Kamerúnska karlalandsliðið í knattspyrnu

Kamerúnska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Kamerún í knattspyrnu og er stjórnað af Kamerúnska knattspyrnusambandinu. liðið hefur keppt sjö sinnum á HM,oftar en nokkur önnur afríkuþjóð (1982, 1990, 1994, 1998, 2002, 2010 og 2014). Samt sem áður hefur þeim aðeins einu sinni tekist að komast upp úr riðlakeppninni. Þeir voru fyrsta Afríkuliðið sem komst í fjórðungsúrslit FIFA heimsmeistarakeppninnar árið 1990 og tapaði fyrir Englandi í framlengingu, þeir hafa einnig unnið fimm Afríkukeppnir og Ólympíugull árið 2000. Frægasta mót þeirra var á HM 1990, þar sem þeir vöktu athygli fyrir að spila skemmtilegan fótbolta, og tókst nokkuð óvænt að komast í 8. liða úrslit. Skærasta stjarna þeirra á því móti var Roger Milla, sem oft gerði oft andstæðingunum lífið leitt.

Kamerúnska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnLjónin frá Kamerún
ÍþróttasambandKamerúnska Knattspyrnusambandið
ÁlfusambandCAF
ÞjálfariToni Conceição
FyrirliðiJean-Eric Maxim Choupo-Moting
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
43 (6. október 2022)
11 (nóvember-desember 2009)
79 (febrúar-mars 2013)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
2-3 gegn Belgísku Kongó (september 1956)
Stærsti sigur
11-0 gegn AD Alcorcon(Spáni) (10.júní 2019)
Mesta tap
6-1 gegn Noregi (31.október 1990)
Heimsmeistaramót
Keppnir7 (fyrst árið 1982)
Besti árangur1990 (8.Liða Úrslit)
Afríkubikarinn
Keppnir19 (fyrst árið 1970)
Besti árangurMeistarar(1984, 1988, 2000, 2002, 2017)

Saga breyta

Franska Kamerún lýsti yfir sjálfstæði árið 1960 og ári síðar sameinaðist það fyrrum landsvæðum Breta í Bresku Kamerún. Franska Kamerún hafði þó leikið sinn fyrsta landsleik árið 1956. Mótherjarnir voru Belgíska Kongó og lauk leiknum með 3:2 sigri Kongó. Þremur árum síðar var knattspyrnusamband landsins stofnað.

1967-82: Fyrstu mótin breyta

Fyrstu árin lét hin unga þjóð sér nægja að leika vináttulandsleiki. Kamerún tók þátt í forkeppni Ólympíuleikanna 1968 og HM 1970 en hafði ekki árangur sem erfiði. Betur gekk í forkeppni Afríkubikarsins sama ár. Þar sló Kamerún úr leik bæði Úganda og Sambíu. Úrslitakeppnin fór fram í Súdan og mátti Kamerún sjá á eftir sæti í undanúrslitum til heimamanna á markatölu.

Tveimur árum síðar var Afríkubikarinn haldinn í Kamerún í fyrsta sinn. Heimamenn tryggðu sér sætið í undanúrslitum með tveimur sigrum og jafntefli. Þar mátti liðið lúta í lægra haldi fyrir liði Kongó, 1:0. Kongó fór með sigur af hólmi í mótinu en Kamerún hreppti bronsverðlaunin. Áratugur átti eftir að líða uns liðið tók aftur þátt í úrslitum Afríkukeppninnar.

Kamerún freistaði þess án árangurs að komast á HM 1974 og HM 1978. Í fyrra skiptið féll liðið úr leik fyrir Saír, sem varð að lokum fulltrúi Afríku í úrslitunum og í seinna skipið fyrir Kongó.

1982-84: Upp á stjörnuhimininn breyta

Í upphafi níunda áratugarins kom fram mjög öflug kynslóð knattspyrnumanna í Kamerún. Landsliðið var einatt undir stjórn erlendra þjáfara, oft austur-evrópskra og undir stjórn eins slíks komst Kamerún í úrslit Afríkubikarsins 1982, sem fram fór í Líbíu. Kamerún gerði þrjú jafntefli og lauk keppni með markatöluna 1:1, sem dugði ekki til að komast áfram úr riðlakeppninni. Þetta stef átti eftir að endurtaka sig síðar þetta sama ár.

Kamerún tryggði sér annað af tveimur sætum Afríku á HM 1982 og varð Roger Milla markahæstur allra í forkeppninni með sex mörk í átta leikjum. Kunnur franskur þjálfari, Jean Vincent, var fenginn til að stýra liðinu í úrslitakeppnini á Spáni.

