Jean-Claude Fournier

Jean-Claude Fournier (21. mars 1943) er franskur teiknimyndasagnahöfundur. Hann er kunnastur fyrir að hafa teiknað nokkrar bækur í teiknimyndaflokknum Sval og Val.

Upphafsár breyta

Fournier fæddist í París en er ættaður frá Bretagne í Frakklandi. Teiknifærni hans kom fram á barnsaldri og snemma setti hann sér það markmið að gerast teiknimyndasagnahöfundur hjá belgíska útgáfufyrirtækinu Dupuis. Tækifærið gafst eftir að Fournier hitti Franquin, höfund Svals-bókanna, á bókaáritun í París árið 1965. Í kjölfarið hélt hann til Brussel og kynntist þar flestum helstu teiknurum teiknimyndablaðsins Svals.

Árið 1967 hóf teiknimyndablaðið Svalur að birta sögur Fourniers um Bizu, vinalegan álf og vini hans í miðaldalegum töfraskógi. Ævintýrin um Bizu mæltust vel fyrir, einkum hjá yngri lesendum og sannfærðust Franquin og stjórnendur Dupuis-útgáfunnar fljótlega um að Fournier væri réttur arftaki Franquins sem höfundur Svals og Vals, en Franquin var um þær mundir orðinn afar þreyttur á ritun sagnanna.

Árin með Sval og Val breyta

 
Frakkinn Fournier var aðalteiknari og höfundur bókaflokksins á áttunda áratugnum.

Árið 1969 birtist fyrsta Svals og Vals-ævintýri Fourniers sem framhaldssaga, Gullgerðarmaðurinn og kom hún út í bókarformi árið eftir. Í þessari fyrstu sögu naut Fournier aðstoðar Franquins sem teiknaði hið vinsæla gormdýr. Í seinni sögum sínum var Fournier hins vegar einn og óstuddur og Gormur kom ekki oftar við sögu.

Fournier hófst einnig handa við að skapa sínar eigin aukapersónur. Þáttur Sveppagreifans varð til að mynda minni í bókum hans en verið hafði, en þess í stað var japanski töframaðurinn Ító Kata kynntur til sögunnar. Var það í samræmi við þá áherslubreytingu að töfrar, draugar, geimverur og yfirnáttúruleg fyrirbrigði urðu mun meira áberandi í höfundartíð Fourniers en bæði fyrirrennara hans og eftirmanna.

Bitla, fjandvinur Vals, kom ekki fyrir í sögum Fourniers en þess í stað kom þokkadísin Órórea frá Pólýnesíu fyrir í nokkrum bókum. Aðrar aukapersónur úr smiðju Franquins fengu hins vegar að halda velli, svo sem fúlmennið Sammi frændi og hinn margbrotni Zorglúbb.

Fournier er almennt talinn standa Franquin að baki sem teiknari. Styrkur hans lá hins vegar í sagnagerðinni. Eftir hann liggja níu bækur og kom sú síðasta út árið 1980. Margar þeirra voru pólitískari en verið hafði í fyrri Svals og Vals-ævintýrum, þar sem deilt var á herforingjastjórnir í þriðja heiminum og kjarnorkuiðnaðinn í Evrópu svo dæmi séu tekin. Þessi pólitíski broddur átti sinn þátt í því að stjórnendur Dupuis ákváðu þvert á vilja Fourniers að fela öðrum ritun sagnaflokksins.

Í seinni tíð breyta

Eftir að hafa verið settur af sem höfundur Svals og Vals, sneri Fournier sér að fullum krafti að ritun sagna um Bizu. Frá 1998 til 2003 sendi hann frá sér sjö bækur í ritröðinni Les Crannibales, sem eru gamansamar teiknimyndasögur um fjölskyldu sem virðist eðlileg við fyrstu sýn en reynist mannætur í sífelldri leit að fórnarlömbum.

Árið 2008 venti Fournier sínu kvæði í kross með bókaflokknum Les Chevaux du vent í samstarfi við teiknarann Christian Lax. Þar er um að ræða teiknimyndasögur í raunsæisstíl og vakti allnokkra athygli að listamaðurinn skyldi ná að tileinka sér nýjan og gjörólíkan teiknistíl þrátt fyrir að vera kominn á sjötugsaldur.

Auk teiknistarfa hefur Fournier sinnt kennslu og verið eftirsóttur fyrirlesari um teiknimyndasagnagerð á undanförnum árum.