Jovenel Moïse

58. forseti Haítí (1968-2021)

Jovenel Moïse (26. júní 1968 – 7. júlí 2021) var haítískur viðskiptamaður og stjórnmálamaður. Moïse var meðlimur í Haítíska Tèt Kale-flokkinum (PHTK) og var forseti Haítí frá 7. febrúar 2017 þar til hann var ráðinn af dögum þann 7. júlí 2021.

Jovenel Moïse
Jovenel Moïse árið 2019.
Forseti Haítí
Í embætti
7. febrúar 2017 – 7. júlí 2021
ForsætisráðherraEnex Jean-Charles
Jack Guy Lafontant
Jean-Henry Céant
Jean-Michel Lapin (starfandi)
Joseph Jouthe
Claude Joseph (starfandi)
ForveriJocelerme Privert (starfandi)
EftirmaðurClaude Joseph (starfandi)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. júní 1968
Trou-du-Nord, Haítí
Látinn7. júlí 2021 (53 ára) Pétion-Ville, Haítí
ÞjóðerniHaítískur
StjórnmálaflokkurTèt Kale (PHTK)
MakiMartine Moïse
HáskóliQuisqueya-háskóli

Æviágrip breyta

Moïse var framkvæmdastjóri fyrirtækisins Agritrans, sem flutti út banana frá Haítí. Hann hlaut sex milljón dollara ríkisstyrk fyrir félagið frá Michel Martelly forseta, sem var návinur hans. Moïse var eigandi fjórtán bankareikninga og lá einnig undir ásökunum um peningaþvætti.[1] Martelly, sem mátti ekki bjóða sig fram til þriðja kjörtímabils, valdi Moïse sem frambjóðanda Tèt Kale-flokksins í forsetakosningunum 2015. Moïse vann kosningarnar en þær voru síðar ógiltar vegna gruns um kosningamisferli. Kosningarnar voru endurteknar árið 2016 og náði Moïse þá kjöri með 55,60 % atkvæðanna. Hann tók við af bráðabirgðaforsetanum Jocelerme Privert þann 7. febrúar 2017 og varð 58. forseti lýðveldisins.[2]

Við upphaf forsetatíðar Moïse fjölmenntu þúsundir verkamanna úr textíliðnaðinum á fríiðnaðarsvæðinu oft út á götur til að krefjast hækkunar á lágmarkslaunum, sem námu þá fjórum haítískum gúrdum (um 590 íslenskum krónum) á dag. Stjórnin hunsaði kröfur þeirra. Fleiri hópar landsmanna fóru að taka þátt í mótmælunum í september og mótmæltu meðal annars atkvæðagreiðslu þingsins um ný fjárlög Haítí. Þann 17. september 2018 sagði forsætisráðherrann Jack Guy Lafontant af sér í kjölfar ofbeldis í borgum landsins.[3] Við honum tók stjórnarandstæðingurinn Jean-Henry Céant,[4] sem hafði verið mótframbjóðandi Moïse í forsetakosningunum. Í febrúar 2019 leiddi hækkun á bensínverði, sem hafði tvöfaldast vegna þrýstings frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ásamt spillingarhneykslum sem vörðuðu nokkra ráðherra og forsetann sjálfan, til frekari fjöldamótmæla gegn ríkisstjórninni.[5] Eftir nokkurra vikna átök kröfðust mótmælendurnir afsagnar Moïse.[6] Moïse ríghélt í völdin, hunsaði kröfur um afsögn sína og lofaði að lífga við efnahag landsins.[7] Þann 21. mars 2019 sagði Céant forsætisráðherra af sér ásamt stjórn sinni.[8] Mótmælahrinan og kröfurnar um afsögn forsetans leiddu til mannskæðrar stjórnmála- og samfélagskreppu á Haítí.[9] Í mars árið 2020 reyndi Moïse að leysa úr kreppunni með því að skipa Joseph Jouthe nýjan forsætisráðherra.[10]

Forsetatíð Moïse einkenndist einnig af kórónaveirufaraldrinum 2019-2021, sem hófst á Haítí þegar tveir greindust með Covid-19 í mars 2020.[11] Forsetinn lýsti yfir neyðarástandi og stjórnin greip til ýmissa aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Í nóvember 2020 tilkynnti Moïse að undirbúningur fyrir næstu kosningar væri hafinn og útnefndi meðlimi til bráðabirgða í kjörstjórn.[12] Hann tilkynnti jafnframt þann 7. janúar 2021 að hann hygðist kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu þann 25. apríl um upptöku nýrrar stjórnarskrár fyrir landið.[13]

Þar sem ekki var virkur stjórnlagadómstóll, öldungadeild eða föst kjörstjórn lék nokkur vafi á því hvenær kjörtímabili Moïse ætti að ljúka. Þar sem Moïse var kjörinn í nóvember 2016 og tók við embætti þann 7. febrúar næsta ár taldi hann að fimm ára kjörtímabilinu ætti að ljúka þann 7. febrúar 2022. Ýmsir andstæðingar hans töldu hins vegar að kjörtímabilinu hefði lokið þann 7. febrúar 2021[14] þar sem liðin voru rúm sex ár frá forsetakosningunum 2015, sem höfðu verið ógiltar. Stjórnarandstaðan lýsti því yfir að Joseph Mécène Jean-Louis skyldi gegna embætti forseta til bráðabirgða í stað Moïse, sem spilaði inn í frekari mótmæli sem stóðu þá yfir í landinu.[15]

