Hornhimna er ysta lag augans eða fremri hluti fremsta lags augans.

Ysta lag augans er trefjahjúpur (e. fibrous tunic) sem er gerður úr hornhimnu (e. cornea) að framan og hvítu (e. sclera) að aftan. Hvítan er hjúpur úr þéttum bandvef sem þekur allan augnknöttinn nema hornhimnuna. Hún gefur augnknettinum lögun sína, gerir hann stinnan og verndar innri hluta hans.[1]

Hornhimnan er gegnsær trefjahjúpur sem þekur lithimnu augans (e. iris). Í hornhimnunni eru engar æðar. Ytra borð hennar er þakið táru (e. conjunctiva) sem er þekjuvefur sem klæðir einnig auglokið að innan. Hornhimnan brýtur ljósgeisla sem berast inn í augað og beinir þeim á réttan stað á augnbotni. Við það verður myndin skýr. Sé hornhimnan ekki sveigð á réttan hátt verður mynd ekki stillt á það svæði augans þar sem sjónin er skörpust og sjónin verður óskýr. Hægt er að fjarlægja gallaða hornhimnu og setja aðra með svipað þvermál í staðinn frá vefjagjafa. Þetta kallast glæruígræðsla eða hornhimnuígræðsla (e. corneal transplant) og er árangursríkasta ígræðslan sem framkvæmd er þar sem engar æðar eru í hornhimnunni og því lítil hætta á að ónæmiskerfi líkamans hafni henni.

  1. „Úr hverju er augað?“. Vísindavefurinn. Sótt 31. júlí 2023.