Jóhanna Sikileyjardrottning

Jóhanna af Englandi (október 11654. september 1199) var ensk konungsdóttir á 12. öld, drottning Sikileyjar og síðar greifynja af Toulouse í Frakklandi.

Jóhanna og Ríkharður ljónshjarta taka á móti Filippusi 2. Frakkakonungi þegar hann kemur til Sikileyjar.

Jóhanna var sjöunda og næstyngsta barn Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu. Á meðal bræðra hennar voru þeir Ríkharður ljónshjarta og Jóhann landlausi. Jóhanna fæddist í Anjou og ólst upp með móður sinni í Winchester og Poitiers. Árið 1176 sendi Vilhjálmur 2. Sikileyjarkonungur fulltrúa sína til ensku hirðarinnar til að biðja um hönd Jóhönnu. Gengið var frá trúlofun þeirra 20. maí og 27. ágúst var Jóhanna send til Sikileyjar í fylgd biskupsins af Norwich og fleiri fyrirmanna. Ferðin gekk skrykkjótt en Jóhanna komst þó klakklaust á leiðarenda og 13. febrúar 1177 giftist hún Vilhjálmi og var krýnd drottning Sikileyjar. Hún var þá 11 ára en brúðguminn tíu árum eldri. Þau eignuðust einn son ári 1181 en hann dó í vöggu.

Vilhjálmur dó 11. nóvember 1189 og þá hrifsaði Tancred, óskilgetinn frændi hans, til sín völdin og var krýndur konungur Sikileyjar skömmu síðar. Hann hafði Jóhönnu í varðhaldi en í september um haustið kom Ríkharður bróðir hennar til eyjarinnar á leið í krossferð og krafðist þess að hún yrði látin laus og öllum heimanmundi hennar og arfi eftir mann hennar skilað. Tancred neitaði að verða við þessu en Ríkharður ákvað þá að hafa vetursetu á Sikiley og lagði borgina Messína undir sig. Að lokum lét Tancred undan og greiddi féð.

Í mars 1191 kom Elinóra móðir Ríkharðs og Jóhönnu til Sikileyjar með Berengaríu af Navarra, sem Ríkharður ætlaði að giftast. Hún sneri svo heim en Jóhanna tók að sér að sjá um Berengaríu. Ríkharður ákvað svo að fresta brúðkaupinu um sinn og sigldi af stað til Landsins helga. Jóhanna og Berengaría voru saman á öðru skipi en hann og þegar óveður skall á tvístraðist flotinn. Ríkharður hraktist til Krítar en skipið sem konurnar voru á strandaði við Kýpur. Ísak Komnenos, sem kallaði sig konung Kýpur, hertók þær en þá kom Ríkharður á vettvang, frelsaði þær, varpaði Ísak í dýflissu, giftist Berengaríu og sendi þær svo áfram til Akkó.

Jóhanna var sögð eftirlætissystir Ríkharðs en hann hikaði þó ekki við að nota hana eins og peð í pólitísku tafli sínu. Honum kom jafnvel í hug að gifta hana bróður Saladíns, Al-Adil, og setja þau yfir Jerúsalem. Sú áætlun gekk þó ekki upp því Jóhanna vildi ekki giftast múslima og Al-Adil vildi ekki giftast kristinni konu. Einnig kom til tals að gifta hana Filippusi 2. Frakkakonungi en af því varð ekki, enda hefði slíkt hjónaband sennilega verið ógilt þar sem Loðvík 7., faðir Filippusar, hafði áður verið giftur móður Jóhönnu.

Jóhanna sneri því ógift heim en í október 1196 giftist hún Raymond 6. greifa af Toulouse. Hún var fjórða kona hans af fimm eða sex. Hjónabandið var ekki hamingjusamt og árið 1199, þegar Jóhanna gekk með þriðja barn þeirra, strauk hún og ætlaði að leita á náðir Ríkharðs bróður síns en kom að banabeði hans. Hún flúði þá til móður sinnar í Rouen og leitaði síðan hælis í Fontevrault-klaustri.þar fæddi hún son sem dó nýfæddur og dó sjálf af barnsförum. Sonur hennar og Raymonds var Raymond 7. af Toulouse.

Heimildir breyta