Jakobsvegurinn

pílagrímaleið að Santiago de Compostela á Spáni

Jakobsvegur eða Vegur heilags Jakobs er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu. Hann heitir á galisísku O camiño de Santiago, á spænsku El Camino de Santiago og frönsku Chemins de Saint-Jacques. Jakobsvegurinn endar í dómkirkjunni í Santiago de Compostela í héraðinu Galisíu á Spáni en hefst þar sem pílagrímurinn leggur af stað.

Nútímatákn Jakobsvegarins

Snemma skapaðist helgisögn um tengsl Jakobs postula við norðvestur Spán og á 9. öld var álitið að líkamsleifar hans hefðu fundist þar sem nú er borgin Santiago de Compostela og er hún nefnd eftir Jakobi. Fljótlega fóru trúaðir víðsvegar að úr Evrópu að fara í bótgerðar og þakkargöngur til borgarinnar og varð hún þriðji mikilvægasti ákvörðunarstaður kristinna pílagríma á eftir Jerúsalem og Róm.

Greinar Jakobsvegarinns í Vestur-Evrópu, þær bláu og rauðu eru þær sem nú eru mest notaðar
Dómkirkjan í Santiago de Compostela, takmark Jakobsvegarins

 

Ein meginleið kristinna pílagríma breyta

Jakobsvegurinn hefur verið farbraut manna í meira en þúsund ár og var ein megin pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum. Ferð um Jakobsvegin var ein af þremur slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni. [1]. Hinar tvær voru pílagrímaganga til Rómar eftir svo nefndri Via Francigena leið og svo pílagrímaferð til Jerúsalem.

Samkvæmt helgisögn, sem allmennt er talin eiga upphaf á sjöundu öld, var Jakobi postula ætlað trúboð á Íberíuskaganum. Fyrir þessari helgisögn eru hins vegar engar heimildir, hvorki í Biblíunni né í öðrum ritum. Heilagur Jakob, sem einnig er nefndur hinn mikli, var eldri bróðir Jóhannesar guðspjallamanns samkvæmt Nýja testamentinu. Helgisagan hermir að Jakob hafi stigið á skipsfjöl og tekið land á norð-vestur hluta Spánar, þar sem nú heitir Galisía. En Jakob hafði ekki árangur sem erfiði í trúboðinu og að sjö árum liðnum snéri hann til Landsins helga. Jakob dó þar samkvæmt Postulasögunni píslarvættisdauða (hugsanlega um árið 44) og er frá því sagt: "Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði" [2] Lærisveinar Jakobs fluttu jarðneskar leifar hans aftur til Galisíu til greftrunar samkvæmt helgisögunni. En gröfin gleymdist síðar á þjóðflutningatímabilinu. Árið 814 fylgdi fjárhirðir að nafni Pelayo ábendingu stjörnuhraps samkvæmt helgisögninni og fann þá grafhýsi Jakobs. Af þeim atburði fékk staðurinn nafnið Santiago de Compostela, sem þýðir eiginlega Heilagur Jakob í Stjörnuakri (campus stellae á latínu).

Sagt er að Godescalc eða Gottskálkur biskup í frönsku borginni Le Puy hafi verið fyrstur manna til að fara í pílagrímagöngu til Santiago árið 950. Nafnið Jakobsvegur kemur fyrst fyrir í rituðum heimildum frá 1047 og var fljótlega allmennt notað í evrópskum málum. Engin ein leið er til Santiago, hún endar þar en hefst þar sem pílagrímurinn lagði af stað. En nokkrar meginleiðir mynduðust þar sem leiðirnar lágu saman eftir því sem nær dró og þegar komið var inn í Spán gengu langflestir einn og sama veginn. Við veginn risu sæluhús og pílagrímakirkjur með reglulegu millibili.

Á miðöldum var leiðin afar fjölfarin en svarti dauði, siðaskipti mótmælenda og ekki síst pólitísk umbrot á 16. öld urðu til þessa að mjög fækkaði pílagrímum. Um 1980 komu einungis fáeinir pílagrímar árlega til Santiago. En upp frá því hefur þeim fjölgað stöðugt og koma á síðustu árum milli 50.000 og 100.000 pílagrímar árlega. Árið 1993 var Jakobsvegurinn á Spáni settur á Heimsminjaskrá UNESCO og franski hlutinn árið 1998.

Seinni tíma pílagrímar breyta

 
Klettakirkjan í Le Puy

Síðustu áratugina hafa tugir þúsunda kristinna pílagríma og annarra ferðamanna lagt upp í för til Santiago de Compostela. Árið 1982 fór páfinn Jóhannes Páll 2. í pílagrímsferð til Santiago og skoraði þá á Evrópumenn að endurreisa hefð pílagríma sem leið til að finna menningarlegar rætur sínar. Var það á sinn hátt til að endurskapa Jakobsveg nútímans. Evrópuráðið samþykkti 1987 að útnefna Jakobsveginn sem fyrsta menningarveg Evrópu. Það ár voru 3.000 pílagrímar skráðir við dómkirkjuna í Santiago, árið 2003 voru þeir 74.000 og 2004, sem var heilagt Compostela-ár, komu 179.932. Nokkrir hefja förina bókstaflega á þröskuldi heimilis síns en flestir hefja pílagrímaferðina á einhverjum af þeim stöðum sem kaþólska kirkjan og ferðamálayfirvöld í Frakklandi og á Spáni í sameiningu hafa valið sem upphafsstaði Jakobsvegar nútímans. Flestir fara gangandi, nokkrir hjóla og fáeinir fara ferða sinna á þann hátt sem miðalda pílagrímar gerðu, það er með hest eða asna. Fyrir utan þá sem fara í trúarlegum tilgangi eru fjölmargir sem hafa aðrar ástæður, menningarlegar jafnt og ferðaþrá.

