Hraði að marki (enska: Velocity made good eða VMG) er siglingahugtak notað í kappsiglingum sem vísar til þess hluta af hraða seglskips sem færir það nær settu marki. Hugtakið er notað vegna þess að vegna vindstefnu getur báturinn oft ekki siglt beint að markinu. Seglskútur geta ekki siglt beint á móti vindi og hæsta mögulega beiting gefur ekki endilega mesta hraða. Til að komast sem hraðast að markinu þarf því að hámarka hraða miðað við stefnu eða hraða að marki. Skipstjóri þarf því að vega og meta kosti þess að halda meira undan og ná meiri hraða eða beita hærra til að stefna nær markinu.

Hægt er að reikna þetta út með einfaldri hornafræði: Ef markið er í norður og skipið er á fimm hnúta hraða miðað við að stefna 60° norðaustur en næði 5,2 hnútum ef það héldi undan um 5°, hvor leiðin væri betri? Svarið fæst með því að reikna út kósínus hornsins sinnum hraða í þeirri stefnu. Þar með fæst út að fyrri leiðin færir skipið norður á cos(60) * 5 = 2,5 hnúta hraða en sú síðari á cos(65) * 5,2 = 2,2 hnúta hraða. Fyrri leiðin færir skipið því hraðar að markinu en sú síðari. Ef munurinn væri meiri, t.d. ef skipið næði sex hnúta hraða miðað við 65° stefnu en aðeins fimm miðað við 60°, þá myndi þetta breytast þannig að síðari leiðin væri betri.

Fleiri atriði þarf að meta þegar reynt er að finna rétta stefnu, svo sem hversu oft þarf að venda til að ná markinu (skipið missir ferð við að venda), ölduhæð og öldustefnu, drift, rek og staðbundna vinda.

GPS-tæki sem ætluð eru fyrir siglingar reikna gjarnan út hraða að marki, en siglingamenn geta líka notast við einfaldan vasareikni eða fyrirfram reiknaðar töflur með mismunandi gildi fyrir mismunandi horn.