Öflugur varnarleikur var einkennismerki Kamerúnliðsins sem gerði markalaust jafntefli gegn Perú í fyrsta leik. Í næsta leik gegn Póllandi var markvörðurinn N´Kono í aðalhlutverki og aftur náði Kamerún markalausu jafntefli. Þriðja jafnteflið leit dagsins ljós gegn Ítölum, þar sem liðin skoruðu hvort sitt markið eftir klukkutíma leik. Ítalir, sem urðu að lokum heimsmeistarar, tóku úrslitunum afar illa og neituðu að tala við blaðamenn eftir leikinn. Þeir komust þó áfram á þregur stigum og markatölunni 2:2, með marki meira skorað en Kamerún. Á sama móti voru Alsíringar afar óheppnir að komast ekki áfram á kostnað silfurliðs Vestur-Þýskalands. Urðu þessi úrslit til að vekja athygli umheimsins á vaxandi styrk afrískra landsliða.

Ýmsir af leikmönnum Kamerún á HM 1982 komu við sögu á Ólympíuleikunum 1984. Áður höfðu leikmenn á Ólympíuleikum talist áhugamenn, í það minnsta að nafninu til. Á leikunum í Los Angeles var reglunum breytt á þann hátt að Evrópulið og Suður-Ameríkulið máttu einungis tefla fram yngri leikmönnum en lið frá þriðja heiminum máttu tefla fram sínu sterkasta liði. Kamerún mistókst þó að komast upp úr riðlakeppninni.

Afríkumótið 1984 fór fram á Fílabeinsströndinni. Kamerún mátti sætta sig við annað sætið á eftir Egyptum í riðlakeppninni. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni í undanúrslitaleiknum gegn Alsír sem Kamerún vann 5:4. Í úrslitaleiknum gegn Nígeríu lenti Kamerún 0:1 undir en sigraði að lokum 3:1. Fyrsti Afríkumeistaratitillinn var í höfn.

1984-90: Hetjur á Ítalíu breyta

Kamerún mátti teljast öflugasta knattspyrnuþjóð Afríku á níunda áratugnum. Liðið tapaði reyndar fyrir sterku landsliði Sambíu í forkeppni HM 1986 en fór alla leið í úrslit Afríkukeppninnar það sama ár, en varð að játa sig sigrað fyrir heimamönnum Egypta í vítaspyrnukeppni þar sem François Omam-Biyik misnotaði úrslitaspyrnuna. Tveimur árum síðar varð Kamerún Afríkumeistari í annað sinn eftir sigur á heimamönnum Marokkó í undanúrslitum og Nígeríu í úrslitaleiknum.

Ekki tókst að verja Afríkumeistaratitilinn árið 1990 en Kamerúnmenn kærðu sig þó kollótta þar sem fyrir dyrum stóð HM 1990 á Ítalíu. Omam-Biyik varð markakóngur forkeppninnar og var lið Kamerún almennt talið enn sterkara en það sem komið hafði svo á óvart átta árum fyrr.

Það kom í hlut Kamerún að leika sjálfan opnunarleik mótsins gegn Argentínu. Ríkjandi heimsmeistararnir mættu sigurvissir til keppni og áttu lítil svör við hörðum eða beinlínis grófum varnarleik Afríkumannanna. Kamerún missti tvo leikmenn af velli með rautt spjald en mark frá Omam-Biyik skildi liðin af og gríðarlega óvæntur sigur Kamerún varð staðreynd.

Mótherjarnir í næsta leik voru Rúmenar með sjálfan Gheorghe Hagi í broddi fylkingar. Roger Milla kom af bekknum um miðjan seinni hálfeikinn og skoraði tvívegis í 2:1 sigri. Kamerún var komið áfram í næstu umferð þótt enn væri einn leikur eftir. Þar voru mótherjarnir Sovétmenn sem ollu miklum vonbrigðum á mótinu og höfðu einungis fyrir heiðurinn að spila. Sovétríkin unnu stórsigur 4:0, en jafntefli í leik Argentínu og Rúmena gerðu það samt að verkum að Kamerún endaði á toppi riðilsins.

Kamerún hafði nú jafnað árangur Marokkó frá því fjórum árum fyrr og komist í 16-liða úrslit á HM. Þar yrðu mótherjarnir stjörnum prýtt lið Kólumbíu. Markalaust varð í venjulegum leiktíma en Kamreún hafði betur í framlengingu, 2:1, þar sem Roger Milla skoraði bæði mörkin - annað þó eftir skelfileg mistök markvarðar kólumbíska liðsins.

