Hekluskógar eru samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Suðurlandsskóga, Landgræðslusjóðs, Skógræktarfélags Rangæinga og Árnesinga og landeigenda (og sjálfboðaliða) á svæðinu. Verkefnið snýr að því að planta birkiskógi á um 100.000 hektara svæði umhverfis Heklu til að hefta fok á lausum jarðefnum, þ.e. ösku, sem fylgja eldgosum. Svæðið í heild sinni nær frá Keldum og GunnarsholtiÞjórsá og í Þjórsárdal auk þess sem plantað verður í allt að 600 metra hæð í Hekluhlíðum og í svæði sunnan við Hrauneyjalón (eða N/NA við Heklu).

Loðvíðir og birki við syðri mörk Hekluskóga á Langöldu (milli Gunnarsholts og Keldna)

Verkefnið var stofnað árið 2007 þegar var gerður sérstæður samningur milli Skógræktar og Landgræðslu um samvinnu sem felst í því að nota aðallega birki sem landgræðslujurt í kringum Heklu og á erfiðum uppblásturssvæðum kringum hana. Áætlað var í byrjun að verkefnið stæði í allt að hálfa öld. Svæðið er um 100.000 hektarar lands sem er næstum 1% af flatarmáli Íslands (svipað og Langjökull sem er 950km2). 2,7 milljónum birkiplantna hafði verið plantað 2016 í 1400 hektara og rúmlega 700 trjálundi. Ekki er áætlað að planta í allt svæðið heldur reitir valdir út til að planta í (eins konar plöntueyjur sem geta dreift fræi út frá sér). Árið 2018 voru settar niður 333 þúsund plöntur af beinvaxna birkikvæminu emblu.  

Tilgangur verkefnisins er að endurheimta fyrri landgæði en nær allt svæðið var áður þakið skógi að mestu leyti áður en um aldamótin 1900 höfðu flestir skógarnir eyðst vegna ágangs (þekktar skógarleifar eru t.d. Galtalækjarskógur, Næfurholtsskógur og Búrfellsskógur). Með endurheimt skóganna er landið varið fyrir áfalli gjósku en skógar eiga mestan möguleika af gróðurlendum að lifa af gjóskuáföll (og veita skjól fyrir öskufoki og rofmætti þess).

Auk stofnanna og samtaka geta þeir sem eiga eða leigja land sem er 0,5-25 hektarar sent inn umsókn til að taka þátt í verkefninu. Í umsókninni kemur fram að veittur sé styrkur með 670 birkiplöntum að lágmarki. Styrkþeginn verði að jafna það mótframlag með birki, reyni eða víðigræðlingum. Styrkþeginn verður einnig að tryggja að landið sé beitarfriðað og að ekki sé of mikið jarðvegsfok á því. Samningar við landeigendur árið 2018 voru 236.

Fyrst og fremst er birki plantað í verkefninu en einnig hefur víði, reyniviði og jafnvel blæösp verið plantað í minna mæli. Grösum hefur verið sáð (t.d. melgresi, rýrgresi) til að hafa gróðurlag til að hamla frostlyftingu. Um 200 tonnum af kjötmjöli var dreift árið 2018 (og 75 tonnum af tilbúnum áburði) en uppgræðslan með kjötmjölinu hefur skilað góðum árangri. (auk þess að hjálpa vexti plantna þá myndar áburðurinn lífræna skán sem hamlar frostlyftingu). Birki hefur einnig verið plantað í lúpínubreiður á svæðinu því að þekkt er að lúpínan fóstrar plöntuna vel með því að skapa næringarríkan jarðveg. Ágætur árangur er af gróðursetningu birkisins, elstu trén eru komin yfir mannhæð og fræmyndun er mikil.


Árangur lifunar og vaxtar birkis

Árið 2013 voru lagðir út mælifletir (250m x 250m) til að meta árangur lifunar og vaxtar á birkiplanta. 5 árum síðar (2018) var metinn árangur af 12 mæliflötum. Afföll af birkiplöntum reyndust minni en gert var ráð fyrir og töluverð sjálfsáning hafði orðið. Niðurstaðan var að í 7 þeirra 12 reita hafði birki sáð sér og fjölgað hafði plöntum í reitum. Meðalhæð plantnanna var 21 cm árið 2013 en 62 árið 2018. Meðalársvöxtur voru tæpir 8cm sem telst gott á svæðinu.

Tengill breyta