Kolbeinn Flosason var íslenskur lögsögumaður á árunum 1066-1071; Ari fróði segir í Íslendingabók að hann hafi tekið við embætti árið sem Haraldur konungur féll á Englandi.

Lengi hefur verið deilt um hver Kolbeinn þessi hafi verið og hafa þrír menn verið nefndir til - eða tveir, eftir því hvernig á málin er litið. Annars vegar er það Kolbeinn Flosason af ætt Svínfellinga en þar koma tveir möguleikar til greina. Í lok Njálu segir svo, eftir að sagt hefur verið frá afdrifum Brennu-Flosa Þórðarsonar: „En börn þeirra Hildigunnar [bróðurdóttur Flosa] og Kára voru þeir Starkaður og Þórður og Flosi. Son Flosa var Kolbeinn er ágætastur maður hefir verið einnhver í þeirri ætt.“ Þessi ummæli um ágæti Kolbeins benda til þess að hann hafi verið alþekktur og ekki ósennilegt að hann hafi einmitt gegnt embætti lögsögumanns. Þó er umdeilt hvort orðin „son Flosa“ eigi við Flosa Kárason eða Flosa Þórðarson, það er að segja hvort Kolbeinn lögsögumaður hafi verið sonur Brennu-Flosa og þá líklega fæddur um 1000, eða sonur Flosa sonar Kára Sölmundarsonar og þá varla fæddur fyrr en 1035 í fyrsta lagi. Um hvorugan manninn (hafi þeir verið til) er neitt meira vitað. Í Ljósvetninga sögu segir að Kolbeinn lögsögumaður hafi verið grafinn í Fljótshverfi en síðan hafi ekkja hans látið flytja líkið til Rauðalækjar í Öræfum og sé sú frásögn rétt styrkir hún þessa ættfærslu því þar var kirkja Svínfellinga.

Sumar heimildir segja aftur á móti að Kolbeinn lögsögumaður hafi verið sonur Flosa, sonar Valla-Brands Áskelssonar á Völlum í Landsveit. Dóttir Kolbeins Flosasonar Valla-Brandssonar var Guðrún, kona Sæmundar fróða Sigfússonar.

Heimildir breyta

  • „Ættfræðislegar athugasemdir við Ljósvetningasögu. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 34. árgangur, 1919“.
  • „Faðerni Kolbeins Flosasonar. Tíminn, 8. janúar 1975“.
  • „Smávegis um Íslendingasögu. Lögrétta, 49. tbl, 1919“.