64°03′08″N 16°21′37″V / 64.05222°N 16.36028°V / 64.05222; -16.36028

Ferðafólk við Jökulsárlón.
Jökulsárlón .

Jökulsárlón er stórt jökullón við rætur Breiðamerkurjökuls í suðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Lónið er friðlýst sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði m.a. með það að markmiði að "vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu."[1] Úr lóninu rennur Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Lónið stækkar eftir því sem Breiðamerkurjökull hopar, en það er nú um 25 km2. Dýpt lónsins mældis 284 metrar árið 2009[2] en dýpt rennunnar sem Breiðamerkurjökull liggur í teygir sig um 300 metra undir sjávarmál samkvæmt íssjármælingum.[3] Jökulsárlón er dýpsta vatn landsins.

Saga myndunar breyta

Jökulsárlón er ungt lón en það fór að myndast eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa eftir 1933. Lónið myndast í djúpri lægð sem jökullinn gróf við framrás sína á litlu ísöld, en þá kólnaði loftslag, ís byggðist upp hraðar og jöklar skriðu fram á láglendi. Breiðamerkurjökull gróf 25 kílómetra langa rennu sem nær 200-300 metra niður fyrir sjávarmál frá þar sem Jökulsárlón er nú og upp í átt að Esjufjöllum, undir jökli. Vegna loftslagshlýnunar bráðnar nú Breiðamerkurjökull meira en sem nemur þeim ís er bætist við hann árlega og minnkar þar af leiðandi stöðugt. Samtímis stækkar lónið, en spár gera ráð fyrir því að undir lok 21. aldar muni jökullinn hafa hopað svo að Jökulsárlón nái að rótum Esjufjalla.[4]

Sérstaða Jökulsárlóns orsakast af stærð þess og nálægð þess við sjóinn. Á flóði streymir saltur og hlýr sjórinn inn í jökullónið og veldur því að sá hluti ísjakanna sem er ofan í vatninu bráðnar hraðar en sá er upp úr stendur, öfugt við það sem alla jafna gerist í öðrum jökullónum. Ísjakarnir missa því smám saman jafnvægið og velta sér við í lóninu til að finna stöðugleika á ný. Þetta getur gerst snögglega og skal ávallt hafa í huga við siglingar á lóninu. Þegar jaki hefur nýlega velt sér vísar tær hluti hans, sem áður var á kafi, upp og er gjarnan dökk- eða heiðblár á lit vegna þess hvernig ljós brotnar þegar það skín í gegnum nánast loftlausan ísinn. Eftir að þessi hluti hefur verið í sólarljósi í nokkrar klukkustundir byrjar yfirborð íssins að þenjast út og springa svo loft kemst á milli. Slíkt loft-fyllt yfirborð endurkastar hvítu, líkt og alda sem brotnar í sjónum eða froða.

Lónið sjálft er líka blátt á lit, en ekki brúnt eins og önnur jökullón og jökulár. Það hefur sennilega bæði að gera með það magn af sjó sem streymir inn í lónið og einnig stærð lónsins, sem er nú um 20 ferkílómetrar. Setið sem jafnan fylgir jökulvatni hefur því ráðrúm til að sökkva til botns.

Jökulsárlón varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði sumarið 2017.

Dýralíf breyta

 
Landselur (Phoca vitulina)
 
Æðarfugl (Somateria mollissima)

Jökulsárlón er ólíkt öðrum jökullónum á Íslandi að því leyti að það iðar af dýralífi. Loðna, síld og aðrir fiskar ganga inn í lónið sem gerir það að fýsilegum bústað landsela og sjófugla s.s. kríu, æðarfugla, helsingja, skarfa og máfa. Umhverfis lónið má oft sjá smáfugla eins og snjótittlinga og sandlóu auk hrafna og skúma, en sandarnir sunnan Vatnajökuls eru stærsti varpstaður íslenskra skúma[5]. Að lóninu austan megin koma stundum hreindýrahópar sem dvelja annars á Breiðamerkursandi austanverðum eða í fjallendi á Suðausturlandi. Sandarnir umhverfis Jökulsárlón eru einnig búsvæði refa og minnka en þeirra verður lítt vart nálægt þjónustusvæðinu enda lítt hrifnir af mannfólki.

Gróðurfar breyta

Gróðurfar við Jökulsárlón einkennist af harðgerðum tegundum sem tekst að nema land í næringarsnauðum jarðvegi sem nýlega er kominn undan jökli. Þar er að finna margskonar fléttur og skófir á steinum, mosa og grös. Mestur gróður er á svæðum sem lengst hafa verið laus við jökul en eftir því sem nær dregur jöklinum fer gróður minnkandi.[6] Fundist hafa leifar um 3000 ára gamalla trjástofna auk annarra gróðurleifa í jökulurð Breiðamerkurjökuls. Líklegt er að svæðið sem nú heitir Breiðamerkursandur hafi verið gróðursælt áður en jökull skreið þar yfir á litlu ísöld.[7] Nafnið Breiðamörk styður það, en mörk þýðir skógur.

Þjónusta breyta

Landvarsla er á svæðinu allan ársins hring og vatnssalerni opin. Eftirlitssvæði landvarða á Breiðamerkursandi er víðfeðmt og ekki víst að landvörður sé alltaf á staðnum á sjálfu Jökulsárlóni. Yfir sumartímann og fram á haust er hægt að sigla um lónið á hjólabátum(bílbátum), slöngubátum og kajökum, en þrjú mismunandi fyrirtæki halda þeirri starfsemi úti. Einkarekin veitingasala er á austurbakka lónsins sem og hleðslustöð fyrir rafbíla.

 
Víðmynd af Jökulsárlóni.

Tilvísanir breyta

  1. Aagot V Óskarsdóttir (ritstjóri) (ágúst 2011). „Náttúruvernd: Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Kafli 14 Friðlýsing og önnur vernd, bls. 216“ (PDF). Umhverfisráðuneytið. Sótt október 2020.
  2. „Jökulsárlón tekið við sem dýpsta vatn Íslands“. Morgunblaðið. Sótt 22. mars 2020.
  3. Helgi Björnsson, Finnur Pálsson, Eyjólfur Magnússon (1999). Breytingar á Jökulsárlóni. Raunvísindastofnun Háskólans.
  4. Helgi Björnsson. (2009). Jöklar á íslandi. Fiske Icelandic Collection. Reykjavík: Bókaútgáfan Opna. ISBN 9935-10-004-9. OCLC 606164806.
  5. „Fuglavefur- Skúmur“. fuglavefur.is. Sótt 6. desember 2020.
  6. Þorvarður Árnason, Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, Snævarr Guðmundsson, Hugrún Harpa Reynisdóttir og Kristín Hermannsdóttir (2020). „Breiðamerkursandur: Viðauki við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Greinargerð um tillögu svæðisráðs suðursvæðis“ (PDF).
  7. Kristín Hermannsdóttir (2018). „Lurkafundur á Breiðamerkursandi“.

Tenglar breyta

   Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.