Krantorforngrísku: Κράντωρ) var forngrískur heimspekingur sem starfaði í gömlu Akademíunni.

Æviágrip breyta

Krantor var fæddur líklega um miðja 4. öld f.Kr. í Soli í Kilikíu. Hann fluttist til Aþenu til þess að geta lagt stund á heimspeki og varð nemandi Xenokratesar og vinur Polemons. Hann lést á undan Polemoni og Kratesi frá Aþenu.

Ritverk breyta

Ritverk hans voru fjölmörg en þau eru ekki varðveitt. Svo virðist sem hann hafi einkum ritað um siðfræði. Rit hans virðast hafa verið lesin og vel þekkt í Rómaveldi á 1. öld f.Kr. en rómverska skáldið Hóratíus vísar meðal annars í þau.[1] Mestra vinsælda virðist ritið Um sorg hafa notið sem var ritað handa vini hans Hippóklesi við andlát sonar hins síðarnefnda. Cicero virðist hafa byggt þriðju bók Samræðna í Tusculum á þessu riti. Stóuspekingurinn Panætíos lýsti því sem „gullnu“ riti sem menn ættu að læra utanað orðrétt.[2]

Krantor raðaði lífsgæðunum í eftirfarandi röð: dygð, heilsa, ánægja, auður.

Neðanmálsgreinar breyta

  1. Hóratíus, Ep. I.2.4.
  2. Cicero, Acad, II.44.