János Kádár

Ungverskur kommúnistaleiðtogi (1912-1989)

János Kádár (fæddur undir nafninu János József Csermanek; 26. maí 1912 – 6. júlí 1989) var ungverskur stjórnmálamaður og kommúnisti sem var aðalritari Ungverska sósíalíska verkamannaflokksins frá 1956 til 1988 og forsætisráðherra ungverska alþýðulýðveldisins á tveimur tímabilum (1956–1958 og 1961–1965). Kádár var settur í embætti af Sovétmönnum eftir að uppreisninni í Ungverjalandi var hrundið árið 1956. Lengi litu Ungverjar á Kádár sem föðurlandssvikara fyrir að taka afstöðu með innrásarmönnum gegn byltingunni en hann náði þó á valdatíð sinni að vinna sér nokkra alþýðuhylli með umbótum sínum, sem kenndar voru við „gúllaskommúnisma“. Pólitísk arfleifð hans er enn umdeild meðal Ungverja í dag.

János Kádár
Aðalritari Ungverska sósíalíska verkamannaflokksins
Í embætti
25. október 1956 – 22. maí 1988
ForveriErnő Gerő
EftirmaðurKároly Grósz
Forsætisráðherra Ungverjalands
Í embætti
4. nóvember 1956 – 28. janúar 1958
ForveriImre Nagy
EftirmaðurFerenc Münnich
Í embætti
13. september 1961 – 30. júní 1965
ForveriFerenc Münnich
EftirmaðurGyula Kállai
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. maí 1912
Fiume, Austurríki-Ungverjalandi
Látinn6. júlí 1989 (77 ára) Búdapest, Ungverjalandi
ÞjóðerniUngverskur
StjórnmálaflokkurUngverski sósíalíski verkamannaflokkurinn
MakiMária Tamáska (1949–1989)

Æviágrip breyta

János Kádár fæddist þann 26. maí árið 1912 í hafnarbænum Fiume, sem tilheyrir nú Króatíu en var á þeim tíma hluti af Ungverjalandi (innan austurrísk-ungverska keisaradæmisins). Hann kom úr bændafjölskyldu og gekk í skóla í Kapoly en flutti síðar með móður sinni til Búdapest. Þegar János var fjórtán ára gamall byrjaði hann að vinna í járniðnaðinum. Hann gekk í ungverska kommúnistaflokkinn þegar hann var tvítugur.[1]

Kádár var orðinn minniháttar flokksleiðtogi kommúnista þegar seinni heimsstyrjöldin braust út. Á styrjaldarárunum var Kádár einn tíu meðlima í stjórn Kommúnistaflokksins í Búdapest og varð náinn vinur annars kommúnistaleiðtoga, László Rajk. Rajk nefndi son sinn í höfuðið á Kádár árið 1949 og Kádár varð guðfaðir hans.[2]

Eftir að Sovétmenn hertóku Ungverjaland í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og komu þar á fót kommúnistastjórn varð Kádár framkvæmdastjóri Kommúnistaflokksins í Búdapest en Rajk varð innanríkisráðherra í ríkisstjórn Mátyásar Rákosi. Rajk var hins vegar lækkaður í tign árið 1948 eftir ágreining við Rákosi og gerður utanríkisráðherra en Kádár tók við sem innanríkisráðherra.[2] Kádár var því yfirmaður lögreglunnar þegar Rajk var handtekinn, dæmdur og tekinn af lífi fyrir meint föðurlandssvik. Kádár fordæmdi Rajk opinberlega sem njósnara, heimsvaldasinna, flugumann Títós og fyrrverandi handbendi Horthy-lögreglunnar, Gestapo og frönsku og bandarísku leyniþjónustunnar.[2] Í hljóðupptöku af fundi Kádárs og Rajks var opinberað að Kádár sjálfur trúði ekki á sekt vinar síns en taldi hann engu að síður á að játa sekt sína til þess að þjóna hagsmunum flokksins og koma höggi á Tító.[3]

Handtaka Rajks varð upphafið að hreinsunarherferð í flokksröðum ungverskra kommúnista. Kádár varð sjálfur fyrir barðinu á hreinsununum og handtekinn, pyndaður og fangelsaður í maí árið 1951. Hann hlaut hins vegar uppreist æru árið 1954 eftir að Imre Nagy varð forsætisráðherra í fyrra sinn og var endurkjörinn í flokksforystuna eftir að Rákosi var bolað frá völdum tveimur árum síðar.[1]

Uppreisnin 1956 breyta

Þegar uppreisnin í Ungverjalandi braust út árið 1956 var kommúnistaflokkurinn endurskipulagður sem Ungverski sósíalíski verkamannaflokkurinn og Kádár var kjörinn aðalritari hans. Imre Nagy varð forsætisráðherra í annað skipti og Kádár lýsti því yfir í útvarpsávarpi þann 30. október að flokkurinn myndi fylgja stjórnarstefnu Nagy til að koma til móts við byltingarmennina í einu og öllu. Þann 1. nóvember læddist Kádár hins vegar úr ungversku ríkisstjórnarbyggingunni í Búdapest yfir í bækistöðvar Sovétmanna. Þegar sovéski herinn gerði innrás í Ungverjaland til að stöðva byltinguna þann 4. nóvember gekk Kádár í lið með þeim og gerðist forsætisráðherra sovéskrar leppstjórnar.[2][4]

