Klaustursupptökurnar

pólitískur skandall í Reykjavík árið 2018

Klaustursupptökurnar eru hljóðupptökur sem náðust af samtali alþingismanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustri Bar í Reykjavík þann 20. nóvember árið 2018. Upptökurnar hafa valdið mikilli ólgu í íslenskum stjórnmálum vegna kvenfyrirlitningar, fordóma gegn fötluðum og misferlis í ráðningu sendiherraembætta sem koma fram í ummælum þingmannanna.

Í upptökunni heyrast Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, ræða um íslensk stjórnmál ásamt Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni, þingmönnum Flokks fólksins. Upptökurnar voru teknar án vitundar þingmannanna af Báru Halldórsdóttur, bargesti sem sat álengdar og sendi þær síðan til fjölmiðlanna Kvennablaðsins, DV og Stundarinnar.[1]

Tilurð upptökunnar breyta

Þingmennirnir sex settust saman á Klaustur Bar á Kirkjutorgi 4 í Kvosinni í miðbæ Reykjavíkur eftir þingfund þriðjudaginn 20. nóvember 2018. Háværar samræður þingmannanna vöktu athygli Báru Halldórsdóttur, sem hafði sest niður til að fá sér kaffi á barnum á leið sinni á æfingu fyrir menningarviðburð á Iðnó.[2] Bára bar kennsl á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, meðal þingmannanna en veitti þeim ekki athygli fyrr en hún heyrði þá tala um að einhver „kelling“ á þingfundi hefði „aldrei ætlað að hætta að tala“.[2] Báru blöskraði ummælin og hóf að taka upp samræður þingmannanna á Sam­sung Galaxy A5-farsíma sinn. Þingmennirnir veittu Báru ekki eftirtekt allan þann tíma sem þeir sátu á barnum. Þeir tóku eftir henni þegar þeir bjuggu sig til brottfarar en töldu að hún væri erlendur ferðamaður.[1]

Bára sendi upptökurnar til Kvennablaðsins, Stundarinnar og DV undir dulnefninu „Marvin“ með tölvupóstfangi sem innihélt tölustafinn 42. Hvort tveggja er tilvísun í Leiðarvísi puttaferðalangsins um Vetrarbrautina, eina af uppáhaldsbókum Báru.[1]

Efni upptökunnar breyta

Í upptökunni víkur umræðan meðal annars að Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins. Bergþór Ólason segir þar að hún sé „fokking tryllt“ og „húrrandi klikkuð kunta“ og hvetur Ólaf og Karl Gauta, þingmenn Flokks fólksins, til þess að ganga til liðs við Miðflokkinn.[3] Hvorki Karl né Ólafur heyrast koma formanni sínum til varnar en Karl Gauti heyrist láta þau orð falla að Inga „[geti] grenjað um þetta en [geti] ekki stjórnað“.[4]

Í upptökunni berst talið að mörgum öðrum íslenskum stjórnmálakonum. Karl Gauti minnist á Eygló Harðardóttur, fyrrum ráðherra og þingmann, og heyrist kalla hana „galna kerlingarklessu“.[5] Bergþór heyrist tala um Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, og segir að hún sé „miklu minna hot“ en fyrir tveimur árum.[6] Sigmundur Davíð bætir við að hún komi til með að „hrynja niður listann“ fyrir þær sakir.[7] Gunnar Bragi heyrist kalla Oddnýju Harðardóttur, alþingismann Samfylkingarinnar, „algjöran apakött“ og Unni Brá Konráðsdóttur, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins „kræfa kerfiskerlingu“.[7] Gunnar Bragi heyrist einnig kalla Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og fyrrum flokkssystur þeirra Sigmundar í Framsóknarflokknum, „helvítis tík“.[8] Bergþór samsinnir honum og segir að „engin gugga [hafi] teymt [hann] meira á asnaeyrunum en hún, sem [hann hefur] ekki fengið að ríða“.[8] Sigmundur heyrist taka undir og segir um Lilju að „henni [sé] ekki treystandi og hún [spili] á karlmenn eins og kvenfólk kann.“[8] Einnig er gert grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrum meðlimi stjórnlagaþingsins og varaþingmanni Bjartrar framtíðar. Í upptökunni heyrast þingmennirnir kalla hana „Freyju eyju“ og einn þeirra hermir eftir sel þegar minnst er á hana.[9] Þá heyrast Gunnar og Bergþór gera grín að Me Too-hreyfingunni og segja Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, hafa gengið á þá um kynlíf.[10]

