Júlíus Sólnes

Íslenskur stjórnmálamaður

Edvarð Júlíus Sólnes (f. 22. mars 1937) er íslenskur verkfræðingur og stjórnmálamaður. Hann sat á Alþingi fyrir Borgaraflokkinn frá 1987 til 1991 og var fyrsti umhverfisráðherra Íslands frá 1990 til 1991 í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar.

Júlíus Sólnes
Fæðingardagur: 22. mars 1937 (1937-03-22) (87 ára)
Fæðingarstaður: Reykjavík, Íslandi
7. þingmaður Reykjaneskjördæmis
Flokkur: Borgaraflokkurinn Borgaraflokkurinn
Þingsetutímabil
1987–1989 í Reykjaneskjördæmi fyrir Borgarafl.
1989–1991 í Reykjaneskjördæmi fyrir Borgarafl.
= stjórnarsinni
Embætti
1989– 1990 Ráðherra Hagstofu Íslands
1989–1991 Samstarfsráðherra Norðurlanda
1990–1991 Umhverfisráðherra
Tenglar
Æviágrip á vef Alþingis

Júlíus fæddist í Reykjavík og er sonur bankastjórans og alþingismannsins Jóns G. Sólnes og eiginkonu hans, Ingiríðar Pálsdóttir. Júlíus kvæntist Sigríði Maríu Óskarsdóttur árið 1959 og á með henni þrjú börn. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1955 og fyrrihlutaprófi í byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1958. Hann lauk síðan prófi í byggingaverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1961 og lic. techn. í æðri burðarþolsfræði og sveiflufræði árið 1966. Hann lagði stund á sérnám í jarðskjálftafræðum við háskóla í Tókíó á árunum 1963–1964.

Júlíus var kjörinn á Alþingi fyrir Borgaraflokkinn í alþingiskosningunum árið 1987. Hann varð formaður flokksins árið 1989 eftir að Albert Guðmundsson, stofnandi flokksins, var útnefndur sendiherra til Frakklands. Undir forystu Júlíusar ákvað flokkurinn að ganga til liðs við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar í samstarfi við Framsóknarflokkinn, Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið sama ár. Í stjórninni var Júlíus fyrst ráðherra Hagstofu Íslands frá 1989–1990 en tók síðan við hinu nýstofnaða umhverfisráðuneyti Íslands og varð fyrsti umhverfisráðherra landsins frá 1990 til 1991.

Nokkur óánægja ríkti með stjórnarsamstarfið innan Borgaraflokksins og því fór svo að tveir þingmenn hans, þeir Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson, klufu sig úr flokknum árið 1989 og stofnuðu eigin þingflokk, Frjálslynda hægrimenn.[1] Þessar innanflokksdeilur stuðluðu að því að Borgaraflokkurinn bauð ekki fram í kosningum árið 1991 og var lagður niður fáum árum síðar.

Tilvísanir breyta

  1. „Stjórnarsinnar hafa stolið Borgaraflokki“. Tíminn. 14. apríl 1989. Sótt 9. júlí 2019.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Umhverfisráðherra
(23. febrúar 199023. apríl 1991)
Eftirmaður:
Eiður Svanberg Guðnason