 
Hin svo kallaða franska leið

Pílagrímar á Jakobsvegi ganga í vikur eða mánuði á leið sinni til Santiago de Compostela. Þeir geta fylgt fjölmörgum leiðum, enda eru allar leiðir til Santiago pílagrímaleiðir, en sú vinsælast er hin svo kallaða franska leið eða Camino Francés og hefja flestir ferðina í einhverri af spænsku borgunum á leiðinni. Spánverjar telja eðlilegt að hefja gönguna við Pýreneafjöllin. Algengt er að byrja gönguna í Saint-Jean-Pied-de-Port eða Somport Frakklandsmegin við Pýreneafjöllin og Roncesvalles eða Jaca Spánarmegin. En fjölmargir velja að hefja gönguna í einni af fjórum hefðbundnum upphafsstöðum Jakobsvegarins í Frakklandi: Le Puy, Vézelay, Arles eða Tours. Frá pílagrímaborgunum í Pýreneafjöllunum er um 740 til 760 km leið til Santiago. Ef ferðin er hafin í Le Puy er vegalengdin um 1700 km og um það bil sama ef farið er frá Vézelay. Frá Arles er leiðin um 1500 km og frá Tours um 1300 km.

Þó svo að engin syndaaflausn fáist sjálfkrafa lengur að pílagrímsferð lokinni þá hafur dómkirkjan í Santiago de Compostela sett upp reglur fyrir að reiknast sem pílagrímur og fá viðurkenningaskjöl sem sanna það. Í fyrsta lagi þarf að bera með sér pílagrímavegabréf, sem má fá í heimasókn eða í kirkjum á upphafsstöðum, og safna stimplum á öllum viðkomustöðum. Í öðru lagi þarf viðkomandi að hafa gengið eða riðið á hesti eða asna minnst 100 km til Santiago eða farið minnst 200 km á hjóli. Í þriðja lagi þarf viðkomandi að lýsa yfir að förin hafi verið farin í trúarlegum eða andlegu tilgangi. Ef þessar kröfur eru uppfylltar getur pílagrímurinn fengið Compostela skírteini á latínu.[3]

Ár Pílagrímar Ár Pílagrímar Ár Pílagrímar Ár Pílagrímar
1970 68 1980 209 1990 4.918 2000 55.0043)
1971 4511) 1981 299 1991 7.274 2001 61.418
1972 67 1982 1.8681) 1992 9.764 2002 68.952
1973 37 1983 146 1993 99.4361) 2003 74.614
1974 108 1984 423 1994 15.863 2004 179.9441)
1975 74 1985 690 1995 19.821 2005 93.924
1976 2431) 1986 1.801 1996 23.218 2006 100.377
1977 31 1987 2.905 1997 25.179 2007 114.026
1978 13 1988 3.501 1998 30.126
1979 231 1989 5.7602) 1999 154.6131)
1) Heilagt ár (það er Año Santo sem er þau ár þar sem Jakobsdaginn – 25 júlí – ber upp á sunnudag)

2) Fjórði Alheimsdagur æskunnar í Santiago de Compostela
3) Menningarhöfuðborg Evrópu
(Heimild: Statistiken des Domkapitels der Kathedrale von Santiago de Compostela[4]

Eitt og annað breyta

  • Árið 2001 hjólaði Jón Björnsson Jakobsveginn frá Vézelay í Frakklandi til Santiago og skrifaði um það bókina Á Jakobsvegi sem út kom 2002 Bókaútgáfan Ormstunga ISBN 9979-63-036-1
  • Árið 2005 gekk Thor Vilhjálmsson Jakobsveginn, þá áttræður, og uppfyllti þannig 40 ára draum sinn. Um ferð hans, sem var allt í allt 800 km löng, var gerð heimildarmynd.

Ítarefni breyta

  • Jørgen Johansen: Santiago; 1000 års kulturrejse gennem Europa, Spektrum, 1999. ISBN 87-7763-204-4
  • Henrik Tarp. Pilgrimsvejen til Santiago de Compostela, Bogan, 2008. ISBN 87-7466-551-0
  • Rolf Enander (2006). Vägen till Santiago de Compostela, 3 rev uppl. ISBN 91-7224-031-8.

Tilvísanir breyta

  1. „The Compostela and the plenary indulgence“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júlí 2008. Sótt 3. júlí 2008.
  2. Postulasagan 12.1-2.
  3. „Upplýsingar um pílagrímaleiðina“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júlí 2006. Sótt 3. júlí 2008.
  4. Dómkirkjan í Santiago de Compostela Geymt 11 janúar 2015 í Wayback Machine)

Tenglar breyta

Erlendir tenglar