Útnefningar í sendiherraembætti breyta

Í upptökunum heyrist Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, ræða um útnefningu sína á Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands úr Sjálfstæðisflokknum, sem sendiherra til Bandaríkjanna árið 2014. Í upptökunni segir Gunnar Bragi að hann hafi fallist á að útnefna Geir sem sendiherra með það í huga að eiga inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum. Hann tekur jafnframt fram að hann hafi útnefnt frænda sinn og þáverandi alþingismann Vinstri grænna, Árna Þór Sigurðsson, sem sendiherra til Finnlands til þess að draga athygli almennings frá útnefningu Geirs.[11] Í staðinn hafi Gunnar Bragi ætlast til þess að Sjálfstæðismenn „horfðu til svipaðra hluta“ þegar hann þyrfti á því að halda.[11] Nánast strax eftir að hann féllst á útnefningu Geirs hafi Gunnar Bragi síðan verið spurður hvort hann vildi sjálfur sendiherrastöðu einhvern tímann.[11]

Í upptökunni heyrist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, staðfesta frásögn Gunnars Braga. Hann segist hafa rætt málið á sínum tíma við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og fengið það staðfest að Gunnar Bragi „ætti inni“ hjá Sjálfstæðismönnum.[11][12]

Viðbrögð og afleiðingar breyta

Kvennablaðið, DV og Stundin byrjuðu að birta fréttir upp úr upptökunum þann 28. nóvember 2018. Ummælin í upptökunni vöktu hörð viðbrögð og fjölda ásakana um kvenfyrirlitningu. Inga Sæland, Oddný Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem allar urðu fyrir aðkasti í umræðunum á Klausturbarnum, gáfu þann 29. nóvember frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að ummæli alþingismannnanna lýstu „skammarlegum viðhorfum til kvenna“.[13] Jafnframt kváðust þær munu óska eftir því að málið yrði tekið upp í forsætisnefnd.[13] Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, sagði „mjög dap­ur­legt að hafa orðið vitni af þess­ari orðræðu ekki síst ári eft­ir að við geng­um í gegn­um #met­oo-umræðuna í þessu sam­fé­lagi og ekki síst á vett­vangi stjórn­mál­anna.“[14]

Stuttu eftir að fréttir fóru að birtast um upptökurnar lýsti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfir í færslu á Facebook-síðu sinni áhyggjum af því að einkasamtöl íslenskra stjórnmálamanna hefðu verið hleruð og sagði líklegt að brotist hafi verið inn í síma einhvers þingmannanna eða hlerunarbúnaði beitt til að taka upp samræðurnar.[15] Sigmundur Davíð hringdi þann 2. desember í Freyju Haraldsdóttur til þess að biðjast afsökunar á ummælum flokksins um hana en sagði um leið að hún hefði misskilið ummælin og að þau hefðu ekki verið ætluð til að gera grín að fötlun hennar.[16] Þvert á móti hafi uppnefnið „Freyja eyja“ verið tilvísun í vegg sem var rifinn niður í skrifstofu Miðflokksins og Sigmundur kallaði eyju. Selshljóðin hafi líklega verið ískur í stóli sem var færður[16] eða í hjóli sem bremsaði fyrir utan bargluggann.[17] Freyja svaraði ummælum hans í pistlinum "Karlar sem Hringja í Konur" á Kjarnanum. [18]

Þann 30. nóvember kallaði Flokkur fólksins saman aukafund þar sem stjórn flokksins greiddi atkvæði með því að víkja Karli Gauta og Ólafi úr flokknum „í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp [væri] kominn í þingflokki Flokks fólksins.“[19] Tilkynnt var sama dag að Gunnar Bragi og Bergþór hyggðust stíga tímabundið til hliðar frá þingstörfum.[20]

Þann 3. desember setti leikhópur Borgarleikhússins upp sýningu þar sem texti úr Klaustursupptökunum var leiklesinn.[21]

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, bað þjóðina afsökunar fyrir hönd Alþingis. Er það í fyrsta sinn sem slíkt gerist.[22] Í kjölfarið fékk siðanefnd Alþingis mál þingmannanna til meðferðar og er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem sú nefnd hefur verið virkjuð.[23]