Nagy leitaði hælis í sendiráði Júgóslavíu í Búdapest en þann 21. nóvember taldi Kádár hann á að gefa sig fram og lofaði Nagy að hann fengi að yfirgefa landið óáreittur. Eftir að Nagy gaf sig fram var hann hins vegar handtekinn og dæmdur til dauða.[2]

Stjórnartíð (1956–1988) breyta

Í kjölfar byltingarinnar var Kádár hataður af þjóð sinni og almennt álitinn „kvislingur“ eða „föðurlandssvikari“ fyrir að svíkja Nagy og ganga í lið með sovéska innrásarhernum. Þegar stjórn Kádárs var traust í sessi reyndist hann hins vegar umbótasinnaðari en von var á og mun frjálslyndari en flestir aðrir kommúnistaleiðtogar austurblokkarinnar. Stjórn Kádárs hóf stórtækar efnahagsumbætur í frjálslyndisátt upp úr 1960. Kádár veitti einkafyrirtækjum aukið svigrúm til að starfa í Ungverjalandi, bætti starfsskilyrði opinberra starfsmanna og leyfði starfsemi kirkjunnar og trúarbragðakennslu í Ungverjalandi á ný.[5] Frjálslynt stjórnarfar Kádárs og aukin áhersla á neyslu frekar en þungaiðnað komu því til leiðar að Ungverjaland naut meiri efnahagsfarsældar en nágrannaríkin og að aðgangur Ungverja að ýmsum nytja- og munaðarvörum eins og sjónvörpum, ísskápum, ryksugum og bifreiðum var betri en í flestum öðrum kommúnistaríkjum.[6][7]

Í stað þess að vera einráður í stjórn Ungverjalands líkt og Rákosi hafði verið tók Kádár upp samstjórn margra og réð gjarnan til sín utangarðsmenn og sérfræðinga til þess að ná sambandi við utanflokksmenn. Hann lifði jafnframt mun hófsamara líferni en margir kommúnistaleiðtogar í öðrum löndum sem höfðu myndað nýjar valdaklíkur sem sátu einar að öllum munaðarvörum. Slagorð Kádárs frá árinu 1961 voru „Sá sem er ekki á móti oss, er með oss“, sem var beinn viðsnúningur frá kenniorðum Rákosi, „Sá sem er ekki með oss, er á móti oss“.[6]

Kádár naut almennrar virðingar undir lok stjórnartíðar sinnar en vinsældir hans voru þó farnar að dvína þegar leið á níunda áratuginn. Kádar var settur af sem leiðtogi Ungverska sósíalíska verkamannaflokksins árið 1988 og Károly Grósz tók við af honum. Grósz var aðeins leiðtogi Ungverjalands í um eitt ár áður en yfirráð kommúnista í Ungverjalandi liðu undir lok árið 1989.[8] Kádár lést aðeins fáeinum mánuðum áður en flokksræði ungverska kommúnista leið undir lok.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 „Kvislingurinn sem vann hylli þjóðar sinnar“. Dagblaðið Vísir. 26. maí 1982. bls. 10.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 George Paloczi-Horovath (29. maí 1957). „Mannlýsing ómennis“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  3. William Shawcross (19. ágúst 1973). „Blóðið og friðþægingin: Saga Janosar Kadar, fyrri grein“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 7, 12.
  4. „Hvers vegna gekk Kadar í lið með Rússum?“. Morgunblaðið. 8. nóvember 1986. bls. 12.
  5. Lajos Lederer (17. september 1983). „„Svikarinn" sem vann hug þjóðar sinnar“. Morgunblaðið. bls. 18.
  6. 6,0 6,1 William Shawcross (26. ágúst 1973). „Blóðið og friðþægingin: Saga Janosar Kadar, seinni grein“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 11-12.
  7. „Ungverjar sætta sig við Kadar“. Morgunblaðið. 8. nóvember 1986. bls. 10-11.
  8. „Felldi tár er hann réttlætti stjórnarhætti sína“. Morgunblaðið. 25. maí 1988. bls. 33.


Fyrirrennari:
Ernő Gerő
Aðalritari Ungverska sósíalíska verkamannaflokksins
(25. október 195622. maí 1988)
Eftirmaður:
Károly Grósz
Fyrirrennari:
Imre Nagy
Forsætisráðherra Ungverjalands
(4. nóvember 195628. janúar 1958)
Eftirmaður:
Ferenc Münnich
Fyrirrennari:
Ferenc Münnich
Forsætisráðherra Ungverjalands
(13. september 196130. júní 1965)
Eftirmaður:
Gyula Kállai