Kári Sölmundarson

Kári Sölmundarson (um 970 - um 1030 eða lengur hugsanlega) var mikill kappi og bardagamaður. Hann var hirðmaður Sigurðar jarls í Orkneyjum er hann hitti þá Njálssyni, Helga og Grím, í kröppum leik er þeir lágu undir árásum skoskra víkinga. Voru það Grjótgarður og Snækólfur, synir Moldans úr Dungalsbæ og frændur Melkólfs skotakonungs, sem sumir telja að hafi verið Malcolm II Keneðsson. Kári veitti þeim bræðrum og vó Snækólf en Helgi Grjótgarð og báðust þá aðrir griða. Urðu þeir eftir það óaðskiljanlegir og fór Kári með þeim til Íslands. Kári var sonur Sölmundar Þorbjörnssonar, bónda á Hólum í Hrunamannahreppi, en afi hans, Þorbjörn jarlakappi hafði keypt þar land af Má Naddoðarsyni. Kári gekk að eiga Helgu Njálsdóttur og var hann því mágur Njálssona. Eftir það var hann með Skarphéðni og Helga og Grími í öllum þeirra stórræðum, sem leiddu til Njálsbrennu. Meðal annars átti hann hlut að máli er Höskuldur Hvítanessgoði var drepinn saklaus.

Börn Kára og Helgu voru Þorgerður, Ragnheiður, Valgerður og Þórður Kárason (eldri), sem brann inni á Bergþórshvoli með afa sínum og ömmu. Kári slapp einn úr brennunni og loguðu þá hár hans og klæði, segir sagan. Eftir brennuna fór Kári víða og elti uppi brennumenn og drap þá hvern á fætur öðrum. Voru þá bandamenn hans Þorgeir skorargeir, frændi Njáls, og Björn í Mörk, (Björn að baki Kára). Barst leikurinn allt til Bretlandseyja, þar sem Kári hjó Kol Þorsteinsson „og nefndi höfuðið tíu er það fauk af bolnum“ segir Njála. Á meðan Kári var erlendis í þessum erindagjörðum dó Helga Njálsdóttir, kona hans.

Næsta sumar kom Kári til Íslands og brutu þeir skip sitt við sandana sunnanlands. Menn komust af en töpuðu varningi sínum. Þá sagði Kári að nú skyldi reyna drengskap Flosa á Svínafelli, en það var næsti bær við slysstaðinn. Gengu þeir yfir sandana og komu að Svínafelli. Þar tók Flosi á móti þeim stórmannlega. Þekkti hann strax Kára og féllust þeir í faðma. Síðar gekk Kári að eiga Hildigunni Starkaðardóttur, sem áður var gift Höskuldi Hvítanessgoða, sem Kári hafði verið með í að drepa. Hildigunnur var bróðurdóttir Flosa. Er hjónaband þeirra af bókmenntafræðingum túlkað sem fyrirgefning eftir illvirki á báða bóga, en þau höfðu bæði átt um sárt að binda eftir þessa hildarleiki alla og að segja má hvort af annars völdum.

Hildigunnur og Kári bjuggu á Breiðá, sem á miðöldum fór algjörlega undir jökul ásamt mörgum fleiri bújörðum. Börn þeirra voru Starkaður, Þórður (yngri) og Flosi.