Þann 22. febrúar 2019 tilkynntu Ólafur og Karl Gauti að þeir væru gengnir í Miðflokkinn.[24] Miðflokkurinn fór þar með úr því að hafa sjö þingmenn upp í níu og varð stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi. Karl Gauti og Ólafur neituðu þó ásökunum um að þeir hafi þegar verið farnir að huga að flokksskiptum áður en þeir voru reknir úr Flokki fólksins.[25]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 Björn Þorfinnsson (30. nóvember 2018). „Uppljóstrarinn á Klaustrinu opnar sig: „Þá fékk ég æluna upp í háls" – Töldu hann vera erlendan ferðamann“. DV. Sótt 30. nóvember 2018.
  2. 2,0 2,1 Jóhann Páll Jóhannsson (7. desember 2018). „Uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði". Stundin. Sótt 7. desember 2018.
  3. Jóhann Páll Jóhannsson og Steindór Grétar Jónsson (30. nóvember 2018). „Þingmaður Miðflokksins kallar Ingu Sæland „húrrandi klikkaða kuntu". Stundin. Sótt 30. nóvember 2018.
  4. Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson (30. nóvember 2018). „Kölluðu Ingu Sæland klikkaða kuntu – „Hún getur grenjað um þetta en getur ekki stjórnað". DV. Sótt 1. desember 2018.
  5. Steindór Grétar Jónsson (30. nóvember 2018). „Nýtt: Karl Gauti kallaði Eygló Harðardóttur „galna kerlingarklessu". Stundin. Sótt 1. desember 2018.
  6. Freyr Rögnvaldsson (30. nóvember 2018). „Bergþór átti að hitta Írisi í dag en lét sig hverfa“. Stundin. Sótt 1. desember 2018.
  7. 7,0 7,1 Freyr Rögnvaldsson (28. nóvember 2018). „Þingmenn úthúðuðu stjórnmálakonum: „Hún er miklu minna hot í ár". Stundin. Sótt 1. desember 2018.
  8. 8,0 8,1 8,2 Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Kristinn H. Guðnason, Hjálmar Friðriksson og Ari Brynjólfsson (28. nóvember 2018). „Menntamálaráðherra kölluð tík á Klaustursfundinum: „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.". DV. Sótt 1. desember 2018.
  9. Hjálmar Friðriksson, Einar Þór Sigurðsson og Tómas Valgeirsson (29. nóvember 2018). „Hlustaðu á þingmenn gera grín að Freyju Haralds – Hermdi eftir sel“. DV. Sótt 4. desember 2018.
  10. Steindór Grétar Jónsson (29. nóvember 2018). „Hæddust að #MeToo sögum og sögðu Albertínu hafa reynt að nauðga sér“. Stundin. Sótt 4. desember 2018.
  11. 11,0 11,1 11,2 11,3 Kristinn H. Guðnason og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson (29. nóvember 2018). „Gunnar Bragi skipaði Árna Þór sendiherra til að draga athygli frá Geir Haarde – „Ég var brjálaður við þig Gunni". DV. Sótt 30. nóvember 2018.
  12. Jóhann Páll Jóhannsson (29. nóvember 2018). „Bjarni lofaði Sigmundi að Gunnar Bragi „ætti inni hjá Sjálfstæðismönnum" fyrir að skipa Geir“. Stundin. Sótt 30. nóvember 2018.
  13. 13,0 13,1 „Inga, Oddný og Silja fordæma ummæli Klausturhópsins“. Kvennablaðið. 29. nóvember 2018. Sótt 1. desember 2018.
  14. „Mun hafa neikvæð áhrif á þingstörf í vetur“. RÚV. 29. nóvember 2018. Sótt 1. desember 2018.
  15. „Sigmundur Davíð: Alvarlegast ef á Íslandi séu stundaðar hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna“. Kjarninn. 28. nóvember 2018. Sótt 1. desember 2018.
  16. 16,0 16,1 „Karlar sem hringja í konur“. Kjarninn. 2. desember 2018. Sótt 1. desember 2018.
  17. Freyja Haraldsdóttir (2. desember 2018). „Karlar sem hringja í konur“. Kjarninn. Sótt 1. desember 2018.
  18. Freyja Haraldsdóttir (Desember 2018). „Karlar sem Hringja í Konur“.
  19. „Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson reknir úr Flokki fólksins“. DV. 30. nóvember 2018. Sótt 1. desember 2018.
  20. „Gunnar Bragi og Bergþór Ólason stíga til hliðar“. Vísir. 30. nóvember 2018. Sótt 1. desember 2018.
  21. „Bein útsending úr Borgarleikhúsinu: Samtalið á Klaustri“. Vísir. 3. desember 2018. Sótt 4. desember 2018.
  22. „Miklu meiri karlaheimur á síðustu öld“. RÚV. 4. desember 2018. Sótt 4. desember 2018.
  23. „Siðanefnd Alþingis virkjuð í fyrsta skipti vegna Klausturmálsins“. DV. 3. desember 2018. Sótt 8. desember 2018.
  24. „Ólafur og Karl Gauti í Miðflokkinn“. mbl.is. 22. febrúar 2019. Sótt 22. febrúar 2019.
  25. „Ákváðu að ganga í Miðflokkinn í gær“. Vísir. 22. febrúar 2019. Sótt 22. febrúar 2019.