Hóladómkirkja stendur á Hólum í Hjaltadal. Gísli Magnússon biskup vígði kirkjuna sem nú stendur 20. nóvember 1763. Laurids de Thurah yfirhúsameistari Dana gerði tillöguuppdrátt að steinkirkjunni og fól múrarasveininum Johan Christhop Sabinsky að fara til Íslands og stjórna verkinu. Rauði steinninn sem kirkjan er byggð úr var fenginn úr Hólabyrðu í nágrenninu. Á meðan að á kirkjubyggingunni stóð voru gerðar þó nokkrar breytingar frá tillöguuppdrætti Thurahs og réði þar mestu ýmsar ákvarðanir Gísla biskups. [1]

Hóladómkirkja
Hóladómkirkja
Hólar í Hjaltadal (12. nóvember 2007)
Almennt
Prestakall:  Hofsós- og Hólaprestakall
Núverandi prestur:  Halla Rut Stefánsdóttir
Byggingarár:  1757-1763
Hóladómkirkja á Commons

Sú kirkja sem nú stendur er sjöunda kirkjan sem stendur á Hólum og fimmta dómkirkjan:

  1. Kirkja Oxa Hjaltasonar, um 1050
  2. Önnur Hólakirkja, eftir 1050, fyrir 1106
  3. Kirkja Jóns Ögmundssonar, eftir 1106
  4. Kirkja Jörundar Þorsteinssonar fyrir eða um 1300 (Auðun rauði hóf smíði steinkirkju en lauk ekki)
  5. Kirkja Péturs Nikulássonar, eftir 1394
  6. Kirkja Halldóru Guðbrandsdóttur, 1627
  7. Núverandi steinkirkja, byggð í tíð Gísla Magnússonar, 1763 [2]

Verðmæti kirkjunnar breyta

Nokkur menningarsöguleg verðmæti eru í kirkjunni, meðal annars altarisbrík sem talið er að Jón Arason hafi gefið kirkjunni í upphafi sextándu aldar, önnur brík í síðgotnenskum stíl sem talin gerð í Nottingham í Englandi um 1470 og róðukross í fullri líkamsstærð, í gotneskum stíl, líklega frá fyrri hluta sextándu aldar.[3]

Hólabrík breyta

Altaristaflan í Hóladómkirkju er nefnd Hólabrík. Hún er frá kaþólskum tíma í gotneskum stíl, að öllum líkindum gerð í Þýskalandi á 16. öld. Sagt er að Jón Arason biskup hafi gefið kirkjunni hana á fyrri hluta 16. aldar. Líkneskin eru útskorin úr fugla-kirsuberjavið og gifsuð en bríkin er úr eik, gifsuð, máluð og gyllt. Bríkin hefur varðveist vel miðað við aldur, en þegar gert var við hana á árunum 1985-89 fundust mörg af einkennistáknum líkneskjanna bak við eitt myndverkið og því hefur verið hægt að gera hana sem líkasta upprunalega eintakinu.

Bríkinni stolið breyta

 
Dómkirkjan á Hólum (1814/15)

Árið 1550, eftir að Jón Arason var hálshöggvinn í Skálholti, tóku danskir hermenn sig til og rændu verðmætum munum úr Hólakirkju og þar á meðal Hólabríkinni. Þegar þeir voru komnir hálfa leið til skips síns með bríkina, þá sliguðust hestarnir undan þyngdinni á bríkinni og hermennirnir gátu hana hvergi hreyft og urðu því að skilja hana eftir. Er Hólamenn komu til að sækja Hólabríkina heim í kirkjuna, segir sagan að bríkin hafi reynst þeim létt og hestarnir skokkuðu með hana aftur í kirkjuna.

W.H. Auden í Hóladómkirkju breyta

Breska skáldið W.H. Auden flakkaði um Ísland árið 1937. Þar á meðal fór hann í Hóladómkirkju og skrifaði um hana og altarisbríkina í Letters from Iceland: [4]

 
Hólar voru biskupssetur, og ég var næsta morgun í kirkjunni, sem er jafnljót og flest önnur mótmælendaguðshús. Einu minjar fyrri tíðar er útskorin altaristafla. Ég hamraði á orgelið, lét bækur og knépúða vega salt á altarisstjökum, stóð á altarinu á sokkaleistunum og kveikti á eldspýtum til þess að reyna að ljósmynda útskurðinn. Dularfullar grimmúðugar persónur hefjast af bakgrunni og húðstrýkja fanga án þess að líta á þá. Viðutan hestar horfa inn í einhvern fjarlægán heim. Höfuðið á öðrum ræningjanum er keyrt aftur, og á enni hans dansar björn sem heldur á barni. Þéttskipaðar persónur, Himnadrottningin með turn, Sankti-Pétur með engan hnakka o. s. frv., rísa eins og grískur kór til hægri og vinstri við miðtöfluna.
 
 
— Letters from Iceland, bls. 118-19

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  1. „Vefur Hóladómkirkju“. Sótt 24. mars 2008.
  2. „Vefur Hóladómkirkju“. Sótt 24. mars 2008.
  3. „Vefur Hóladómkirkju“. Sótt 24. mars 2008.
  4. Skáldin og Hóladómkirkja; grein í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1973

Tenglar breyta

65°44′01″N 19°06′55″V / 65.733611°N 19.115278°V / 65.733611; -19.115278