Í fyrsta sinn í sögunni var afrískt lið komið í fjórðungsúrslit HM. Um fátt var meira talað á móti sem að öðru leyti einkenndist af varfærnum varnarleik og metfjölda vítaspyrnukeppna. Leikurinn við Englendinga varð æsilegur. Enska liðið náði forystunni en Kamerún sneri taflinu við með tveimur mörkum. Skömmu fyrir leikslok jafnaði Gary Lineker úr vítaspyrnu og skoraði svo sigurmark í framlengingu, einnig úr víti. Kamerún var fallið úr keppni eftir að hafa hrifið knattspyrnuáhugafólk víða um lönd. Fyrir vikið tóku margir að spá afrískum liðum mikilli velgengni á næstu árum.

1992-2002: Fastagestir á HM breyta

 
Rúmenskt frímerki helgað riðli Kamerún á HM 1994.

Kamerún fór í úrslitakeppnini Afríkumótsins í fjórtán skipti af fimmtán á tímabilinu 1982 til 2010. Einungis árið 1994 þurfti liðið að sitja heima, eftir að hafa endað í fjórða sætinu tveimur árum fyrr. Fjarveran í Afríkubikarnum þetta eina ár olli þó ekki miklum áhyggjum enda stóð fyrir dyrum HM í Bandaríkjunum þar sem Kamerún var meðal þriggja Afríkuliða. Frammistaðan á Ítalíu olli því að fylgst var sérstaklega vel með kamerúnska liðinu.

Talað var um b-riðilinn í keppninni sem „dauðariðilinn“, en auk Kamerún voru þar heimsmeistaraefni Brasilíumanna, Rússar og Svíar, sem fengu að lokum bronsverðlaunin. Fyrsta leiknum, gegn Svíum lauk með líflegu 2:2 jafntefli. Brasilíska liðið reyndist of sterkt og Kamerún mátti sætta sig við 3:0 tap, en tvö seinni mörkin komu eftir að Rigobert Song fékk rauða spjaldið. Eftir þessi úrslit þurfti Kamerún nauðsynlega á sigri að halda gegn Rússum, sem þegar voru fallnir úr keppni. Niðurstaðan varð algjört afhroð þar sem Oleg Salenko skráði sig á spjöld sögunnar með því að skora fimm mörk í 6:1 sigri.

Öfugt við HM 1994 voru væntingar stuðningsmanna Kamerún mjög lágstemmdar á HM í Frakklandi 1998. Liðið var grátlega nærri því að vinna sigur í fyrsta leiknum en Austirríkismenn jöfnuðu í uppbótartíma. Ítalir reyndust ofjarlar Kamerún í öðrum leiknum, 3:0. Ekkert nema sigur kom því til greina í þriðja leiknum gegn Síle. Suður-Ameríkumennirnir náðu forystunni og róðurinn þyngdist enn í byrjun seinni hálfleiks þegar Kamerún missti mann af velli með rautt spjald. Þeim tókst að jafna en lengra komust þeir ekki og féllu úr leik.

Fjórða úrslitakeppni Kamerúnliðsins á HM í röð var HM 2002 í Japan og Suður-Kóreu. Að þessu sinni mætti Kamerún til leiks sem hæsta Afríkuliðið á heimslistanum, í sautjánda sæti. Einungis tíu þátttökulið voru ofar á listanum. Riðillinn virtist viðráðanlegur. Þjóðverjar voru vitaskuld sigurstranglegastir en Írar og Sádi-Arabar virtust viðráðanlegir eða lakari.

Kamerún og Írland gerðu 1:1 jafntefli í baráttuleik í fyrstu umferð. Í næstu umferð tókst Kamerún einungis að vinna Sádi-Araba, sem þegar höfðu tapað 8:0 fyrir Þjóðverjum, með einu marki Samuel Eto'o. Sú niðurstaða varð vonbrigði og til að bæta gráu oná svart náðu Írar að stela jafntefli gegn Þjóðverjum í uppbótartíma. Kamerún þurfti því nær örugglega á sigri að halda gegn þýska liðinu, sem var aldrei líklegt. Þjóðverjar unnu 2:0 og Kamerún mátti enn á ný sætta sig við að fara heim eftir riðlakeppnina.

Á heimavígstöðvum stóðu Kamerúnbúar sig betur. Liðið varð Afríkumeistari árin 2000 og 2002. Í bæði skiptin eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleik.

2002-2010: Í fréttum af röngum ástæðum breyta

Landslið Kamerún komst nokkrum sinnum í heimsfréttirnar í byrjun tíunda áratugarins vegna atvika sem ekki tengdust úrslitum á knattspyrnuvellinum. Árið 2002 mætti liðið til leiks í úrslitum Afríkukeppninnar í ermalausum knattspyrnutreyjum frá fyrirtækinu Puma. FIFA bannaði notkun þeirra skömmu síðar. Ekki tók betra við tveimur árum síðar þegar Kamerún hugðist keppa í samfestingum í stað stuttbuxna og treyja. Að lokum var úrskurðað að slíkt teldist brot á reglum.

