Hávarðar saga Ísfirðings

Hávarðar saga Ísfirðings er Íslendingasaga og er ein af Vestfirðingasögum. Þar segir frá deilum Hávarðar og Þorbjörns Þjóðrekssonar nábýlismanns hans. Þuríður móðir Þjóðreks var dóttir Steinólfs hins lága.

Hávarður bjó á Blámýri og hét kona hans Bjargey Valbrandsdóttir (sonar Eyvindar knés, landnámsmanns í Álftafirði) en sonur þeirra Ólafur. Hann lenti í deilum við Þorbjörn, sem bjó á Laugabóli, og kynti Vakur systursonur Þorbjarnar undir, en honum er svo lýst í sögunni að hann var „maður lítill og smáskitlegur, vígmáligur og títtmáligur, fýsti Þorbjörn frænda sinn jafnan þess er þá var verr en áður“. Fór svo að Þorbjörn og menn hans fóru að Ólafi og felldu hann en hann var þá átján ára.

Foreldrum hans varð mikið um og lagðist Hávarður í rekkju en Bjargey eggjaði hann til að fara og krefjast bóta fyrir víg sonarins. Hann fór þá til Þorbjarnar, sem bauð honum afgamlan klár í sonarbætur. Hávarður fór þá heim og lá tólf mánuði í rekkju. En næsta sumar segir Bjargey Hávarði að ríða til þings og krefjast bóta. Hávarður fékk liðsinni Gest spaka Oddleifssonar og Steinþórs á Eyri og gerðu þeir sætt en Þorbjörn ónýtti hana.

Þá leitaði Bjargey til bræðra sinna er hétu Valbrandur, Ásbrandur og Þorbrandur, og fékk syni þeirra til liðs við Hávarð. Fóru þeir saman að Þorbirni og drápu hann og menn hans. Gestur Oddleifsson gerði sætt um vígin og voru systursynir Bjargeyjar gerðir útlægir í nokkur ár en Hávarði var gert að flytja af Vestfjörðum og flutti hann sig þá í Svarfaðardal og settist þar að.

Hávarðar saga er talin hafa verið rituð um miðbik 14. aldar og því telst hún til hinna yngri Íslendingasagna. Hún er jafnframt stutt í sniðum. Sú gerð Hávarðar sögu sem varðveist hefur er sögð vera sprottin úr eldri gerð sögunnar sem nú er glötuð og bendir allt til þess að hin varðveitta saga hafi verið í letur út frá munnlegri varðveislu þeirrar sögu. Þar af leiðandi hefur ýmislegt riðlast til hvað varðar landfræðilýsingar og nöfn persóna en höfundur Hávarðar sögu ruglar oft saman slíkum atriðum. Hávarðar saga er einungis varðveitt í pappírshandritum.