Hlemmur

torg í miðbæ Reykjavíkur

Hlemmur er yfirbyggt torg sem stendur efst á Hverfisgötu, gegnt aðallögreglustöð borgarinnar. Þar er nú mathöllin Hlemmur - Mathöll. Nafnið Hlemmur vísar til brúarstubbs sem þar var yfir lækinn Rauðará, sem Rauðarárstígur í Reykjavík er kenndur við.

Hlemmur meðan hann var enn skiptistöð Strætó 2013.

Komið var upp vatnsþró á Hlemmtorgi,[1] til að brynna hestum, skömmu eftir stofnun Vatnsveitu Reykjavíkur. Árið 2005 var höggmyndin „Klyfjahesturinn“ eftir Sigurjón Ólafsson, sem stóð áður við Sogamýri, sett niður rétt við Hlemm til minnis um þetta.

Á fyrri hluta tuttugustu aldar stóð Gasstöð Reykjavíkur við Hlemm. Hana hefur Megas sungið um. Einnig kemur Gasstöðin við sögu í skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, Grafarþögn. Þar sem torgið er nú stóðu meðal annars bensínstöð og leigubílastöð Hreyfils áður en núverandi bygging var reist.

Árið 1978 var byggingin á Hlemmi reist sem ein af aðalskiptistöðvum Strætisvagna Reykjavíkur eftir teikningu Gunnars Hanssonar arkitekts. Þar voru mörg þjónustufyrirtæki til húsa: sjoppa, bakarí og ljósmyndastofa meðal annars; auk afgreiðslu Strætisvagna Reykjavíkur. Skiptistöðin var um árabil eins konar afdrep útigangsfólks í Reykjavík. Kvikmyndin Hlemmur frá 2003 fjallar um það. Frá 1980-1984 var Hlemmur auk þess ein aðalfélagsmiðstöð ungra upprennandi pönkara sem komu saman á hverjum degi og héngu þar saman. Á þeim tíma var töluvert um afþreyingarstarfsemi í kringum Hlemm, svo sem skyndibitastaðir, spilasalir og vídeóleigur.

Árið 2017 kom fram sú hugmynd að BSÍ tæki við af Hlemmi sem samgöngumiðstöð fyrir höfuðborgarsvæðið. Sama ár var Hlemmur - Mathöll opnuð þar eftir miklar endurbætur á húsnæðinu. Árið 2019 var kynnt nýtt deiliskipulag fyrir Hlemm og nærliggjandi svæði þar ákveðið var að stækka torgið austan við Hlemm (Hlemmtorg) og leiða umferð frá Suðurlandsbraut þar norðan við. [2]

Umferð Strætó hættir á Hlemmi vorið 2024. Ákveðið var að engin sambærileg miðlæg stoppistöð tæki við. [3]

Tilvísanir og heimildir breyta

  1. Morgunblaðið, 23. október 1958, bls. 20.
  2. Ný ásýnd og hlutverk fyrir Hlemmtorg Reykjavík.is, skoðað 13. ágúst 2020
  3. Leiðakerfisbreytingar vegna framkvæmda við Hlemm Strætó, 7/2 2024
   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.