Dapurlegra fréttaefni varð fráfall Marc-Vivien Foé sem hneig til jarðar og lést í miðjum undanúrslitaleik Kamerún og Kólumbíu á Álfukeppni FIFA árið 2003. Kamerún vann leikinn og kepptu leikmenn í búningum mektum Foé í úrslitunum gegn Frakklandi, sem Frakkar unnu 1:0.

Kamerún komst ekki á HM 2006 en var á meðal þátttöuliða á HM 2010, þar sem úrslitakeppnin fór í fyrsta og eina sinn fram í Afríku. Þrátt fyrir að vera efst afrískra liða á styrkleikalistanum olli Kamerún verulegum vonbrigðum og tapaði öllum sínum leikjum í riðli með Japönum, Dönum og Hollendingum.

Annað sæti á Afríkumótinu 2008 var besti árangurinn heima fyrir á þessum árum, þar sem liðið féll oftast úr leik í fjórðungsúrslitum.

2010-: Afríkumeistarar í fimmta sinn breyta

Afríkukeppnin var haldin með aðeins eins árs millibili árin 2012 og 2013, þar sem ákveðið var að færa keppnina yfir á oddatöluár. Kamerún mistókst í bæði skiptin að komast í úrslitakeppnina og var það í fyrsta sinn síðan á áttunda áratugnum sem liðið missti af tveimur úrslitakeppnum í röð. Kamerún komst á HM 2014, en í það skiptið aldrei þessu vant sem neðsta Afríkulandið á heimslistanum og það þriðja neðsta í keppninni allri. Árangurinn var í samræmi við það: þrjú töp gegn Mexíkó, Brasilíu og Króatíu.

Heima fyrir komst Kamerún í úrslit Afríkumótsins árin 2015, 2017 og 2019. Bestur varð árangurinn árið 2017 í Gabon. Þar komst liðið naumlega upp úr riðlakeppninni á kostnað heimamanna með 0:0 jafntefli í lokaleik riðlakeppninnar. Eftir að í útsláttarkeppnina kom héldu Kamerún hins vegar engin bönd og liðið lagði Senegal (í vítakeppni), Gana og loks Egypta í úrslitunum. Þetta var fimmti Afríkumeistaratitill Kamerún sem unnið hefur næstoftast allra á eftir Egyptalandi.

Í mars 2022 tryggði Kamerún sér keppnisrétt í úrslitakeppni HM í Katar. Þar lenti liðið í afar strembnum riðli með Serbum, Svisslendingum og Brasilíumönnum. Kamerún tapaði fyrsta leik á móti Sviss og gerði því næst æsilegt 3:3 jafntefli við Serba og var þá fallið úr keppni. Liðið bjargaði þó ærunni með því að skella Brasilíumönnum í lokaleik, 1:0.

Þekktir Leikmenn breyta

Þjálfarar í gegnum tíðina breyta

Tímabil Nafn
1960–1965 Tæknilegir ráðgjafar
1965–1970 Dominique Colonna
1970 Raymond Fobete
1970–1973 Peter Schnittger
1973–1975 Vladimir Beara
1976–1979 Ivan Ridanović
1980–1982 Branko Žutić
1982 Jean Vincent
1982–1984 Radivoje Ognjanović
1985–1988 Claude Le Roy
1988–1990 Valery Nepomnyashchy
1990–1993 Philippe Redon
1993–1994 Jean Manga-Onguéné
Tímabil Nafn
1994 Léonard Nseké
1994 Henri Michel
1994–1996 Jules Nyongha
1996–1997 Henri Depireux
1997–1998 Jean Manga-Onguéné
1998 Claude Le Roy
1998–2001 Pierre Lechantre
2001 Robert Corfou
2001 Jean-Paul Akono
2001–2004 Winfried Schäfer
2004–2006 Artur Jorge
2006–2007 Arie Haan
2007 Jules Nyongha
Tímabil Nafn
2007–2009 Otto Pfister
2009 Thomas N'Kono
2009–2010 Paul Le Guen
2010–2011 Javier Clemente
2011–2012 Denis Lavagne
2012–2013 Jean-Paul Akono
2013–2015 Volker Finke
2015–2016 Alexandre Belinga
2016–2017 Hugo Broos
2017–2018 Rigobert Song
2018–2019 Clarence Seedorf
2019–2022 Toni Conceição
2022- Rigobert Song