Morðið á Moïse breyta

Moïse var myrtur á heimili sínu aðfaranóttina 7. júlí 2021 þegar vopnaðir menn réðust inn á heimili hans og skutu hann til bana. Clau­de Joseph, forsætisráðherra landsins, greindi fjölmiðlum frá morðinu daginn eftir og sagði að árásarmennirnir hefðu verið spænsku- og enskumælandi.[16] Forsetafrúin Martine Moïse særðist einnig í árásinni og var í kjölfarið flutt á sjúkrahús.[17]

Innan við sólarhring eftir morðið á forsetanum voru tveir meintir tilræðismenn handteknir og fjórir til viðbótar skotnir til bana í bardaga við lögreglu.[18]

11 úr 28 manna hópi grunaðra tilræðismanna voru svo handteknir á lóð sendiráðs Taívans í Port-au-Prince. 26 af hópnum eru fyrrverandi hermenn í Kólumbíuher.[19] Haítíska lögreglan hefur sakað bandarískan lækni af haítískum uppruna, Christian Emmanuel Sanon, um að hafa skipulagt morðið með fjármagni frá fjármálafyrirtæki í Flórída.[20]

Tilvísanir breyta

  1. Aude Massiot (29. nóvember 2016). „L'élection de Jovenel Moïse, «une catastrophe» pour Haïti“. Libération.fr (franska). Libération. Sótt 7. júlí 2021.
  2. „Jovenel Moïse devient le 58 e président d'Haïti“. ICI.Radio-Canada.ca. Zone International-. 7. febrúar 2017. Sótt 7. júlí 2021.
  3. „Haïti : le Premier ministre Jack Guy Lafontant démissionne à la suite des violences urbaines“ (franska). France 24. 15. júlí 2018. Sótt 7. júlí 2021.
  4. „Haïti: L'ancien candidat à la présidentielle Jean Henry Céant nommé Premier Ministre“ (franska). Outremers360°. Sótt 7. júlí 2021.
  5. Maurice Lemoine (15. mars 2019). „Pour comprendre la révolte des Haïtiens“. www.cadtm.org. Comité pour l'abolition des dettes illégitimes. Sótt 7. júlí 2021.
  6. „Manifestations en Haïti : les raisons de la colère“. TV5MONDE (franska). 29. september 2019. Sótt 7. júlí 2021.
  7. „En Haïti, le Président Jovenel Moïse s'accroche au pouvoir dans un climat de violence“ (franska). Martinique la 1ère. Sótt 7. júlí 2021.
  8. „Jean-Henry Céant a remis sa démission à Jovenel Moïse“. Le Nouvelliste. Sótt 7. júlí 2021.
  9. Tim Padgett. „Moïse Mess: Haiti's Political Standoff – And Humanitarian Crisis – Won't Likely End Soon“. www.wlrn.org. Sótt 7. júlí 2021.
  10. „Joseph Jouthe nommé Premier ministre par le président Jovenel Moïse“. Le Nouvelliste. Sótt 7. júlí 2021.
  11. „Haiti declares emergency over coronavirus, imposes curfew, shuts borders“. Reuters. 19. mars 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. mars 2020. Sótt 7. júlí 2021.
  12. „Jovenel Moïse annonce pour 2021 l'organisation des élections“. Le Nouvelliste.
  13. „Haïti: le pouvoir contesté annonce des élections et un référendum sur une nouvelle constitution“ (franska). Le Figaro. 7. janúar 2021. Sótt 7. júlí 2021.
  14. „Haïti: le président Jovenel Moïse musèle la Cour des comptes“ (franska). RFI. 9. nóvember 2020. Sótt 7. júlí 2021.
  15. „Crise politique en Haïti : le juge Joseph Mecène Jean Louis nommé président par l'opposition“ (franska). France 24. 8. febrúar 2021. Sótt 7. júlí 2021.
  16. Ásgeir Tómasson (7. júlí 2021). „Forseti Haítís ráðinn af dögum“. RÚV. Sótt 7. júlí 2021.
  17. Samúel Karl Ólason (7. júlí 2021). „Lýsa yfir neyðarástandi í Haítí og kalla eftir ró“. Vísir. Sótt 8. júlí 2021.
  18. Ævar Örn Jósepsson (8. júlí 2021). „Meintir tilræðismenn ýmist handteknir eða drepnir“. RÚV. Sótt 8. júlí 2021.
  19. Ævar Örn Jósepsson (9. júlí 2021). „Kólumbía og Taívan aðstoða við rannsókn forsetamorðs“. RÚV. Sótt 9. júlí 2021.
  20. Samúel Karl Ólason (16. júlí 2021). „Hinir grunuðu tengdir við fundi um framtíð Haítí“. Vísir. Sótt 15. júlí 2021.


Fyrirrennari:
Jocelerme Privert
(starfandi)
Forseti Haítí
(7. febrúar 20177. júlí 2021)
Eftirmaður:
Claude Joseph
(starfandi)