Hringskyrfi er smitandi húðsjúkdómur í búfé sem orsakast af sveppum (Tricophytus verrucosum). Oft smitast fólk af sjúkum dýrum og myndast hárlausir blettir á líkama sjúklings en einnig fylgir kláði smitinu.

Hringskyrfi á Íslandi breyta

Hringskyrfi er ekki landlægur sjúkdómur á Íslandi en að minnsta kosti fimm aðskild tilfelli hafa komið upp. Fyrstu þrjú hafa reynst koma með innfluttum gripum eða útlendu vinnufólki. Veikin er tilkynningaskyld á Íslandi.[1]

Hringskyrfi í Þerney breyta

Sumarið 1933 voru flutt til landsins nokkrir holdagripir frá Skotlandi og var þeim komið fyrir í Þerney til sóttvarna. Skömmu seinna fór að koma fram hringskyrfi á dýrunum fimm. Veikin lagðist á nautgripi bóndans þar og heimilisfólkið, en ekki var staðfest að sauðfé og hross hafi veikst. Öllu búfé var síðan slátrað, nema einum kálfi sem var tekinn úr karinu og geymdur í eldhúsi húsmóðurinn þar til hann var fluttur að Blikastöðum í Mosfellssveit, þar sem hann var alinn um skeið. Ítarleg sótthreinsun fór fram á gripahúsum og gengu þær eftir og tókst að uppræta sjúkdóminn í þetta sinn. Kálfurinn, sem nefndur var Brjánn var notaður til undaneldis víða um land og út af honum kom Galloway-hjörðin í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Brjánn smitaðist ekki af hringskyrfi og var því hægt að nota hann víða um land.

Atvik í Eyjafirði breyta

Síðsumars árið 1966 var heimilisfólk að Grund (Eyjafjarðarsveit) í Hrafnagilshreppi vart við hringskyrfi í kúm á bænum. Talið var að smitið hafi borist með erlendum vinnumanni sem sinnti fjósaverkum á bænum. Smitið breiddist hratt út í hreppnum vegna samgangs nautgripa á fleiri bæjum. Auk þess varð vart við hringskyrfi í sauðfé og hrossum auk þess sem stór hópur manna fékk útbrot. Það tókst að komast fyrir meira smit með girðingum og niðurskurði á gripum.

Þriðja tilfellið breyta

Um mitt sumar 1987 komu til landsins tveir unglingar frá Svíþjóð til að sinna sveitaverkum að Mið-Grund í Vestur-Eyjafjallahreppi. Stúlkan tók til hendinnar í fjósinu, en tók síðan fljótlega eftir því að hún var með rautt, hringlaga útbrot á handlegg. Eitthvað fórst fyrir að hún færi til læknis til athugunar svo hún náði að smita alla gripina í fjósinu. Það uppgötvaðist þó ekki fyrr en þremur mánuðum síðar þegar átti að klippa kýrnar. Dýralæknir staðfesti smitið. Sýkingin fór að smitast um þetta svokallaða Holtshverfi, þar sem fleiri bæir en Mið-Grund voru með nautgripi. Ágætlega gekk þó að uppræta sjúkdómnum, sem hvort eð var virtist ekki hrjá skepnurnar.

Tilfelli á Norðurlandi 2007-2008 breyta

Í september 2007 var hringskyrfitilfelli staðfest á nýjan leik í Eyjafirði. Sáust þá einkenni á grip sem kom til slátrunar. Ekkert var fleira viðhafst í málinu þar sem aðrir gripir á búinu reyndust ekki sýktir.[2]

Í nóvember fannst sjúkdómurinn á næsta bæ.[3] Þá fannst veikin í Skagafirði í febrúar 2008.[4]

Heimildir breyta

Neðanmálsgreinar breyta

  1. „Lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. 25/1993“.
  2. „Smitsjúkdómurinn hringskyrfi staðfestur á kúabúi í Eyjafirði“. Sótt 23. janúar 2008.
  3. „Hringskyrfi finnst aftur“. Sótt 23. janúar 2008.
  4. „Setja bæ í Skagafirði í einangrun“. mbl.is. 1. mars 2008.