Hagamús (fræðiheiti: Apodemus sylvaticus)[1] er músategund sem er algeng um svo til alla Evrópu og er einnig í Norður-Afríku. Hún finnst um sunnanverð Norðurlönd og á Íslandi, en þangað hefur hún borist með mönnum þegar á landnámsöld. Hún er hins vegar ekki í Finnlandi og Rússlandi, þar koma aðrar músategundir í stað hennar. Hún finnst heldur ekki á Færeyjum eða á Grænlandi.

Hagamús

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Nagdýr (Rodentia)
Yfirætt: Muroidea
Ætt: Músaætt (Muridae)
Undirætt: Murinae
Ættkvísl: Apodemus
Tegund:
A. sylvaticus

Tvínefni
Apodemus sylvaticus
(Linnaeus, 1758)
Framtennur músa eru rótopnar og vaxa því alla ævi.

Hagamýs eru litlar (oftast um 9 cm að lengd án hala og 25-35 g að þyngd), með kringlótt eyru og langan hala. Þær eru mjög líkar húsamúsum (Mus musculus) í útliti nema hvað húsamúsin er grárri, grábrún eða gulbrún að ofan en ljósari á kviðnum, og augun eru stærri. Á ýmsum Evrópumálum, þ. á m. á latnesku, er þessi tegund kölluð skógarmús, þótt tegundin þrífist í raun betur í högum, görðum og mólendi en í skógi.

Hagamýs lifa aðallega á berjum, fræjum og skordýrum, svo og á ýmsum úrgangi og hræjum, og eru mest á ferli að næturlagi. Þær grafa sér holur í móa og moldarjarðveg eða búa um sig undir steinum og gera sér þar forðabúr og hreiður en þegar hart er í ári leita þær oft í húsaskjól og eru mjög duglegar að klifra. Á Íslandi eru þær reyndar algengar í húsum allt árið.

Hagamýs tímgast ört en það ræðst þó mjög af tíðarfari og aðstæðum. Meðgöngutími þeirra er 25-26 dagar og meðalfjöldi músarunga er um 5. Þeir fæðast hárlausir og blindir en vaxa hratt; mýsnar verða kynþroska um tveggja mánaða gamlar og nokkrar kynslóðir geta því fæðst á einu ári. Þar sem hlýtt er í veðri og fæða næg geta þær tímgast mestallt árið en í kaldari löndum tímgast þær aðeins á sumrin, jafnvel aðeins í júní og júlí. Mýsnar lifa sjaldan lengur en eitt ár.

Á Íslandi eru helstu óvinir hagamúsarinnar refir, minkar, ýmsir fuglar, svo sem uglur og fálkar, og svo auðvitað kettir.

Tilvísanir breyta

  1. Atli Magnússon og Örnólfur Thorlacius. (2003). Dýraalfræði fjölskyldunnar. Reykjavík: Skjaldborg ehf.

Tenglar breyta

 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu