja ekki kúnni. Lesbók Morgunblaðsins. Sótt 30. júní 2019 af: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3315302/[óvirkur tengill]
  8. Dagblaðið Vísir - DV. (2001, 3. október). Hornin íþyngja ekki kúnni: Hugmyndin um framandleika. DV. Sótt 30. júní 2019 af: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3021081
  9. mbl.is. (2001, 28. sepbember). Ljósmyndir mannfræðings í Þjóðarbókhlöðu. Sótt 30. júní 2019 af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/628275/
  10. Kristín Loftsdóttir. (2019). Crisis and Coloniality at Europe‘s Margins: Creating Exotic Iceland. Routledge.
  11. Kristín Loftsdóttir. (2014). Iceland, rejected by McDonald’s: desire and anxieties in a global crisis. Social Anthropology, 22(3): 340-353.
  12. Kristín Loftsdóttir. (2015). “The Danes Don’t Get This”: The Economic Crash and Icelandic Postcolonial Engagements. National Identities.
  13. mbl.is. (2012, 21. mars). Kynþáttahyggja í Negrastrákunum. mbl.is. Sótt 30. júní 2019 af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/03/21/kynthattahyggja_i_negrastrakunum/
  14. Kristín Loftsdóttir. (2013). Republishing ‘The Ten Little Negros’: Exploring nationalism and ‘whiteness’ in Iceland. Ethnicities, 13(3), 295–315. https://doi.org/10.1177/1468796812472854
  15. Kristín Loftsdóttir. (2015). The Exotic North: Gender, Nationbranding and Nationalism in Iceland. Nora – Nordic Journal of Feminist and Gender Research, 23(4): 246-260.
  16. Kristín Loftsdóttir. (2019) Crisis and Coloniality at Europe‘s Margins: Creating Exotic Iceland. Routledge.
  17. Sunna Kristín Hilmarsdóttir. (2015, 25. nóvember). Spyr hvort samúð Íslendinga væri svipuð ef um svart flóttafólk væri að ræða. visir.is. Sótt 30. júní 2019 af: https://www.visir.is/g/2015151129248
  18. Kristín Loftsdóttir. (2018). „Ég elti auðinn til Evrópu“: Sögur af fólki á flótta, innflytjendum og ,,ólöglegum“ einstaklingum. Ritið, 18(2): 159-184.
  19. Kristín Loftsdóttir. (2017). ‘Europe is finished’: migrants’ lives in Europe’s capital at times of crisis. Social Identities.
  20. Kristín Loftsdóttir 2016. Global citizens, exotic others, and unwanted migrants: mobilities in and of Europe. Identities, 1-18. http://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/1070289X.2016.1233879
  21. Dagblaðið Vísir - DV. (2008, 28. október). Kristín Loftsdóttir. Pófessor í mannfræði við HÍ. 40 ára í dag. Retrieved February 13, 2020.